Aðgerðir í efnahagsmálum
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegur forseti. Vegna ummæla hæstv. ráðherra Halldórs Ásgrímssonar um launastefnu núv. ríkisstjórnar vil ég láta það koma skýrt fram að þegar við sjálfstæðismenn erum að ræða um þessi mál er það gert fyrst og fremst á grundvelli þess að við viljum leggja áherslu á að efla stöðu atvinnuveganna, en við viljum ekki gera það á kostnað þess fólks sem þar starfar.
    Þegar verið er að ræða um launastefnuna eins og gert hefur verið á hinu háa Alþingi undanfarið hefur þetta mál verið einfaldað um of, en í ræðu sinni áðan kom hæstv. ráðherra nánar inn á hvað hann ætti við þegar hann talar um að það þurfi að lækka laun fólks. Hann ræddi um það, sem er auðvitað rétt, að það þarf að ræða um heildarlaunasummuna og sagði eitthvað á þá leið að hún stæðist ekki. En það fer töluvert eftir því hvernig staða atvinnuveganna er hver á að vera hlutdeild launa í vergum þjóðartekjum. Það sem skiptir máli í þessu sambandi er að gera sér grein fyrir því hvernig launin skiptast annars vegar milli þeirra sem starfa úti í atvinnulífinu og svo hinna sem eru í hinum opinbera geira. Um það hefur hæstv. ráðherra ekkert viljað fjalla, hvorki í umræðunum nú né þegar rætt var um þessi mál í Sþ. um daginn. Það er mikið atriði í sambandi við þessi mál hver tekjuskiptingin er. Hver er hlutur láglaunafólks, hver er hlutur millitekjufólks og hver er hlutur hátekjufólks í heildarlaunasummunni? Þetta er grundvallaratriði sem menn verða að gera sér grein fyrir þegar verið er að fjalla um þessi mál.
    Þá hefur það líka mikil áhrif á breytingar í sambandi við hlutfall launa í vergum þjóðartekjum hvernig heildartekjur heimilanna hafa aukist á liðnum árum með aukinni þátttöku kvenna úti á vinnumarkaðnum. Sem sagt: Það eru mörg atriði sem ekki hefur verið fjallað um í þessari umræðu sem tengjast launum og launamálum, en ég vil undirstrika að af hálfu okkar sjálfstæðismanna kemur ekki til greina að færa niður laun með þeim hætti sem ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa raunverulega verið að tala fyrir og hafa hamrað á margir hverjir allt frá því að sú hugmynd kom fram um niðurfærslu launa í september sl. Það er stefna sem Sjálfstfl. getur ekki tekið þátt í eða staðið að. Hins vegar hefur Sjálfstfl. lagt áherslu á að með því að leiðrétta gengið yrðu allir landsmenn, launafólk sem aðrir, að taka á sig tímabundna kjaraskerðingu.
    Varðandi þá umræðu sem fór fram áðan af hálfu hæstv. menntmrh., en mér fannst satt að segja furðulegt hvernig hæstv. ráðherra fjallaði um þessi mál, þá vil ég segja nokkur orð, en áður en ég vík að hæstv. ráðherra vil ég víkja að tveimur atriðum í ræðu hv. þm. Eiðs Guðnasonar. Annað lýtur að svonefndum matarskatti og afstöðu sjálfstæðismanna til hans og hitt er um kvennalistakonur.
    Eiður Guðnason, 3. þm. Vesturl., leyfði sér enn einu sinni að halda því fram, sem margir alþýðuflokksmenn hafa gert, að sjálfstæðismenn hafi samþykkt matarskattinn svonefnda með glöðu geði á

sínum tíma. Hann gleymir því ætíð þegar þetta er rætt og þegar fjallað er um matarskattinn að það voru ýmsir þingmenn Sjálfstfl. sem gerðu alvarlegar athugasemdir við matarskattinn á sínum tíma þó svo að þeir í þeirri stöðu sem þá var greiddu atkvæði með þessari skattheimtu. En í fyrirvörum gerðu ýmsir þingmenn Sjálfstfl. grein fyrir afstöðu sinni með tilliti til þess að virðisaukaskattur átti að koma til framkvæmda á miðju ári 1989, þeir áskildu sér allan rétt til að gera tillögur um að áður en sú skattheimta kæmi til framkvæmda yrði virðisaukaskatturinn í tveim þrepum, þ.e. önnur prósentan, sem yrði á matvælum, yrði lægri en almenna prósentan. Okkar hugmynd nokkurra var að virðisaukaskattur á matvælum gæti orðið eitthvað um 10% eða lægri, en hin prósentan yrði um 25%. Þetta veit hv. þm. og það er ástæðulaust að tíunda það oftar, en það er eins og þeir vilji ekki muna eftir því, ágætir alþýðuflokksmenn, sérstaklega núv. hæstv. utanrrh. sem hefur hamrað á því og sagt að við höfum brugðist sér í sambandi við þetta. Við margítrekuðum það við hann, bæði í einkaviðtölum sem og annars staðar, að við værum ekki samþykkir einni skattprósentu í virðisaukaskattinum.
