Yfirlýsingar fjármálaráðherra um samráð við
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það hefur alltaf verið gert ljóst af okkar hálfu hvenær um viðræður væri að ræða og hvenær samtöl á milli einstakra þingmanna. Enginn vafi er í þeim efnum. Viðræðurnar fara fram með þeim hætti að það hefur verið haft samband við formenn þingflokkanna eða formenn flokkanna og þeir beðnir um að tilnefna einstaklinga til að koma á fundum sem allir hafa verið haldnir í húsakynnum fjmrh. þannig að það er engin hætta á því að menn rugli því saman við einhver einstaklingsbundin samtöl í þinghúsinu eða annars staðar. Það hefur verið haldið alveg skýrt á þeim málum hvað það snertir.
    Vegna þess að hv. þm. Friðrik Sophusson lýsti því yfir að ég hefði sagt að þessi ríkisstjórn væri ekki þingræðisstjórn og hún væri byggð á fölskum forsendum, þá vil ég bara leiðrétta það. Þetta hef ég aldrei sagt. Þessi ríkisstjórn er þingræðisstjórn í öllum stjórnskipulegum og réttarheimspekilegum skilningi þess orðs. Á því er ekki nokkur vafi. Þessi ríkisstjórn var líka mynduð á réttum forsendum í bæði stjórnmálalegum og siðferðilegum skilningi þess orðs.