Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna það að ég varð ansi ruglaður á leiðinni heim eftir að fundi var frestað hér kl. rúmlega sjö og hlustaði á fréttir Ríkisútvarpsins. Þar kom fram í umfjöllun fréttamanns að búið væri að gera samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og verkalýðshreyfingarinnar um það að samningarnir tækju gildi strax við gildistöku bráðabirgðalaganna. Nú skilst mér að það sem um sé að ræða sé að ríkisstjórnin vilji stuðla að því að brtt. Borgfl. verði samþykkt, þar sem segir að síðari mgr. 4. gr. Þorsteinslaga verði felld brott, en þar er kveðið á um að verkbönn og verkföll, þar með taldar samúðarvinnustöðvanir og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi mæla fyrir, séu óheimil.
    Ég get tekið undir það með þeim sem hér hafa talað að þetta er orðið ansi ruglingslegt. Það liggur a.m.k. ekki alveg ljóst fyrir hvaða skilning verkalýðshreyfingin hefur lagt í þau ummæli forsrh. sem hann hefur haft við í umræðunni hér í dag, eða hvaða samkomulag hafi verið gert. Ég tel a.m.k. að það sé rétt að fresta nú fundi og ræða betur um það hvað um er að vera. Og ég get að sjálfsögðu tekið undir það að æskilegt væri að fá hér á fund til okkar fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og fá að heyra af þeirra eigin munni hvað um er að vera.