Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Herra forseti. Ég hef ákveðna samúð með hv. þm. Karvel Pálmasyni vegna þess hvernig hann hefur haldið hér á málum, eða réttara sagt ekki haldið á málum, í allan dag í umræðunni. Hann hefur greinilega ekki tekið eftir því, hv. þm., að ég gerði ekki athugasemd við niðurstöðu málsins hjá hæstv. forsrh., þ.e. að 2. mgr. í 4. gr. umræddra laga væri felld niður. Ég gerði hins vegar athugasemd við málsmeðferð og tel vítavert að í umræðunni í dag um þetta frv. skuli ekki hafa komið fram að hæstv. forsrh. var að vinna að þessu máli. Sem sagt: Ég gerði athugasemd við málsmeðferð. Það eru önnur atriði, sem þá hefðu komið til greina að hefðu verið tekin inn í þá umræðu og viðræður við verkalýðshreyfinguna, sem við hefðum lagt áherslu á eins og fram hefur komið í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals.
    Um afstöðu einstakra þingmanna í þingflokki Sjálfstfl. til þessarar greinar ætla ég ekki að fjalla hér. En ég vek athygli á því að það var mjög mikill meiri hluti á bak við ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hér í þingi þannig að þótt einn þingmaður í þingflokki Sjálfstfl. hafi haft uppi athugasemdir og fyrirvara þýddi það ekki að bráðabirgðalög Þorsteins Pálssonar eða ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar frá því í maí hefðu ekki haft nægilegt fylgi á þingi þegar þing kom saman í október sl.