Aðgerðir í efnahagsmálum
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið en ég taldi nauðsynlegt að benda á nokkur atriði í sambandi við það sem kom fram í svari hæstv. sjútvrh. við því sem ég sagði í fyrri ræðu minni.
    Í fyrsta lagi benti hæstv. sjútvrh. á að allir hefðu verið sammála um, þegar gengið var frá núverandi fiskveiðistefnu, að nauðsynlegt væri að hafa eftirlit með veiðunum og fylgjast með því að ekki yrði farið fram úr kvóta og verið að plata kerfið, ef mætti orða það svo. Hann sagði einnig að ég hefði í umræðu um þann þátt bent á ýmsar leiðir sem þar væri hægt að fara og væru farnar. Þetta er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, ég benti á það. Kannski einmitt vegna þess að ég benti á það finnst mér erfitt að vera í þeim sporum að geta ekki haldið þeirri umræðu áfram og gagnrýnt ýmsa hluti í sambandi við eftirlit með fiskveiðum vegna þess að ég hef verið ákærður fyrir að vera einn af aðilunum í þeim leik.
    Það er dálítið sérstök staða að vera í þeirri stöðu inni á hv. Alþingi að geta ekki rætt um þessi mál nema finna fyrir því að þeir sem taka þátt í umræðunni eða hlusta á hana geta sagt sem svo: Ja, þessi hv. ræðumaður, það er nú ekki mikið mark á honum takandi vegna þess að hann hefur verið ákærður fyrir að hafa tekið þátt í öllu þessu svindli. Þannig eru hlutirnir, þannig hefur þetta verið og það er alveg rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði að á undanförnum árum hef ég gagnrýnt fiskveiðistefnuna og einmitt þennan þátt hennar, þ.e. eftirlitið og hvað væri að gerast í sambandi við þessa fiskveiðistefnu þegar verið er að veiða miklu meira en kvótinn raunverulega gerði ráð fyrir.
    Hæstv. ráðherra sagði að búið væri að gefa út fjölda úrskurða, ekki efa ég það. Ég veit líka að búið er að gefa út fjölda úrskurða og maður heyrir ýmislegt um þá úrskurði. Maður veit að sumir hverjir standa í þeim sporum að verða að viðurkenna á sig sök jafnvel þó að þeir séu saklausir vegna þess að frammi fyrir framkvæmdarvaldinu er erfitt að halda fram málum á þann veg að þurfa að sanna sakleysi sitt. Sumir úrskurðir sem búið er að gefa út munu jafnvel bíða eftir því að þetta einstaka mál, sem ég hef hér rætt og snertir mig sjálfan, fái framgang hjá dómstólum. Hæstv. ráðherra sagði að ég hefði kosið þá meðferð mála að reka málið fyrir dómstólum. Hvað átti ég að gera annað? Átti ég að gefast upp fyrir ósannindum ráðherrans og samþykkja? Hvaða leið var mér fær önnur en að vísa málinu til dómstóla? Þetta var eina leiðin til að reyna að sanna sakleysið. Ég er ekkert viss um að geta sannað sakleysi mitt gegn framkvæmdarvaldinu, bæði gegn sjútvrh. og nú dómsmrh. Ég er alls ekki viss um það. Það er alveg útilokað að hægt sé að treysta því að hægt sé að koma málum á þann veg, þegar búið er að ákæra mann og búa til sakir, að hægt sé að hreinsa sig af þeim frammi fyrir dómstólum. En ég treysti íslensku réttarkerfi og meira að segja hæstv. dómsmrh. það vel að þegar öllu er á botninn hvolft verði sannað sakleysi mitt og okkar félaganna sem að þessu máli

stöndum.
    Ég tala um þetta sem mitt mál. Ég er ekki eins og hæstv. ráðherra að ég segi að þetta sé mál starfsmanna minna. Þegar þessir hlutir áttu að hafa komið fyrir vestur á Hellissandi var ég meðal ykkar hv. þingmanna á Alþingi. Ég var því miður ekki að stjórna því ágæta fólki sem skilaði mjög góðri nýtingu út úr mínu fyrirtæki, því miður. En ég er stoltur af því að vera málsvari þeirra. Ég er ekki eins og hæstv. ráðherra sem segir að hann sé ekki ábyrgur fyrir því sem sínir starfsmenn gera. Þetta eru ekki hin daglegu störf ráðherra, þetta eru störf starfsmannanna. Slík er nú reisnin. Gæti verið að ráðherrann sé að búast við því að hann fái þann dóm hjá íslenskum dómstólum að það sem hann hefur ákært Jökul hf. fyrir verði sannað að séu ósannindi og uppspuni? Ætli hann sé að fría sig frá því að taka ábyrgð á því máli? Ég skal standa fyrir því máli svo lengi sem það verður rekið fyrir dómstólum og áfram. Jafnvel þó að ráðherra og það lið sem að honum stendur hafi tök á því að halda við sekt og halda við ákæru.
