Yfirlýsingar fjármálaráðherra um samráð við
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég held að við getum verið sammála um að það er alltaf gaman að sjá flinka menn skylmast. Ég hef alltaf gaman af því þegar hæstv. fjmrh. kemst í klípu. Hann er alveg eins og vel þjálfaður íþróttamaður, kann að skylmast. Best féll það mér í geð að hann stafesti það, eins og mér skilst að hafi verið gert í Ed. af flokksbróður hans, að Morgunblaðið er orðið þeirra aðalbiblía allt frá síðustu helgi, frá síðasta Reykjavíkurbréfi. Ég er honum sammála. Það er furðulegt að Morgunblaðið skuli vera orðið stjórnarblað sem alþýðubandalagsmenn vitna hvað helst til þessa stundina.
    En í sambandi við þær athugasemdir sem hv. 1. þm. Suðurl. gerði finnst mér það hafa skilið eftir í mínum huga að hæstv. fjmrh., og þar er hættan fyrir okkur þingmenn, túlkar venjuleg samtöl, sem þingmenn eiga eða menn eiga sín á milli um frv. sem eru lögð fram, sem viðræður. Ég bið bæði hæstv. fjmrh. að vera ekki svona flinkur og blaðamennina að átta sig á honum vegna þess að ég lít svo á að þegar menn hefja viðræður stefni þeir að einhverri niðurstöðu. Þegar menn tala saman er ekki nauðsynlegt að um niðurstöðu sé að ræða, bara venjuleg samtöl manna á meðal. Ég ætla að vera var um mig í framtíðinni og bendi öðrum á þetta sama.
    En ég held að þessi umræða utan dagskrár hafi verið nauðsynleg til þess að menn átti sig á í framtíðinni hvenær þeir eru að tala saman og hvenær um viðræður er að ræða.