Lögreglumenn
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Flm. (Árni Gunnarsson):
    Herra forseti. Nokkur orð um viðbrögð hæstv. dómsmrh. Ég þakka honum fyrir að hafa lýst yfir ánægju sinni með að áhugi skuli vera fyrir hendi á því að bæta aðstöðu lögreglumanna hér á landi. Það er ekki að undra þótt hæstv. dómsmrh. hafi þau orð.
    Hann sagði í ræðu sinni að það væri verið að efla Lögregluskóla ríkisins. Það er hárrétt. Það var gert í tíð fyrrv. hæstv. dómsmrh. að skólinn var efldur mjög og er það fagnaðarefni. Síðan lýsti ráðherrann nokkrum áhyggjum vegna þess að þetta mundi kosta of fjár. Ég er ekki alveg sammála því. Þetta gengur yfir langt tímabil þannig að kostnaðurinn við þetta dreifist á jafnvel 2--3 ár. Þarna er ekki um að ræða aðgerð sem þarf að fara út í eða kosta að öllu leyti t.d. á næsta ári.
    Það er auðvitað rétt hjá hæstv. ráðherra að við þurfum að huga að kostnaði við breytingar sem lagafrumvörp hafa í för með sér sem við flytjum á hinu háa Alþingi, en þá ættum við kannski bara að taka upp frönsku aðferðina sem er þess eðlis að við flytjum ekki útgjaldafrumvörp öðruvísi en við komum með tekjufrumvörp á móti. Það gæti orðið svolítið seinlegt. En ég get bent hæstv. dómsmrh. á nokkra tekjupósta sem hann gæti hugað að. Ég gæti t.d. bent á að skera þegar í stað á tekjur fógeta í landinu, sem eru einkatekjur og skipta milljónum króna á ári, og nota þær krónur til að brauðfæða þá nemendur sem eru í Lögregluskóla ríkisins. Ég get bent honum á tekjur vottasjóða sem eru umtalsverðar á hverju ári og eru notaðar til ferðalaga starfsmanna fógetaembætta. Ég get bent honum á tekjur sem hann getur haft af því að spara t.d. einkennisbúningapeninga sem fara til óbreyttra starfsmanna á skrifstofum fógeta og sýslumanna hér á landi.
    Það má víða spara peninga og ná í peninga til þess að veita þeim í aðra farvegi en þeim er veitt núna. Ég verð að segja með fullri virðingu fyrir hæstv. dómsmrh. að þessi athugasemd hans er ekki fullgild að mínu mati. Mér finnst það svo mikið mál að efla og reyna að styðja við bakið á lögreglu þessa lands í erfiðu og vandasömu starfi að það sé engin spurning um að við verðum að sjá af þessum peningum. Hér er ekki verið að tala um tugi milljóna kr. Hér er verið að tala um einhverjar örfáar milljónir sem mundu dreifast á nokkur ár.
    Ég held að ég hafi ekki fleira um þetta að segja, herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem fram hefur farið og ég vænti þess fastlega að hið háa Alþingi sýni í náinni framtíð málefnum lögreglunnar meiri áhuga en þingið hefur gert. Þetta er sá starfshópur í þjóðfélaginu sem hvað oftast verður fyrir ýmsum hnútum, lendir í hnútukasti vegna starfa sinna. Það eru ekki margir sem standa upp og verja lögreglumenn þegar þeir lenda í erfiðum málum vegna erfiðra starfa sem þeir eru alls ekki öfundsverðir af oft og tíðum.
    Að lokum þetta. Ég vænti þess að þetta mál fái skjótan og góðan framgang í þinginu þannig að þessi lög geti tekið gildi sem fyrst því að þetta er skref í áttina að því að efla og bæta starf lögreglumanna hér

á landi. Það er þegar búið að vinna gott starf í því að efla Lögregluskóla ríkisins og á því þarf að verða framhald.