Yfirlýsingar fjármálaráðherra um samráð við
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hér í hv. deild eru til meðferðar nokkur frv., skattheimtufrv. frá hæstv. ríkisstjórn. Hæstv. fjmrh. hefur að undanförnu verið býsna iðinn við að gefa yfirlýsingar í fjölmiðlum um meðferð þessara mála og viðræður við stjórnarandstöðuna eins og hann hefur kallað það. Fyrir nokkru síðan gaf hæstv. forsrh. þá yfirlýsingu í Þjóðviljanum að eðlilegt væri af hálfu ríkisstjórnarinnar að hefja viðræður við stjórnarandstöðuflokkana um framgang þessara mála og efni þeirra, ef orð hæstv. forsrh. eru skilin í bókstaflegum skilningi.
    Hæstv. forsrh. fól hæstv. fjmrh. að eiga þessar viðræður. Eðlilegt hefði kannski verið að hæstv. forsrh. stýrði slíkum viðræðum sjálfur, en það er auðvitað verklagsregla innan ríkisstjórnarinnar hverjum ráðherra er falið verk sem þetta.
    Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær er fjallað um framgang þessara mála og annarra sem eru á forgangslista hæstv. ríkisstjórnar. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Þegar eitt mál leysist skapast annað.`` Síðan spyr fréttamaður: ,,Er raunhæft að ljúka afgreiðslu fjárlaga fyrir áramót?`` Hann gefur hæstv. forsrh. Steingrími Hermannssyni orðið sem svarar með þessum orðum: ,,Það er raunhæft ef vilji er til, en sá vilji verður að vera bæði hjá stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu.`` Þetta er auðvitað kórrétt hjá hæstv. forsrh. Ríkisstjórnin hefur ekki meiri hluta í neðri deild Alþingis, er ekki meirihlutastjórn í venjulegum skilningi þess orðs, og hæstv. forsrh. kemst hér því að réttri niðurstöðu. Síðan segir fréttamaður Ríkisútvarpsins: ,,Og það kemur í ljós á næstu dögum og í dag ítrekaði fjmrh. að viðræðum við stjórnarandstöðuna yrði haldið áfram.`` Þetta er bæði villandi og rangt. Ég er ekki að ásaka þann fréttamann sem skrifaði þessa frétt um það að hafa rangt eftir og ég hef ekkert í höndunum sem bendir til þess að hann hafi verið að fara með söguburð eftir einhverjum öðrum en hæstv. fjmrh. Það liggur þess vegna ekkert annað fyrir en að það sé hæstv. fjmrh. sem sjálfur hafi gefið fréttamanni Ríkisútvarpsins þessa yfirlýsingu til þess að flytja fólkinu í landinu.
    Það liggur hins vegar fyrir að engar slíkar viðræður hafa farið fram, a.m.k. ekki við Sjálfstfl. Það hafa farið fram þrír kynningarfundir þar sem hæstv. ráðherra og starfsmenn hans hafa kynnt efni skattafrv. sem lögð hafa verið fyrir. Það er alkunn regla sem flestir fjmrh. sem ég þekki til hafa stundað og flestir í ríkari mæli og með meiri fyrirvara en hæstv. núv. fjmrh. og er engin nýlunda. Viðræður getur það hins vegar ekki kallast sem er kynning á væntanlegum frumvörpum. Ef hæstv. ráðherra hefur verið í einhverri sérstakri leit að huldumönnum til stuðnings ríkisstjórninni eru það heldur ekki viðræður við stjórnarandstöðuna. Það liggur þess vegna fyrir, sem ég tel vera nokkuð alvarlegt, að hæstv. fjmrh., þó að hann eigi ekki sæti á Alþingi sem alþm. situr hann hér á þingi sem embættismaður og hefur hér sömu réttindi og sömu skyldur, og það er alvarlegt þegar hann fer með yfirlýsingar í fjölmiðla sem eru villandi

og rangar. Það er alveg óhjákvæmilegt að það liggi alveg ljóst fyrir með hvaða hætti hefur verið staðið að þessum málum. Það hafa farið fram kynningarfundir en engar viðræður um efni eða framgang mála.
    Þar að auki liggur það fyrir að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki óskað eftir neinum viðræðum svo að ég viti til, a.m.k. ekki við Sjálfstfl., um framgang þingmála. Hæstv. ríkisstjórn hefur afhent forgangslista yfir mál en ekki efnt til nokkurra viðræðna um framgang þeirra mála sem hún telur nauðsynlegt að afgreiða í næstu viku og eru þau ekki ófá og ekki heldur ósmá í sniðum.
    Sjálfstfl. hefur lýst því yfir, og ég get ítrekað það hér, að hann er tilbúinn til viðræðna við hæstv. ríkisstjórn, ekki einungis um framgang mála heldur um efnislegar niðurstöður. Ýmislegt hefur komið fram í umræðum hér á þinginu um afstöðu okkar til einstakra frumvarpa sem hæstv. ráðherra hefur þegar lagt fram. Það hefur komið fram skýr vilji og bein tilboð til viðræðna, en af hálfu ríkisstjórnarinnar hafa ekki verið nein viðbrögð við því. Ég nefni til að mynda dæmi úr umræðum um frv. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem nú á að tvöfalda. Sjálfstfl. hefur lýst því yfir að hann sé tilbúinn til viðræðna við ríkisstjórnina um það mál. Engin viðbrögð. Samt heldur hæstv. ráðherra því fram að stöðugar viðræður séu í gangi og þeim verði haldið áfram. Þetta eru villandi og rangar upplýsingar.
    Sjálfstfl. hefur líka lýst því yfir fyrir sitt leyti að hann sé tilbúinn til viðræðna um forsendur fjárlagafrv. Það hefur komið fram að ríkisstjórn er allt fram á þennan dag að endurskoða útgjaldaáformin, og það er hin almenna efnahagsstefna sem auðvitað segir mest um niðurstöður í fjárlagafrv., hvaða efnahagsstefnu ríkisstjórnin fylgir. Sjálfstfl. hefur lýst því yfir að hann er tilbúinn til viðræðna um öll þessi atriði. Um leið og öll frv. ríkisstjórnarinnar eru komin fram er hann tilbúinn til þeirra viðræðna og um forsendur fjárlagafrv., þá efnahagsstefnu sem liggur til grundvallar frv. Ég ítreka hins vegar enn og aftur: Við þessum viðræðutilboðum hafa engin viðbrögð komið frá ríkisstjórninni og það er villandi og rangt sem segir í endurteknum yfirlýsingum hæstv. fjmrh., að slíkar viðræður hafi farið fram.