Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Það er eins og áður að hæstv. forsrh. fæst ekki til að svara því sem spurt er um og er það náttúrlega eftir öðru þá sjaldan sem þessi maður hangir hér heima. Það liggur alveg ljóst fyrir að það hafa breyst forsendur nú í dag frá því sem var í vor þegar bráðabirgðalögin voru sett um aðgerðir í efnahagsmálum. Forsendur hafa breyst. Það er alveg augljóst mál. Það hefur m.a. komið fram í því að hæstv. forsrh. telur ekki nauðsynlegt, eins og hann taldi nauðsynlegt meðan hann var utanrrh., að í lögum væri þessi kafli hér: ,,Verkbönn, verkföll, þar með taldar samúðarvinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi mæla fyrir um, eru óheimil.`` Ég er alveg sammála honum um að það var óþarfi að setja þetta í lögin í upphafi þó ríkisstjórnin hafi á þeim tíma talið það tryggara því að auðvitað þarf ekki að setja í lög að menn megi ekki brjóta lög. Það er öldungis ljóst og ég fagna því mjög að ríkisstjórnin skuli vera þeirrar skoðunar að síðari málsgr. megi falla niður.
    En ég ítreka það, sem ég sagði áðan og hlaut að vera sú ályktun sem dregin var af öðrum orðum hæstv. forsrh., að það hlýtur að koma til íhugunar og endurskoðunar hvort ekki megi fella niður í heild kaflann um verðlags- og kjaramál, hvort viðtöl hæstv. forsrh. við forustumenn í verkalýðshreyfingunni þýði ekki að rétt sé að fella þennan kafla niður í heild. Hér er talað um að þessi ákvæði eigi að gilda til 15. febr. á næsta ári. Ég er þeirrar skoðunar að það mundi ekki saka neitt þótt þessi kafli félli niður. 15. febr. er ekki langt undan og auðvitað vitum við að það hafa orðið samningaviðræður milli launþegahreyfingarinnar og vinnuveitenda. Þær viðræður eru þegar í gangi. Það er mikil spurning þess vegna hvort það þurfi ekki að koma til endurskoðunar hjá ríkisstjórninni hvort hún leggi upp úr því að hafa þennan kafla áfram í lögunum. Það er um þetta sem nauðsynlegt hefði verið að ræða í sambandi við fyrra dagskrármálið úr því að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að ræða kjaramálin sérstaklega undir þeim dagskrárlið sem var ekki ákvörðun okkar stjórnarandstæðinga. Ég vil mega vænta þess þegar við hittumst aftur að loknu matarhléi að hæstv. forsrh. segi þingdeildinni áður en lengra er haldið, því að ég lít svo á að hann skuldi þingdeildinni það að taka til máls um kjaramálin, hann segi þingdeildinni þá hug sinn í þeim efnum, hvort hann telji koma til greina að fella niður kaflann um verðlags- og kjaramálin. Það er kjarni málsins.
    Ég er ekki í neinum vafa um að því yrði vel tekið og ég er í engum vafa um að það sé svo skammt til 15. febr. Ég er í engum vafa um það eins illa og búið er að atvinnurekstrinum. Þegar fólkið óttast það að missa atvinnuna fremur en hitt að það sé að sækjast eftir hærri launum eru auðvitað ekki skilyrði fyrir kjarabaráttu yfirleitt né til þess að efna til verkfallsaðgerða við þessar ástæður úti á vinnumarkaðnum. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt áður en lengra er haldið að hæstv. forsrh. bæti um

betur og sýni deildinni þá virðingu að fjalla um kjaramálin í upphafi fundar þegar við hittumst kl. 9.