Almannatryggingar
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu mun ég greiða því atkvæði að málið verði nú sent til nefndar og því vísað til 2. umr. Ég ítreka það hins vegar og harma að það skuli aðeins vera flokksafgreiðsla Alþb. sem hefur rætt þetta mál í röðum stjórnarliða en ekki á vegum ríkisstjórnarflokkanna allra. Það hefði verið sterkara og eflaust líklegra til árangurs.
    Ég spurði hvort haft hefði verið samband við tryggingalækni eða Tryggingastofnunina og ekki að ástæðulausu og á það ekkert skylt við það að fólk sem á rétt á einhverjum bótum fái ekki eðlilegt mat og rétt mat og bæturnar. Hitt er annað mál að frv. segir sjálft að tryggingayfirlæknir skuli senda öll gögn til þessarar yfirmatsnefndar. Hefur það verið lagt undir stofnunina? Hefur verið athugað hvort tryggingayfirlæknir er ekki þarna með trúnaðargögn á milli handa sem þarf þá leyfi viðkomandi aðila til þess að fari eitthvað annað en þangað sem fólkið sendir þau?
    Síðan er þessi nefnd sjálf þannig skipuð að forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins tilnefnir einn mann úr röðum starfsmanna Tryggingastofnunarinnar og svo er bætt við: ,,Hann skal vera lögfræðingur.`` Það er þá þrengt niður í lögfræðinga í stofnuninni. Þeir geta ekki verið mjög margir, einn, tveir, þrír, en starfsfólkið er kannski svo tugum skiptir.
    Neðar í 1. gr. segir að yfirmatsnefnd skuli vera búin starfsaðstaða í Tryggingastofnun ríkisins. Það snertir stofnunina sjálfa og hefur ekkert með matið að gera sem slíkt. Þetta er bara starfsaðstaða: skal vera í Tryggingastofnuninni. Það þarf að ráðgast um það við Tryggingastofnunina hvort hún getur tekið á móti þessari nefnd. Þar að auki er sagt að stofnunin greiði allan kostnað af störfum hennar. Þetta þarf að ræða við stofnunina sjálfa og vita hvort hún er fær um að veita þessari nefnd starfsaðstöðu og hvort hún treystir sér til þess að taka á sig meiri kostnað en þegar hvílir á stofnuninni. Síðan kemur að lokum í 1. gr. síðasta línan: ,,Yfirmatsnefnd skal tryggður aðgangur að öllum gögnum Tryggingastofnunarinnar sem varða matsþola.`` Þetta er líka trúnaðarmál. Ég veit ekki hvort hægt er að setja það svona inn í frv. að trúnaðarmál séu bara tekin og ákveðið á Alþingi að þau skuli afhent einhverri og einhverri nefnd. Ég er ekki viss um að þetta frv. sé það vel undirbúið að hægt sé að samþykkja það. Ég styð tilganginn og ég styð það að frv. fari í nefnd og er að mörgu leyti sammála hugsuninni, en ég held að þetta sé illa unnið og illa undirbúið meðan ekki er búið að ræða málið betur við þá fagstofnun sem hér á að taka á sig viðbótarskyldur og viðbótarkostnað og ég er ekkert viss um að það sé rétt aðferð að skipa þessa yfirmatsnefnd sem þarna er lagt til að gert verði, enda kæmi það þá fram í nefnd svo að ég stend að því að vísa málinu í nefnd eins og flm. óskaði eftir og til 2. umr.