Aðgerðir í efnahagsmálum
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég vildi aðeins fyrst út af umræðum um það hér í þingdeildinni að ég hafi gerst sérstakur kröfugerðarmaður um að laun væru lækkuð í landinu segja að það er að sjálfsögðu alger útúrsnúningur að ég vilji lækka laun í landinu. Ég hef hins vegar reynt að benda á þau einföldu sannindi að launaþróunin og kostnaðarþróunin verða að vera í samræmi við tekjurnar. Ef svo er ekki fer illa. Þá fara fyrirtækin yfir um, viðskiptahalli magnast o.s.frv.
    Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá Þjóðhagsstofnun sýnir samanburður við okkar nágrannalönd að hlutdeild launa á Íslandi miðað við þjóðartekjur var svipuð og nokkru hærri en í öðrum löndum í kringum okkur fram til 1980 nema í Svíþjóð. En upp úr 1980 hefur hlutdeild launa í okkar nágrannalöndum lækkað verulega. Það eru sjálfsagt ýmsar ástæður fyrir því. M.a. hefur atvinnuleysi farið mjög vaxandi í þessum löndum og það hefur í för með sér að launafólki fækkar og launasumman, eins og gjarnan er talað um, lækkar vegna þess að atvinnuleysisbætur teljast ekki til launa. Það atvinnuleysi sem þar hefur verið hefur leitt til minni kaupmáttaraukningar í þessum löndum en annars hefði verið, en sem betur fer hefur ekki til þess komið hér á landi að verulegt atvinnuleysi hafi átt sér stað.
    Ef við lítum til síðustu tíu ára hefur launahlutfallið að meðaltali á Íslandi verið 67%, en víðast hvar í nágrannalöndunum er þetta hlutfall 65%. En eins og fram hefur komið í umræðum hér áður er því spáð að þetta hlutfall verði, þ.e. í svokölluðum vergum þjóðartekjum, hér í ár 73,6%, en spá fyrir næsta ár er 72,3%.
    Það er tekið sem dæmi að ef hlutfall launa á þessu ári hefði verið viðlíka að meðaltali í ár og undanfarin tíu ár hefðu árlegar launagreiðslur í landinu verið 12 milljörðum lægri en raun ber vitni. Það er rétt að benda á í þessu sambandi að viðskiptahalli er áætlaður á árinu 1988 11,6 milljarðar og halli ríkissjóðs verður stöðugt meiri og meiri. Fyrir nokkru var gert ráð fyrir að hann gæti orðið um 5 milljarðar, en nú eru menn jafnvel farnir að tala um að hann verði a.m.k. 7 milljarðar.
    Þetta bendir svo ekki verður um villst á að við eyðum umfram efni með einum og öðrum hætti og það er sjálfsblekking að halda að launin séu undanskilin í þessu sambandi.
    Ef litið er á kaupmáttarþróun á undanförnum árum samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar hefur kaupmáttur atvinnutekna Íslendinga vaxið frá árinu 1984 til ársins 1988 um 40%, en á sama tíma hækkaði verg landsframleiðsla á mann á föstu verðlagi um 11%. Kaupmáttur greidds tímakaups launþega innan ASÍ hækkaði um 35% frá meðaltali ársis 1984 til 3. ársfjórðungs þessa árs. Ef miðað er við dollara hefur greitt tímakaup hins vegar tvöfaldast. Árið 1984 var greitt tímakaup félaga ASÍ í dagvinnu að meðaltali 3 1 / 2 dollar, en á 3. ársfjórðungi þessa árs er tímakaupið 7,8 dollarar. Ef mælt er í SDR hefur kostnaðurinn hækkað úr 3,4 SDR í 6 SDR. Það má

geta þess til samanburðar að kaupmáttur tímakaups í iðnaði í aðildarlöndum OECD hefur aukist um liðlega 1% á árunum 1984--1987.
    Þetta er ekki sett fram af minni hálfu vegna þess að ég óski sérstaklega eftir því að laun séu lækkuð í landinu heldur til að benda á einfaldar staðreyndir og þau einföldu sannindi að ef við göngum of langt í kröfum okkar kemur það fram í viðskiptahalla, halla á ríkissjóði, vaxandi erlendri skuldasöfnun og viðskiptahalla. En hvað er verið að gera með þeim hætti? Það er fyrst og fremst verið að skerða kjör þess fólks sem lifir hér í framtíðinni, en á engan hátt erum við að bæta eigin kjör með slíku framferði.
