Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Á þingflokksfundi Sjálfstfl. í dag var tekin sú ákvörðun að Sjálfstfl. mundi greiða atkvæði með þeim brtt. sem Borgfl. og Samtök um kvennalista hafa lagt fram við frv. til l. um aðgerðir í efnahagsmálum og fela það í sér að samningaréttur og verkfallsréttur gangi aftur í gildi frá þeim degi sem þessi lög öðlast gildi.
    Ástæðan fyrir því að Sjálfstfl. taldi þetta nauðsynlegt er sú að ýmsar yfirlýsingar hæstv. forsrh. hafa verið með þeim hætti að það hefur skapað mikla óvissu í kjaramálum, óvissu sem til þess er fallin að skapa óróa á vinnumarkaði og þeir vita það enda þeir alþm. sem fylgst hafa með fjölmiðlum, útvarpi, sjónvarpi eða blöðum, að því hefur verið slegið mjög upp að með yfirlýsingu forsrh., ef henni yrði fylgt eftir í atkvæðagreiðslu, yrði á nýjan leik heimilt að efna til verkfalla.
    Auðvitað vitum við hinir, sem höfum sett okkur inn í þessi mál og höfum hlustað m.a. á forseta Alþýðusambands Íslands, að þessi orð og þessi lögskýring hæstv. forsrh. eru úr lausu lofti gripin. Þó má segja að fyrst kasti tólfunum í hans málflutningi þegar hann annars vegar sagði það fyrir klukkan fjögur að hann væri siðferðilega sammála því að ef löggjafinn hróflaði við kjarasamningum væru samningsaðilar ekki bundnir af almennum ákvæðum vinnulöggjafarinnar. Fyrir kvöldmat, á fundinum eftir klukkan sex, gekk hann svo langt að hann vitnaði til Arnmundar Backmans og vék þá að því í sinni ræðu að þó svo að settar væru takmarkanir fyrir launahækkunum til 15. febr. skildi hann ummæli Arnmundar Backmans og greinar hans svo að hann teldi að beita mætti verkföllum til að knýja fram ýmsa aðra þætti í kjarasamningum. Þessar lögskýringar eru auðvitað mjög hæpnar og eins og ég sagði í fyrri ræðu minni í dag er það ámælisvert af hæstv. forsrh. að hann skuli með þessum hætti vera hér og þar, vera svo laus í sínum málflutningi að enginn þeirra sem á hann hlýða gerir sér í raun og veru grein fyrir því hvernig hann á sínum tíma hugsaði þau bráðabirgðalög sem hann stóð sjálfur að í maímánuði né heldur hvernig hann hugsaði sér þau bráðabirgðalög sem hann stóð að í septembermánuði. Þó verð ég að segja að þá fyrst hafi gengið fram af mér þegar hæstv. forsrh. sagði í dag að andmæli Alþýðusambandsþings vegna brots á mannréttindum hefðu snúið að 2. mgr. 4. gr. laganna frá því í maímánuði þegar fyrir liggur skriflega í þessari álitsgerð, í þessari samþykkt sem m.a. nefndarmenn fjh.- og viðskn. hafa fengið í hendur, að þeir voru að mótmæla þeim bráðabirgðalögum sem voru í gildi þegar Alþýðusambandsþingið var haldið og það voru þau bráðabirgðalög sem þeir kölluðu brot á mannréttindum.
    Það sýnir því þess vegna meira en lítinn tvískinnung þegar hæstv. forsrh. segir í sjónvarpsviðtali þar sem hann ræðir við forseta Alþýðusambands Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þetta er einfaldlega gert vegna þess að okkur er að sjálfsögðu ekkert ljúft að vera með slíkt ákvæði sem skerðir eðlileg mannréttindi og það þarf mikið til að það sé gert og ég tel að sú brýna nauðsyn sé ekki lengur fyrir hendi.`` Þetta eru ummæli hæstv. forsrh. á Stöð 2 í gær. Hann er m.ö.o. að halda því fram gegn betri vitund, koma því inn hjá þjóðinni að einungis þessi hálfa mgr. 4. gr. í bráðabirgðalögunum frá í maí sé brot á mannréttindum.