    Varðandi kvennalistakonur verð ég að segja að ég undrast orðalag hv. þm. Eiðs Guðnasonar þegar hann vék orðum sínum að þeim. Hann talaði um tvöfeldni kvennalistakvenna vegna þess að þær vildu ekki taka þátt í núverandi ríkisstjórn. Ég verð að segja að mér finnst furðulegt að hv. þm. skuli leyfa sér að tala um tvöfeldni. Kvennalistakonur hljóta að hafa sama rétt og aðrir stjórnmálamenn og aðrir þingmenn til að meta það sjálfar hvort, hvernig og á hvaða grundvelli þær tækju sæti í ríkisstjórnum landsins. Að flokka það undir tvöfeldni finnst mér fyrir neðan allar hellur. Það atriði í hugmyndum þeirra kvennalistakvenna að setja lög um lágmarkslaun þarf ekki að vera neitt út í hött og það brýtur ekki í bága við nein mannréttindi. Um þessi mál hefur stundum verið fjallað á fundum í verkalýðsfélögum. Ég segi ekki á þingum Alþýðusambandsins. En það þykir engin goðgá víða í vestrænum lýðræðisríkjum að setja lög um ákveðin lágmarkslaun. Í Bandaríkjunum gilda t.d. ákveðin lágmarkslaun samkvæmt lögum þannig að það þarf ekkert að vera út í hött að menn ræði það á Íslandi að þetta geti komið til greina. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að mér fannst það koma til greina um tíma og jafnvel enn,
(Gripið fram í.) hv. þm. og verkalýðsleiðtogi, alþýðuflokksmaður Karl Steinar Guðnason. Ef verkalýðshreyfingunni tekst ekki að tryggja lægst launaða fólkinu mannsæmandi laun komast alþm. ekki fram hjá því að fjalla um það. Ég held að hv. þm. ætti að kynna sér hver eru kjör ýmissa Sóknarkvenna sem vinna á spítölum í svokölluðum láglaunastörfum. Þær eru ekkert of sælar af þeim launum sem þær hafa fyrir sín vaktavinnustörf á spítölum Reykjavíkurborgar og víðar úti um land. Ég segi fyrir mitt leyti: Ef verkalýðshreyfingunni tekst ekki að tryggja fólkinu mannsæmandi laun hljóta hv. alþm. að verða að fjalla

um það. Því miður er verkalýðshreyfingin nú í mjög alvarlegri lægð sem ég mun víkja hér að og skýrir nokkuð afstöðu alþýðubandalagsmanna á hinu háa Alþingi til verkalýðsforingja Alþb.
    Þá vil ég víkja orðum mínum að hæstv. ráðherra Svavari Gestssyni. Ég verð að segja að þegar hæstv. ráðherra brá sér á skeið hugsaði ég sem svo: Nú er hæstv. ráðherra loksins farið að líða vel í ráðherrastólnum og harma ég það mjög því það hlutskipti getur ekki orðið gott þegar fram í sækir.
    Einhvern tíma hefði hæstv. ráðherra Svavar Gestsson hlustað á rödd alþýðunnar og þegar ég tala um rödd alþýðunnar á ég við rödd fólksins í Alþýðusambandi Íslands og innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Einhvern tíma hefði hæstv. ráðherra hlustað á Ásmund Stefánsson, forseta ASÍ, flokksbróður sinn. Einhvern tíma hefði hann tekið undir ítrekaða kæru forseta ASÍ, Ásmundar Stefánssonar, um að í því frv. sem við erum að fjalla um væri hugsanlega um mannréttindabrot að ræða að þeirra mati, svo alvarlegt mannréttindabrot að flokksbróðir ráðherra, Ásmundur Stefánsson, hefur séð sig knúinn til að kæra núv. ríkisstjórn með ítrekun sinni um að það sé verið að fremja mannréttindabrot á verkalýðshreyfingunni á Íslandi. Þessi kæra liggur núna fyrir hjá Aþjóðavinnumálastofnuninni í Genf. Það sem forseti ASÍ og verkalýðshreyfingin kærir sérstaklega til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eða þess dómstóls sem fjallar um þessi mál er seinni mgr. 4. gr. frv. til l. um aðgerðir í efnahagsmálum, máls nr. 20.
    Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann að taka þátt í því að fremja mannréttindabrot á íslenskri verkalýðshreyfingu með því að sitja í núv. ríkisstjórn og greiða atkvæði með því frv. sem hér er til umræðu?
    Hæstv. ráðherra talaði um að Sjálfstfl. hefði ekki lagt fram neinar tillögur í þeim málum sem hér eru til umfjöllunar. Þetta er alrangt. Hæstv. ráðherra veit að í allri umfjöllun þessara mála á þingi hefur Sjálfstfl. lagt alveg sérstaka áherslu á að atvinnulífið hefði forgang. Þetta hefur verið og var stefna Sjálfstfl. í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og vegna þessa slitnaði upp úr stjórnarsamstarfinu, vegna þess að samstarfsflokkar Sjálfstfl. í þáv. ríkisstjórn vildu ekki láta atvinnulífið hafa forgang. Núv. ríkisstjórn lofaði því að atvinnulífið skyldi fá forgang, en hvað hefur hún gert síðustu þrjá mánuði? Ekki neitt. Og staða atvinnuveganna fer hríðversnandi. Hún hefur aldrei verið verri en síðustu 2--3 vikur.
    Hæstv. ráðherra vísaði í Reykjavíkurbréf. Ég þarf ekki að gera það frekar heldur en hv. þm. Halldór Blöndal gerði áðan, en það væri vissulega fróðlegt fyrir þingheim og aðra ef hæstv. ráðherra Svavar Gestsson tæki undir það sem segir í umræddu Reykjavíkurbréfi, með leyfi forseta: ,,Eini ráðherrann í núverandi ríkisstjórn sem talar um þessi vandamál af festu og ábyrgð um þessar mundir er Halldór Ásgrímsson sjútvrh.``
    Hæstv. ráðherra hlýtur að taka undir þetta, enda

vitnaði hann í Reykjavíkurbréf eins og Biblíuna. En það er annað atriði sem hæstv. ráðherra kom aldrei inn á sem stendur í Reykjavíkurbréfi þar sem segir, og það hlýtur að vera lágmarkskrafa bæði Alþingis og þjóðarinnar, að fyrst þurfi að nást samstaða innan stjórnarflokkanna. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hljóta að hafa ábyrgð og skyldur eins og stjórnarandstaðan. Við höfum mjög skýra og ákveðna stefnu í okkar málum, en ríkisstjórnin sem ber ábyrgðina hefur ekki enn komið sér saman um hvernig hún ætlar að leysa þessi vandamál. Það getur vel verið að hér komi fram frumvörp sem leysi vandamál ríkissjóðs, sem ég efast um, en það hafa ekki komið neinar tillögur sem leysa vanda atvinnulífsins, ekki ein einasta tillaga sem leysir vanda fiskvinnslunnar, ekki ein einasta tillaga sem leysir vanda almenns iðnaðar og ekki ein einasta tillaga sem styrkir ferðamálaiðnaðinn sem hefði þurft að fá niðurstöðu í sínum málum, þ.e. rétta gengisskráningu, þegar undirbúningur er hafinn að næstu vertíð sem gerist með margra, margra mánaða aðdraganda ef vel á að takast fyrir ferðamálaiðnað á Íslandi árið 1989. Það er hugsanlega orðið of seint, því miður, vegna þess dráttar sem orðið hefur á því að ríkisstjórnin tæki afstöðu til atvinnuveganna. Hún hefur hins vegar verið önnum kafin við að finna út leið til að skattleggja þjóðina og gera atvinnuvegunum enn erfiðara fyrir.
