Lögreglumenn
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég lýsi yfir ánægju með að það skuli vera svo mikill áhugi fyrir því að efla starfsemi lögreglunnar hér á hv. Alþingi og auka menntun hennar í hvívetna. Ég vil hins vegar benda á þá einföldu staðreynd að það er verið að stórefla Lögregluskóla ríkisins og stefnt að því að auka þá starfsemi enn meir smátt og smátt. En þetta er eins og annað að það verður ekki allt ákveðið með lögum á Alþingi. Það þarf líka að tryggja fjármagn til að framfylgja viðkomandi lögum. Ég bendi á að það hefur verið mjög algengt á undanförnum árum og jafnvel áratug eða áratugum að hér hefur verið sett margvísleg löggjöf um grunnskóla, um framhaldsskóla, um hjúkrun og aðhlynningu aldraðra og lasburða, en hins vegar hefur reynst erfitt að tryggja þessum málum nægilegt fjármagn í samræmi við þann vilja sem hefur fram komið í lögunum. Ég hélt satt best að segja að við sem sitjum á Alþingi hefðum lært það af reynslunni að þetta þurfi að haldast í hendur.
    Sá vilji sem kemur fram í 1. gr. er fyrst og fremst spurningin um fjárveitingar því að það er ekki aðeins nóg að hafa nægilegt fjármagn til að reka viðkomandi skóla heldur þarf jafnframt að vera mögulegt að greiða þeim aðilum sem stunda þetta nám laun meðan á því stendur því að það er að öllu leyti kostað af ríkissjóði. Það leiðir því af eðli máls að því fyrr sem slíku markmiði á að ná, þeim mun kostnaðarsamara verður það og það liggur alveg ljóst fyrir að innan þess ramma sem fjárlagafrv. gefur á árinu 1989 mundi reynast mjög erfitt að uppfylla það ákvæði sem kemur fram í 1. gr.
    Ég er hins vegar sammála því að það þarf að auka þekkingu og menntun lögreglunnar og að því er verið að vinna, en vildi aðeins vekja athygli á því að það verður ekki fyrst og fremst gert með því að setja lagagrein sem þessa, a.m.k. á þessu stigi, heldur að efla starfsemi Lögregluskóla ríkisins og vinna að því með þeim hraða sem við ráðum bærilega við að koma þessum vilja í framkvæmd.
    Hv. þm. er kunnugt um að það er gífurlegur halli á fjárlögum ríkisins í ár og lögregluembættin eins og ýmis önnur embætti eiga við mikinn fjárhagsvanda að stríða. Það liggur alveg ljóst fyrir að ekki verður hjá því komist að draga saman í starfsemi ríkisins á árinu 1989. Eins og fram hefur komið í fréttum er lögreglan ekki undanskilin og það þýðir að meiri vandi er á hana lagður, en ég hef litið svo á að undan því verði ekki vikist og ég hef litið svo á að flestir á Alþingi væru sömu skoðunar.
    Þetta vildi ég taka fram að því er varðar 1. gr., en tek undir þann vilja sem kom fram í ræðum hv. þm. í sambandi við þetta mál. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það hafi allt of mikið verið af því gert að setja lög um margvísleg mál á Alþingi án þess að huga nokkurn skapaðan hlut að því hvort það væri hægt að fá fjármagn til viðkomandi hluta eða ekki. Ættu menn m.a. að muna eftir deilum um svokölluð grunnskólalög þar sem spurningin var um hvort ætti að hlíta ákvæðum fjárlaga eða ákvæðum

grunnskólalaga.
    Að því er varðar 2. gr. frv. hafa lögreglumenn rætt það mál við mig og ég er sammála því sem hv. þm. Árni Gunnarsson sagði um það mál. Að sjálfsögðu þarf að vera ljóst að slys sem lögreglumaður verður fyrir í starfi sé bætt og það þurfi engan málarekstur í kringum það, alveg með sama hætti og ef lögreglumaður slasast t.d. í bifreið og í umferðarslysi við skyldustörf. Það er bætt, en ef hann slasast vegna þess að ráðist er á hann hefur það verið svo, það er rétt sem hv. þm. sagði, að þá hefur þurft að koma til margvíslegur málarekstur. Þetta er óeðlilegt að mínu mati og ég vænti þess að hægt verði að breyta þessari skipan mála. Það er mjög nauðsynlegt. Ég hef lýst því yfir við samtök lögreglumanna að ég sé sömu skoðunar og þeir að því er þetta mál varðar, en vænti þess að það sé hægt að koma þeim vilja í framkvæmd án þess að lagabreyting verði. Hins vegar er mér ljóst að það er tryggara og kann að vera nauðsynlegt að kveða skýrt á um þetta í lögum, m.a. vegna þeirra mála sem rekin hafa verið fyrir dómstólum.