    En nú langar mig að spyrja hæstv. forsrh. af þessu tilefni hvaða inntak 2. mgr. 4. gr. þeirra laga hefði ef ekkert væri í kringum hana. Ef hæstv. forsrh. hefði kosið að hafa sín bráðabirgðalög frá því í septembermánuði sjálfstæð en ekki breytingar við bráðabirgðalögin frá því í maímánuði kæmi auðvitað í ljós að 2. mgr. 4. gr. væri merkingarlaus, hefði enga þýðingu, stæði ein út af fyrir sig marklaus. Það er þess vegna alveg ljóst að það var til áherslu sem ríkisstjórnin ákvað að halda þessari málsgr. inni til að ítreka það, sem fyrri ríkisstjórn hafði gert, að enginn yrði í vafa um að til verkfallsboðunar gæti ekki komið meðan ákvæði bráðabirgðalaganna væri í gildi.
    Ég veit ekki, herra forseti, hvort ástæða er til að lesa hér upp frá orði til orðs þau margvíslegu ummæli sem hæstv. forsrh. hefur látið sér um munn fara um þýðingu þess að þessi margumrædda málsgr. falli niður. Það hefur auðvitað enga þýðingu. Þjóðin hefur sjálf orðið vitni að því að samtímis því sem forsrh. talaði í sjónvarpinu leiðrétti forseti Alþýðusambandsins það sem hann sagði og þjóðin hefur líka orðið vitni að því að í dag hittist stjórn Alþýðusambandsins til að árétta það að eftir sem áður væri í gildi bann við kjarasamningum, bann við verkfallsboðun og verkföllum til 15. febr.
    Mér finnst athyglisvert það tilboð hæstv. forsrh. til verkalýðshreyfingar og stjórnarandstöðu að hann sé reiðubúinn að leggja fyrir þessa aðila þær upplýsingar sem hann hefur aflað eða hyggst afla vegna rekstrarreiknings --- ja, 15 fyrirtækja, ef ég man rétt, sem sótt hafa um lán úr Atvinnutryggingarsjóði. Hæstv. forsrh. hefur óskað eftir því að það verði reiknað út hvernig fyrirtækin standi eftir gengisfellingu og ég verð að segja að það er auðvitað ekki nema ánægjulegt. Úr því að hæstv. forsrh. er ókunnugt um hvernig fyrirtækin standa og úr því að hæstv. forsrh. hefur ekki áður hugleitt hvaða áhrif gengisfelling hafi á afkomu útflutningsfyrirtækjanna
finnst mér ekki nema ánægjulegt að hann skuli nú loksins láta reikna þetta út. Ef ég man rétt sagði hann í septembermánuði að forveri hans hefði verið erlendis og af þeim sökum hefði hann ekki verið eins vel inni í málum og hann átti að vera og kvartaði mjög á þeim tíma undan því að forveri hans hefði ekki fyllstu og nýjustu upplýsingar og ef ég man rétt komst hæstv. forsrh. svo að orði, þegar hann ávarpaði stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, að hann hefði verið í fílabeinsturni þegar hann myndaði ríkisstjórnina, í fílabeinsturni. Ekki eru það mín orð, en það voru orð forsrh. eins og frá þeim var skýrt í einu dagblaðanna og ég hef ekki séð að það hafi verið leiðrétt. Þá hafði

hann sagt nokkrum vikum áður að hann með þingflokki Framsfl. og mörgum sérfræðingum léti hendur standa fram úr ermum --- léti hendur standa fram úr ermum --- við Borgartún og væri að vinna þau verk sem forsrh. hefði átt að vinna.
