Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég átti sæti í þeirri nefnd sem síðasta ríkisstjórn skipaði til að fara yfir ýmis framkvæmdaratriði í sambandi við lögfestingu virðisaukaskatts og ég skil það fullkomlega að ný ríkisstjórn þurfi góðan tíma til þess að átta sig á ýmsum pólitískum álitamálum sem til ákvörðunar hljóta að koma í sambandi við lögfestingu skattsins og er sammála hæstv. fjmrh. um að það skipti miklu að allur undirbúningur sé sem allra bestur. Auk þess styðja ýmsar skattatæknilegar ástæður það að lögin taki gildi um áramót fremur en 1. júlí þannig að ég er fullkomlega sammála því sem hæstv. fjmrh. segir að eðlilegt sé að veita frestun á gildistöku laganna.
    Ég vil að lokum, herra forseti, aðeins fagna þeim ummælum hæstv. fjmrh. að vilji hans skuli standa til þess að stjórnarandstaðan megi fylgjast með þessu undirbúningsstarfi.