Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Í umræðum um skattamál hér á síðasta þingi og þar á meðal um virðisaukaskattinn kom fram hjá okkur kvennalistakonum að við erum efins mjög um gildi virðisaukaskattsins og allt það sem honum fylgir. Það kom reyndar einnig mjög fram í máli alþýðubandalagsmanna á þeim tíma og það verður fróðlegt að fá að fylgjast með þeirri endurskoðun sem boðuð er og hvað kemur út úr henni. Ég fagna því að til skuli standa að veita þar öllum þingflokkum aðild að. Við munum leggja áherslu á það að flýta þessu máli og eins og fram kemur reyndar í nál. Nd., þá skrifum við undir það án nokkurs fyrirvara um að málinu verði frestað og getum reyndar sagt að okkur væri sama þótt það frestaðist lengi enn.