    Þá sagði hæstv. forsrh. að svo væri komið að engan tíma mætti missa til að bjarga útflutningsatvinnuvegunum. Nú liggur það fyrir samkvæmt m.a. áliti Þjóðhagsstofnunar, það er staðfest þar, að afkoma útflutningsfyrirtækjanna fer enn versnandi. Ég var ekki undrandi í dag þegar einn frystihúsamaður sagði við mig: Ég dáist að þeim kjarki sem ríkisstjórnin hefur og þeir menn sem hana styðja, að þeir skuli þora að eyða eigin fé fyrirtækjanna úti um allt land eins og þeir eru að gera með því að láta danka.
    Það er alveg laukrétt hjá hæstv. forsrh. að vaxtatekjur og vaxtagjöld útgerðarinnar og fiskvinnslunnar eru mikil og vaxandi og ég get ekki að því gert þótt hæstv. forsrh. hafi ekki heyrt hvað menn hafa talað hér heima á Íslandi. Við því er ekkert að gera. En það hefur hins vegar áður verið um það talað margsinnis, bæði fyrir og eftir stjórnarskipti, að auðvitað kæmi það niður á útflutningsgreinunum með meiri vaxtabyrði þegar greiðsludráttur yrði á afurðunum. Þetta er t.d. mjög áberandi í saltfiskverkun. Þar hafa fiskverkendur sýnt mér reikninga sem bera það með sér hversu mikil áhrif það hefur á afkomuna hvort greiðslan berst eftir hálfan mánuð eða kannski eftir tvo eða þrjá mánuði. Auðvitað hefur þetta mikla þýðingu. Og auðvitað er það líka rétt, sem hæstv. forsrh. segir, að vaxtabyrðin af ýmsum lausaskuldum er mjög mikil og af langtímalánum, en hæstv. forsrh. skal ekki ímynda sér að sú vaxtabyrði minnki þegar taprekstrinum er haldið lengur áfram. Auðvitað minnkar vaxtabyrðin ekki þegar menn þurfa frá einum mánuði til annars að taka meiri og hærri lán til að láta fyrirtækin ganga og mörg af þessum lánum eru með dráttarvöxtum.
    Það er hægt að setja upp margvísleg dæmi um hvernig fyrirtæki komist af, hvort þau komist betur af eftir að búið er að fella gengið eða ekki, hvort rétt skráð gengi hafi góð áhrif á útflutningsatvinnuvegina eða ekki. Hæstv. menntmrh. talaði um ,,gamaldags gengisfellingu`` og var að reyna að gera lítið úr því að við skulum halda því fram og gera þá kröfu að gjaldmiðillinn sé rétt skráður. Það er laukrétt hjá hæstv. menntmrh. að sig eða fall íslenska gjaldmiðilsins hefur allt önnur áhrif á verðlag og margvíslega hluti hér á landi en hjá stórri þjóð eins og Bandaríkjunum þó hann að vísu hafi ekki tekið þetta dæmi heldur minnst á annað í því sambandi. Það er auðvitað svo í Bandaríkjunum, eins og við höfum fengið að reyna, að við verðum að sætta okkur við það að selja okkar fisk til Bandaríkjanna kannski á sama verði og við getum jafnvel fengið færri dollara fyrir okkar útflutningsafurðir jafnvel þótt gengi dollarans sé lækkandi. Það er vegna stærðar þess markaðar sem þar er. Það er vegna þess að Bandaríkin eru í raun heimur út af fyrir sig, ef

eitthvað getur þá verið heimur út af fyrir sig. Og það er af þeim sökum sem sig eða fall dollarans hefur ekki strax áhrif á verðlag þar innan lands. Hér er málunum allt öðruvísi háttað. Ef gengi krónunnar fellur kemur það þegar í stað fram í verðlaginu og hefur jafnan gert.
    Nú vitum við að í fiskvinnslunni eru útgjöldin um helmingur fiskverð sem aftur skiptist milli sjómanna og útgerðar, um fjórðungur er laun og fjórðungurinn er annar kostnaður og það hefur farið vaxandi sem hefur farið í fjármagnskostnað af því.
