Yfirlýsingar fjármálaráðherra um samráð við
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég á einmitt erindi hingað út af þingsköpum. Það hraut af munni hæstv. fjmrh. áðan að fram væri komið nú fyrir augnabliki síðasta tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar sem væntanlegt væri. Þar með er gefin út yfirlýsing, þótt hálfámáttleg sé, um að ríkisstjórnin hefur fallið frá framlagningu frv. um sérstakan söluskatt á happdrætti og hún hefur fallið frá yfirlýstum áformum sínum um að leggja sérstakan skatt á orkufyrirtæki. Hvort tveggja var þetta ráðgert í því fjárlagafrv. sem hæstv. fjmrh. kynnti fyrr í haust.
    Ég get auðvitað ekki annað en fagnað þessu hvoru tveggja um leið og ég vek athygli á því að þar með léttir á störfum þingsins. En þarna hefur komið saman eindregin andstaða stjórnarandstöðuflokkanna auk stuðnings nokkurra einstakra þingmanna í stjórnarliðinu og þar með er komið í veg fyrir að það sé níðst á þessum stofnunum, góðgerðarfélögum, íþróttafélögum og ýmsum mannúðarfélögum, sem afla tekna með happdrætti. Ég vek athygli á því að ráðherra var að lýsa þessu yfir þó hann hafi kosið að gera það með þeim undarlega hætti að segja að fram væri komið síðasta tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar. Það er það sem þetta þýðir.
    Að lokum vildi ég, virðulegur forseti, aðeins andmæla því, sem fram kom hjá hæstv. ráðherra, að í tíð fyrri fjmrh. hafi það eingöngu tíðkast að senda mönnum í pósti eða í umslögum þau frv. sem væru til meðferðar í ráðuneytum. Ég andmæli þessu harðlega. Mér er vel kunnugt um hvernig tveir fjmrh. stóðu að þessum málum. Þeir eru báðir hér í salnum núna. Það var viðtekin venja, eins og ég hef nú þegar sagt nokkrum sinnum hér úr þessum stóli, að kalla til fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna til að gera þeim grein fyrir helstu málum á árabilinu 1983--1987. Allt tal um eitthvert nýmæli í þessu sambandi er auðvitað fjarstæða. En hins vegar skiljanlegt þar sem hæstv. núv. fjmrh. var ekki þingmaður þá frekar en nú.