Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég mótmæli þessum útúrsnúningi hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni. Hans málflutningur er svo ómerkilegur að það er varla þess virði að leggja sig niður við að svara þeim útúrsnúningi og rangfærslum sem hv. þm. viðhefur dag eftir dag í hverju málinu á fætur öðru.
    Ég undirstrika að við gerðum athugasemd, sjálfstæðismenn, við það hvern hátt forsrh. viðhafði í sambandi við þetta mál sem hér er til umræðu. Hæstv. forsrh. tók einnig þannig til máls að það er full ástæða til að segja það hér og nú að hann gaf í skyn og beinlínis sagði að sjálfstæðismenn hefðu verið því mótfallnir að þessi mgr. í 4. gr. frv. til l., 20. máli, félli niður. Ég var einn af þeim mönnum í Sjálfstfl. sem gerðu athugasemd einmitt við þessa málsgr. þegar bráðabirgðalögin voru til umræðu í þingflokkum þeirra flokka sem stóðu að baki ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sl. vor.
    En það sem hefur gerst í þessu máli er einfaldlega þetta: Hæstv. forsrh. gerði sér grein fyrir því að það var ekki þingmeirihluti fyrir því í hv. Ed. að samþykkja 4. gr. óbreytta eins og frv. kom frá ríkisstjórninni, eins og stjórnarflokkarnir voru búnir að koma sér saman um að leggja hana fram. Því gerði hæstv. forsrh. sér grein fyrir. Þess vegna fór hann í það verk að reyna að tryggja að alþýðubandalagsmenn og alþýðuflokksmenn féllust á það til að bjarga ríkisstjórninni að samþykkja það, sem kom fram í yfirlýsingu hæstv. ráðherra áðan, að 2. mgr. 4. gr. félli út. Þetta er kjarni málsins. Hann var ekki að vinna neitt sérstakt afrek annað en það að hann var að bjarga sinni eigin ríkisstjórn. Í umræðum í dag gátu ekki einu sinni verkalýðsleiðtogar Alþfl. staðið upp og rætt um þetta atriði þegar þetta frv. var til umræðu vegna þess að þeir höfðu ekki hugmynd um hvar þeir stóðu. En við sjálfstæðismenn vissum það. Við vissum að það var ekki meiri hluti fyrir þessu. Þess vegna urðu stjórnarflokkarnir að gera það sem gert var.