Yfirlýsingar fjármálaráðherra um samráð við
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég skal virða þau tilmæli að fara ekki út fyrir það efni sem var tilefni til þessarar umræðu. Hæstv. fjmrh. gaf þó ærið tilefni til þess í lok sinnar ræðu. Þar kom greinilega fram að af hálfu hæstv. ríkisstjórnar er ekki skilningur á því að hin almenna efnahagsstefna er auðvitað grundvöllurinn að fjárlagagerðinni og niðurstöðunum. Fjárlögin eru ekki bara debet og kredit. Þau eru líka lifandi framkvæmd á efnahagsstefnunni í landinu og það er einmitt það sem skortir á að hæstv. ríkisstjórn hafi skilning á og þess vegna munu þau aldrei nást saman ef ekki verður breytt um stefnu.
    Aðalatriðið er þetta: Hæstv. fjmrh. hefur viðurkennt að það eru engar efnislegar viðræður í gangi, hvorki við stjórnarandstöðuna í heild né einstaka stjórnarflokka, og það hefur reyndar komið fram í yfirlýsingum frá fulltrúum allra þriggja stjórnarandstöðuflokkanna að svo er ekki. Þetta er kjarni málsins. Það hefur verið látið að því liggja með villandi ummælum að slíkar viðræður séu í gangi. Og það var það sem nauðsynlegt var að leiðrétta. Það hefur hæstv. fjmrh. í reynd viðurkennt með því að segja hér skýrt og skorinort að hann hafi viljað taka tillit til þeirrar eðlilegu kröfu Sjálfstfl. að hefja ekki slíkar viðræður fyrr en öll frv., sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að leggja fram, liggja fyrir. Í þessum ummælum hæstv. ráðherra er fólgin viðurkenning á þessu.
    Það er hægt að halda því fram, ef menn vilja gera lítið úr sjálfum sér, að viðræður í göngum þinghússins eða kynningarfundir sem fram fara með hefðbundnum hætti á frv. séu viðræður. Það er hins vegar alveg ljóst að sá skilningur er lagður í margendurteknar yfirlýsingar af þessu tagi að það séu efnislegar viðræður í gangi, enda er allur máltilbúnaðurinn með þeim hætti þegar spurt er: Er mögulegt eða líklegt að þessi mál nái fram að ganga? og hæstv. forsrh. segir: Það gerist ekki nema vilji sé fyrir hendi bæði hjá stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðunni. Hæstv. forsrh. hefur greinilega fundið fyrir því að það skortir ekki síður á viljann í stjórnarflokkunum og leggur þá algerlega að jöfnu í því efni. Það er í þessu ljósi sem yfirlýsingarnar eru gefnar. Þær eru gefnar í ljósi þess að hæstv. forsrh. var fyrir mörgum dögum búinn að gefa yfirlýsingu um það í fjölmiðlum að slíkar efnislegar viðræður yrðu að fara fram þar sem menn ættu að mætast á miðri leið. Hæstv. fjmrh. gerði svo lítið úr hæstv. forsrh. að hann sagði að það mætti ekki taka hann bókstaflega. Og ýmsir sögðu: ekki fremur í þessu máli en öðrum.
    En herra forseti. Ég þakka fyrir að þessar umræður voru leyfðar. Það var mjög mikilvægt að fá þessa viðurkenningu hæstv. fjmrh. að efnislegar viðræður hafa ekki farið fram svo sem með villandi hætti hefur verið gefið til kynna. Það liggur fyrir af hálfu Sjálfstfl. a.m.k. að hann er tilbúinn til slíkra viðræðna ef ríkisstjórnin hefur áhuga á.