Almannatryggingar
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Flm. (Guðrún Helgadóttir):
    Aðeins örstutt athugasemd, virðulegur forseti, í tilefni af orðum hv. 5. þm. Reykv. Tryggingastofnun getur tekið við þessu starfi ef henni er fengin aðstaða til þess og það er auðvitað ráðherra og ríkisstjórnarinnar að gera það. Mér kemur dálítið á óvart ef skilningur hv. 5. þm. Reykv. er sá að aldrei sé hægt að flytja brtt. við nokkur frv. án þess að spyrja viðkomandi framkvæmdaaðila. Ég er hrædd um að okkur gengi illa að breyta einu eða neinu ef við færum þá leiðina. Eins og ég hef áður sagt unnu með mér að þessu frv. bæði læknar, félagsráðgjafar og fyrrv. starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins sem eru gjörkunnugir þessum málum. Og það er alrangt að frv. sé illa unnið. Það er það alls ekki.
    Það er ekkert verið að lofa hverjum sem er að lesa gögn tryggingayfirlæknis, heldur þremur aðilum sem hafa verið falin þau trúnaðarstörf að endurmeta örorkumat sem ágreiningur er um samkvæmt beiðni sjúklings og lengra færu þessi skjöl nú ekki en milli herbergja í þeirri sömu stofnun. Hér er því um einhvern misskilning að ræða sem ég átta mig ekki alveg á.
    Vitaskuld fær Tryggingastofnun ríkisins þetta mál til umsagnar. En hún á ekkert endilega að vera meiri umsagnaraðili eða sterkari en hver annar sem fær málið til umsagnar. Þetta er ekki mál Tryggingastofnunar fyrst og fremst. Þetta er mál fólksins í landinu, þetta er mál öryrkjanna í landinu sem eiga líf sitt undir að faglega sé með mál þeirra farið og af þeim skilningi sem 12. gr. almannatryggingalaga gerir ráð fyrir að gert sé. Þetta mál þarf því líka að fara til umsagnar þeirra aðila og eins og hv. 5. þm. Reykv. er kunnugt um búum við sem betur fer við svo lýðræðislegt þjóðþing að mál eru send til umsagnar fjölmargra þeirra sem málið varðar og ég vænti þess að svo fari enn og kvíði engu hvernig þær umsagnir verða. Ég kvíði því kannski meira að hv. þm. hafi ekki þann skilning að taka á sig rögg og reyna að breyta þessu ástandi sem nú ríkir því að það er slæmt og það vita velflestir sem nálægt þessum málum koma.