Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég tek undir athugasemdir hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldórs Blöndals og geri athugasemdir við það að hæstv. forsrh. skuli ekki hér í dag hafa tjáð sig með þeim hætti sem hann gerði áðan og hlýt að draga sömu ályktun af því eins og hv. þm. Halldór Blöndal að þessi vilji ríkisstjórnarinnar hafi ekki legið fyrir í morgun þrátt fyrir að hæstv. forsrh. lýsti því yfir núna. Ég vísa til þess að hæstv. menntmrh. hafði hér uppi mikla gagnrýni um meðferð þess máls sem þá var til umræðu sem var 20. mál samkvæmt þingskjali. Hann kom ekki með þetta atriði inn í umræðuna og hafði fulla ástæðu til. Hæstv. forsrh. vísar til þess að formaður BSRB hafi verið frammi á göngunum áðan. Ég tek mér það bessaleyfi að brjóta þann trúnað sem var milli mín og formanns BSRB og skýra frá því að ég talaði við formann BSRB á undan hæstv. ráðherra og varð ekki var við það í tali hans þá að hann ætti von á því eða vissi til þess að þetta yrði niðurstaðan í afgreiðslu þess máls sem hæstv. forsrh. tjáði áðan.
    Það getur verið að það sé hlátursefni hjá einstöku manni hér hvernig að þessum málum er staðið, en ég verð að segja það að öll þessi málsmeðferð er mjög ógeðfelld. --- Ja, ég segi ekki að maður víti forsrh. fyrir þetta, en hér hefur hann setið í dag undir ræðum manna og ekki skýrt frá þessu í réttri málsröð. Það er mjög óvenjulegt.
    Það ber að taka því. En ég segi það og ítreka það að það getur verið að það sé hv. alþýðuflokksmanni Eiði Guðnasyni hlátursefni. Við sjálfstæðismenn höfum talað gegn ákveðnum atriðum í þessu frv. í dag en af hálfu forsrh. hafa ekki komið fram í umræðunum veigamikil atriði, breytingar á frv., sem hefðu getað haft áhrif á umræðuna og affgreiðslu málsins.