Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Karvel Pálmason:
    Herra forseti. Ég er nokkuð lengi búinn að sitja hér í sölum Alþingis, en ég hef sjaldan orðið vitni að öðru eins upphlaupi og hér á sér stað. Upphlaupi út af hverju? Vegna þess að það er verið að fallast á það sem verkalýðshreyfingin, bæði Alþýðusambandið, BSRB og önnur launþegasamtök í landinu hafa beðið um. ( GHG: Af hverju stundirðu því ekki upp áður? Kl. sex hafðirðu ekki hugmynd um það.)
    Hér stendur upp hv. þm. Guðmundur Garðarsson og spyr að því hver sé afstaða Alþýðusambandsins. Hver er afstaða Alþýðusambandsins? spyr hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Eru menn virkilega svo úti að aka í Sjálfstfl. að þeim sé ekki ljóst hver viðhorf verkalýðshreyfingin hefur haft til þessa? ( GHG: Nú fékkstu málið, loksins.) Ég vil nú spyrja hv. þm. Guðmund Garðarsson: Hverjir voru það úr þingliði Sjálfstfl. sem höfðu fyrirvara varðandi Þorsteinslögin? Skyldi það nú vera að Þorsteinn Pálsson hafi þá sem forsrh. lagt fram bráðabirgðalög sem ekki höfðu stuðning í þingflokknum hjá honum sjálfum? Gæti verið að þessir þingmenn séu að hegna formanni sínum með þessum hætti? Ég sé ekki betur. Kannski verður þetta til þess að þessir hv. þm. Sjálfstfl. greiði nú atkvæði með lögunum frá Þorsteini og geti þannig stutt hann eftir að hafa fengið þetta á sig.
    Það eru furðuleg vinnubrögð eins og þessir hv. þm. haga sér hér, sérstaklega þó að því er varðar Guðmund H. Garðarsson af því að honum er vel kunnugt um málið frá upphafi, hver sjónarmið hreyfingarinnar í landinu hafa verið til þessa máls. Og ég ítreka það, ég get sagt það hér: Það vorum við, hv. þm., ég og Karl Steinar Guðnason sem höfðum fyrirvara varðandi Þorsteinslögin í vor. Og ég spyr Guðmund H. Garðarsson: Hverjir úr þingliði Sjálfstfl. höfðu fyrirvara við Þorsteinslögin frá því í maí? Ég krefst þess að hv. þm. svari því fyrst hann gengur svona fram í umræðum hér. Komi í ljós að Þorsteinn Pálsson þáv. forsrh. hafi lagt fram bráðabirgðalög, sett bráðabirgðalög sem ekki nutu stuðnings í hans eigin þingflokki, hvar standa þá forustumenn eftir slíka hluti? Hvar standa þeir þá? (Gripið fram í.) Kannski er það það sem hefur gerst. En ég skil vel að bæði hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni og Halldóri Blöndal líði illa nú eftir það sem hefur gerst. Það er vel skiljanlegt. En það er óskynsamlega að farið. Menn eiga að kunna að fara bæði með gleði og vonbrigði.