Aðgerðir í efnahagsmálum
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég veitti því athygli að hæstv. menntmrh. vildi gera orð Reykjavíkurbréfs í dag að sínum og að sumu leyti kom það mér ekki á óvart. Má kannski segja að þegar ég fer að skamma Reykjavíkurbréf og Morgunblaðið sé eggið farið að kenna hænunni, en samt er það svo að það kemur stundum fyrir. En í þessu Reykjavíkurbréfi segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þótt þinghald sé þannig með hefðbundnum hætti eru aðstæður aðrar en oft áður. Nú stendur þjóðin frammi fyrir alvarlegum vandamálum. Hávaðasamt gaspur þingmanna og ráðherra dugar skammt til lausnar á þeim djúpstæða vanda. Eini ráðherrann í núverandi ríkisstjórn sem talar um þessi vandamál af festu og ábyrgð um þessar mundir er Halldór Ásgrímsson sjútvrh. Í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum dögum sagði hann þann sannleika umbúðalaust að enginn grundvöllur væri til nokkurra kauphækkana á næsta ári. Þvert á móti væri óhjákvæmilegt að skerða kjör fólks og eina spurningin væri sú með hvaða hætti það yrði gert.``
    Þetta eru athyglisverð ummæli, sérstaklega með það í huga hvernig hæstv. menntmrh. komst að orði áðan þegar hann var að lýsa ágæti Reykjavíkurbréfsins og þess málflutnings sem Morgunblaðið hefur í frammi, en einkum þó með tilliti til ræðu hv. 4. þm. Vesturl. Það skyldi þó aldrei vera svo, ef vantraust yrði flutt í þinginu, að eini ráðherrann sem félli í vantraustinu væri einmitt sá ráðherrann sem ritari Reykjavíkurbréfs ber mest traust til, hæstv. sjútvrh., nema íhaldið komi honum þá til hjálpar. Það er nú svo.
    Ég skal svo ekki við þessa umræðu tala frekar um efnisatriði ræðu menntmrh., sem laut almennt að efnahagsmálum og atvinnumálum, en hlýt á hinn bóginn að ítreka að hæstv. sjútvrh. talar hér umbúðalaust um að nauðsynlegt sé að skerða kjörin í landinu, færa niður kaupgjaldið í landinu, og hæstv. menntmrh. sagði í sinni ræðu áðan að hann væri því algerlega andvígur. Samt sem áður liggur það fyrir í nál. frá meiri hlutanum að án fyrirvara mælir fulltrúi Alþb. með því að bráðabirgðalögum Þorsteins Pálssonar verði breytt á þann veg að kaupskerðing verði miðað við þau lög. Í staðinn fyrir að laun í landinu eigi að hækka um ríflega 14% frá 1. jan. til 31. des. vill hæstv. menntmrh. og Alþb. án fyrirvara breyta þeim ákvæðum þannig að kauphækkanirnar verði ekki nema 10% frá upphafi til loka árs. Það er því alveg laukrétt, sem hv. 14. þm. Reykv. sagði áðan í frammígripi, að hæstv. menntmrh. og Alþb. eru komin inn á niðurfærsluleiðina í kaupgjaldi. Og þetta er ekki í fyrsta skiptið. Það kom okkur sjálfstæðismönnum ekki á óvart að það skyldi verða fyrsta verk hæstv. menntmrh. nú að skerða launin frá því sem áður var ákveðið eins og það var síðasta verk hans síðast þegar hann var í ríkisstjórn að skerða launin með lagasetningu fyrir fimm árum rúmum.
    Á hinn bóginn hlýt ég að ítreka fyrirspurn mína og mér finnst óþægilegt, herra forseti, að hér inni skuli ekki vera tveir hv. þm. Alþfl., hv. 9. þm. Reykn. og

hv. 3. þm. Vestf. Með hliðsjón af nál. Alþb. þyrfti ég að víkja fyrirspurn til þessara hv. þm., en á meðan, ef hægt er að koma boðum til þeirra, langar mig til að spyrja hæstv. menntmrh. í hverju fyrirvari Alþb. er fólginn varðandi 6. gr. þess frv. sem nú er til umræðu þar sem fjallað er um kjarasamning og enn fremur tel ég nauðsynlegt að fá upplýsingar um hvers vegna Alþb. hefur fyrirvara við 9. gr. en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Seðlabanka Íslands er heimilt að ákveða að verðbréfasjóðir skuli verja allt að 20% af aukningu ráðstöfunarfjár frá 1. júlí 1988 til kaupa á markaðshæfum skuldabréfum ríkissjóðs.``
    Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um hvort Alþb. sé kannski reiðubúið til þess að fallast á að þessi málsgr. falli úr lögunum eða hvaða hugmyndir Alþb. yfirleitt hefur um það.
    Það sem mig langar að spyrja hv. 3. þm. Vestf. og 9. þm. Reykn. er hvort þeir hafi fyrirvara við 2. mgr. 4. gr. frv., en eins og fram kemur í nál. meiri hl. hefur Alþb. fyrirvara um þessa málsgr., almennan fyrirvara. ,,Verkbönn, verkföll, þar með taldar samúðarvinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi mæla fyrir um, eru óheimil.`` Ég hygg að það sé rétt hjá mér að fyrirvari Alþb. sé í því fólginn að enginn af þingmönnum Alþb. muni greiða atkvæði með þessari grein og ég gat ekki skilið öðruvísi ummæli hv. 4. þm. Vesturl. áðan en svo að hann mundi greiða atkvæði gegn greininni. Nú væri fróðlegt að fá upplýsingar um hvort þessir tveir hv. þm. séu sammála fulltrúa Alþfl. í fjh.- og viðskn. um að nauðsynlegt sé að halda þessu lagaákvæði inni eða hvort þeir á hinn bóginn telji rétt að fella það eða hvort þeir e.t.v. muni kjósa að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þessi orð.
    En herra forseti. Ég varpaði þeirri fyrirspurn fram við umræðurnar síðast í hverju fyrirvari Alþb. væri fólginn. Það lá svo vel á menntmrh. í stólnum áðan. Honum fannst andartak að hann væri kominn aftur í stjórnarandstöðu þegar hann var að skamma Sjálfstfl. Það var svolítið vængjablak í því sem hann sagði þannig að hann gleymdi að víkja að þessu atriði sem skiptir meira máli en þótt hann sé að skamma íhaldið.