    Sjálfstfl. og við sjálfstæðismenn á þingi höfum ekki farið dult með og við höfum lagt það til bæði í nefndarálitum og annars staðar, og það hefur einnig komið fram við afgreiðslu fjárlaga, að við erum á móti skattahækkunum. Við viljum að ríkisútgjöld séu svo til óbreytt frá því sem var vegna ársins 1988
og við viljum láta haga allri fjárlagagerð í samræmi við það. En hvernig er það hægt? Það er hægt með því, eins og ég sagði áðan, að hafa ríkisútgjöld svo til óbreytt á milli ára sem felur í sér niðurskurð. Þann niðurskurð má framkvæma með ýmsu móti. T.d. mætti hagræða í rekstri hins opinbera. Þær kröfur eru gerðar til atvinnulífsins og fyrirtækja í atvinnulífinu að þar eigi sér stað hagræðing í rekstri. Það mætti stjórna betur mörgum opinberum stofnunum og ráðuneytum og það mætti skera niður ýmsa rekstrar- og framkvæmdaliði. En það er nú einu sinni ríkisstjórn í landinu sem hefur þetta framkvæmdarvald undir höndum og það er hennar fyrsta skylda, enda hefur hún betri aðstöðu til þess en stjórnarandstæðingar, að segja til um hvar þetta eigi að koma til framkvæmda endanlega.
    Ég skal ekki vera mjög langorður um þetta frv. og þau mál sem nú eru til umræðu, virðulegi forseti, en ég vil þó segja þetta að lokum: Það er krafa Sjálfstfl. að nú þegar komi fram tillögur af hálfu ríkisstjórnarinnar um hvernig hún hyggst leysa vanda atvinnuveganna. En það sem mér finnst e.t.v. athyglisverðast og ég vil segja einnig hörmulegast að ýmsu leyti fyrir þann flokk sem um ræðir, þ.e. Alþb., er að svo virðist sem ráðherrum Alþb. sé farið að líða mjög vel í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem sést á því að þeir eru í fyrsta lagi reiðubúnir að

skerða kjör fólksins, þeir eru einnig reiðubúnir að fremja ákveðin mannréttindabrot sem Alþýðusambandið og BSRB hafa mótmælt og kært og þeir eru einnig reiðubúnir og mjög ánægðir að sitja undir forustu forsrh. sem hefur margsinnis lýst því yfir að lækka verði laun fólksins í landinu án þess að skilgreina nánar hvernig hann hyggst útfæra það. En á sama tíma neita þessir ágætu menn að leiðrétta gengið og laga stöðu sjávarútvegsins og fiskiðnaðar í samræmi við það. Þó hefur hæstv. forsrh. margsinnis sagt að gengi íslensku krónunnar væri ranglega skráð og nefnt í því sambandi töluna 15%. Við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á að gengið sé rétt skráð og að atvinnuvegirnir og sérstaklega útflutningsatvinnuvegirnir séu reknir hallalaust. Við leggjum áherslu á samdrátt í ríkisútgjöldum og einnig leggjum við áherslu á óbreytta skatta. Þessum leiðum hefur hæstv. núv. ríkisstjórn hafnað.
    En að lokum vildi ég ítreka spurningu hv. þm. Halldórs Blöndals til hv. þm. Karvels Pálmasonar. Það væri fróðlegt að fá að heyra afstöðu hans í fyrsta lagi til þess sem Alþýðusamband Íslands hefur ákveðið með kæru sinni um að í 4. gr. þess frv. sem hér er til umræðu felist mannréttindabrot og einnig væri fróðlegt að heyra hvort hann sem stjórnarmaður í miðstjórn Alþýðusambands Íslands ætli að greiða atkvæði með öðrum hætti hér á hinu háa Alþingi en hann virðist hafa gert í miðstjórn Alþýðusambandsins. Þar virðist hv. þm. hafa samþykkt að kæra beri ríkisstjórn fyrir mannréttindabrot, en þegar hann kemur á Alþingi verður fróðlegt að sjá hvernig hann hyggst bregðast við sinni eigin samþykktu kæru. Er ekki hv. þm. í miðstjórn Alþýðusambandsins? ( KP: Jú, jú.) Ég hlýt að gera ráð fyrir því að hv. þm. gegni skyldustörfum sínum þar og mæti á miðstjórnarfundum og hafi tekið þátt í afgreiðslu þessa máls, en hann getur þá, hv. þm., leiðrétt það eða komið með skýringar hér á eftir. ( Gripið fram í: Allt kemur þetta í ljós.)