    Það er hins vegar vandasamt verk að deila þessum stóru fjárhæðum út í samfélaginu og það hefur margur tekist á við það, bæði af hálfu ríkisvaldsins og af aðilum vinnumarkaðarins. Þar hefur ekki tekist neitt sérstaklega vel til og ástæðulaust að ásaka einn né annan í þeim efnum. En það er alveg ljóst í mínum huga að þetta hlutfall launa, þ.e. heildarsumman, stenst ekki og getur ekki varað til frambúðar. Þeir sem halda öðru fram eru að neita þeirri reynslu sem flestar þjóðir hafa orðið fyrir og neita því að horfa framan í veruleikann.
    Hv. 4. þm. Vesturl. beindi ákveðnum fyrirspurnum til mín. Ég vil taka það fram í upphafi að þegar núverandi fiskveiðistjórnun var tekin upp var lögð á það rík áhersla að auka eftirlit með veiðunum og margir hv. þm. bentu réttilega á að það væri mjög nauðsynlegt. Það var hins vegar úr nokkuð vöndu að ráða vegna þess að það er takmarkaður hópur fólks sem fylgist með þessum veiðum og verður að gera það eftir bestu getu. Ég hygg að hv. 4. þm. Vesturl. hafi verið í hópi þeirra sem hvað mest bentu á þetta mál og ítrekaði það mjög oft í sínu máli á Alþingi.
    Það hefur verið reynt að fylgjast með veiðum og vinnslu eftir bestu getu í samræmi við lög og reglur og mjög mikill fjöldi úrskurða hefur verið gefinn út og innheimtur í samræmi við þessa löggjöf.
    Nú er rétt að taka fram að hér er ekki um refsiverðan verknað að ræða og þessi mál ganga yfirleitt vel fyrir sig án þess að nokkur vandræði hljótist af
og það er að sjálfsögðu krafa allra þeirra sem fiskveiðar stunda við Íslandsstrendur að það sé haft sem best eftirlit með þessum málum og eitt sé látið yfir alla ganga.
    Ég vil hins vegar ítreka að ég mun ekki hér á Alþingi ræða einstök mál er þetta varða. Ég tel að Alþingi Íslendinga sé ekki vettvangur til að ræða mál með þeim hætti sem hv. þm. gerði hér. Hann hefur kosið að reka þetta mál á ákveðnum vettvangi og það var að hans frumkvæði og það verður að hljóta þá meðferð sem þar er til stofnað. Ég tel það á allan hátt óviðeigandi og ítreka það, sem ég hef margoft áður sagt, að ég mun ekki ræða mál einstakra aðila hér á Alþingi sem þetta varða.
    Hv. þm. spurði hins vegar um hvort þessum málum yrði komið fyrir með þeim hætti sem hefur verið á undanförnum árum eða hvort þar yrði einhver breyting

á. Það verður haft eftirlit með fiskveiðunum með þeim hætti sem lögin gera ráð fyrir meðan þeim er ekki breytt. Það er hins vegar með þessi lög eins og öll önnur lög að þau kunna að þarfnast endurskoðunar og það hefur verið unnið nokkurt starf í ráðuneytinu til undirbúnings þess að setja um þetta mál ítarlegri löggjöf, m.a. vegna þess hversu nauðsynlegt er að hafa sem best eftirlit með fiskveiðunum. Það mál er enn á undirbúningsstigi, en þar hafa verið kvaddir til hæfir lögfræðingar sem eru utan ráðuneytisins. Ég ítreka því að að sjálfsögðu verður þessu eftirliti haldið áfram með þeim hætti sem þeir menn sem þekkja best til leggja til. Þetta er að sjálfsögðu ekki í daglegum verkahring ráðherra eins og hv. þm. lætur nánast í skína í þessu sambandi. Þetta er daglegt verkefni starfsmanna sjútvrn. sem þeir reyna að framkvæma eftir bestu getu og bestu samvisku og ég treysti þeim ágætlega í því sambandi.