Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég óska að leiðrétta það sem kom fram hjá hv. 9. þm. Reykn. Karli Steinari Guðnasyni hér áðan. Ef farið verður að tillögu Alþfl. nú í sambandi við 1. gr. þess frv. um aðgerðir í efnahagsmálum sem er fyrra mál og ef sú grein verður samþykkt felur hún í sér kauplækkun vegna þess að samkvæmt bráðabirgðalögunum eins og þau voru í maímánuði áttu laun að hækka frá 1. jan. til 31. des. um 14,45%, en einungis um 10% samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar --- ( KSG: Það er rangt.) Það er ekki rangt. --- þannig að það felur í sér hreina kauplækkun.
    Í öðru lagi vil ég spyrja þessa tvo hv. þm. Alþfl. hvar það hafi komið fram að þeir hafi haft fyrirvara varðandi bráðabirgðalögin í maímánuði. Hefur það komið einhvers staðar fram? Er það einhvers staðar bókað? Var skýrt frá því í Alþýðublaðinu? Það væri fróðlegt að fá að vita hvar það er bókað og hvort það hafi komið opinberlega fram. Það er undarlegt að frétta svona lagað löngu síðar.