    Hæstv. ráðherra segir að það muni verða haldið áfram að reka tryppin eins og lög gera ráð fyrir. Ja, mikil er sú reisn að halda áfram að reka mál á réttarríkinu Íslandi á þann veg að menn standa frammi fyrir því að verða að sanna sakleysi sitt. Haldið verði áfram þó að enginn sé til að vitna um hlutina, enginn til að bera vitni um að þessir hlutir hafi skeð, þá skuli samt haldið áfram málarekstri og haldið áfram að ákæra. Ja, mikil er reisnin. Ég segi að því miður hefur dómsmálaráðherra Íslands raunverulega staðfest að þannig eigi að reka dómsmál og sakamál á Íslandi. Ráðherra sagði að þetta væri ekki sakamál, þetta væri ekki ákæra um að hafa gert neitt af sér. Í þessu felst, eins og ég sagði hér áðan, ásökun um gróft fals. Ásökun um að hafa dregið stórkostlegt fjármagn fram hjá skatti, opinberum aðilum og launum til starfsmanna og hvað sem tengist slíkum feluleik. Hvað er sakamál ef þetta er það ekki? Ég veit það ekki. Ég get endurtekið að sá sem ber ábyrgð á því að falsa skýrslu sem er send opinberum aðilum, sá sem ber ábyrgð á því að hafa stungið einhvers staðar til hliðar einni og hálfri millj. kr. án þess að
tíunda það til opinberra aðila á að verða sviptur þinghelgi. Það á að óska eftir því að þinghelgi verði svipt af slíkum manni. Það á að óska eftir því að slík mál verði rannsökuð. Ekki á þann veg að viðkomandi þurfi að sanna sakleysi sitt heldur að þeir sem halda því fram þurfi að sanna sökina.
    Lögin þurfa endurskoðunar við, ég held að það sé mikið satt. Þau hafa líka verið endurskoðuð smávegis á undanförnum árum, einu og einu orði hefur verið skotið inn, m.a. þegar við vorum að fjalla um þau á síðasta þingi. Þá var mikil nauðsyn að bæta því inn að sjútvrn. gæti fengið ókeypis allar upplýsingar sem það óskaði eftir hjá hverjum þeim aðila sem því dytti í hug að ákæra eða ásaka. Það varð að koma því inn að það yrði ókeypis. Það var nú öll reisnin. Það var ekki hægt að ætlast til þess að þegar ráðuneytið óskaði eftir einhverjum sérstökum upplýsingum eða

vinnu frá þessu eða hinu fyrirtækinu að það yrði gert á eðlilegan máta, borgað yrði fyrir það ef sá aðili væri ekki sekur. Nei, nei, það skyldi bara vera ókeypis. Þetta var lagfæringin sem hæstv. ráðherra gerði í fyrra og ef hann stefnir að því að breyta lögunum núna á líkan veg er það ekki til þess að laga eða gera Ísland að betra réttarríki með nýjum fiskveiðistjórnarlögum.
    Ég get ekki verið að endurtaka enn fsp. mína til ráðherra þó að hann teldi ekki ástæðu til að svara henni, en ég vil þó segja: Það er sérstök staða að vera hér í ræðustól á hv. Alþingi og hafa borið fram fsp. til sjútvrh. þjóðarinnar og ekki fengið svar um það hvort, ef farið væri að óskum hans, sem ég veit að margir munu gera, að reyna að auka verðmæti sjávarafla, auka nýtingu, bæta gæðin, þessir menn, þetta fólk, sem leggur sig fram í því, eigi á hættu að verða sótt til saka fyrir að hafa gert þessa hluti. Ég skal lýsa því yfir hér að bæði í haust og í fyrrahaust fór fyrirtækið Jökull hf. á Hellissandi fram úr þeirri nýtingarprósentu sem við erum ákærðir fyrir. Ef ráðherrann ætlar að vera samkvæmur sínum gjörðum á hann að senda liðið vestur á Hellissand og skoða þetta allt saman. Hann á að ákæra aftur. Gjörið svo vel. Ég er tilbúinn að standa frammi fyrir því þó að ráðherrann sé ekki tilbúinn að standa með sínu fólki.