    Ef menn líta til baka eða fram á við, ef menn skoða rekstrarreikning fyrirtækja og kunna að lesa sjá þeir auðvitað undir eins að gengisfelling þegar í stað hefur jákvæð áhrif á reksturinn. Það er að vísu rétt að þau afurðalán sem hvíla á birgðum verða að greiðast í fleiri krónum, en það breytir ekki hinu, að um leið og nýjar afurðir koma eru þau 25% sem eftir eru auðvitað drýgri og meira fæst fyrir þau 75% sem afurðalán er lánað út á þannig að það bætir afkomu allra fyrirtækja undir eins. Ég get hins vegar vel tekið undir að áhrifin af gengisfellingunni eru ekki undir eins nógu jákvæð og þess vegna fyndist mér það vel til fallið að við létum bankakerfið t.d., viðskiptabanka og Seðlabanka, taka á sig gengistap til þess að útflutningsatvinnuvegirnir njóti þegar í stað leiðréttingar gengisins. Það er ekki ósanngjarnt þegar vísvitandi hefur verið haldið uppi rangri gengisskráningu eins lengi og verið hefur þegar við völd er ríkisstjórn sem ekki þorir að stíga það skref að hafa nú nothæfan gjaldmiðil í landinu.
    Ég skal ekki segja hvort það er alveg rétt skilið hjá hæstv. forsrh. að gengisfellingarnar fyrr á árinu hafi beinlínis runnið út í sandinn. Það fer eftir því hvernig maður skilur það orðasamband. Ef hæstv. forsrh. á við að gengisfellingarnar hafi engu máli skipt, að ástandið væri ekki hótinu verra í landinu þó gengið hefði verið óbreytt allt þetta ár en kostnaðurinn vaxið eins og hann hefur vaxið, þá er það auðvitað alger misskilningur hjá hæstv. forsrh. Staðreyndin er sú að við getum ekki rétt hlut útgerðarinnar, hlut útflutningsframleiðslunnar nema með tvennum hætti. Annaðhvort verðum við að leiðrétta gengið og eins og ég sagði kemur það vel til álita til þess að gengisfellingin komi strax að notum, verki eins og vítamínsprauta, að gengistapið af afurðalánunum verði látið falla á bankakerfið. Mér finnst það mjög vel koma til greina. En ef ríkisstjórnin getur ekki hugsað sér það er önnur leið eftir og hún er að færa niður allan kostnað, laun, kostnað, fiskverð. Og treystir ríkisstjórnin sér til þess? Um annað er ekki að ræða.
    Það að ætla sér að láta reikna út einhver 15 fyrirtæki núna, að efna til einhvers stórs fundar með fjölda manns út af þessum 15 fyrirtækjum, halda áfram að láta danka, er náttúrlega ábyrgðarlaust, algerlega ábyrgðarlaust. Það væri gaman að fara með hæstv. forsrh. út um landið. Ég hefði gaman af að gera það. Koma á verstöðvarnar, kynnast fólkinu, fara í þau iðnfyrirtæki sem hafa verið að byggja sig upp, tala við þá menn sem ekki fá greiðslur frá

útflutningsframleiðslunni vegna þjónustu vegna þess að útflutningsframleiðslan hefur ekkert aflögu og þessi fyrirtæki eru að tapa sínum eignum líka. Hvernig ætlar forsrh. að bæta þessum mönnum þetta? Hvernig getur Karl Steinar Guðnason, þingmaður úr Keflavík, komið upp hér eins og áðan til þess að vera með nöldur við einn af stjórnarandstöðuflokkunum í staðinn fyrir að tala máli sinna manna, sinna sjómanna. Og hvernig stendur á því að hann, ég man ekki hvort hann er enn þá varaformaður Verkamannasambandsins, kannski orðinn formaður, skuli tala með þeim hætti, þvert ofan í það sem stjórn Alþýðusambands Íslands segir, að það skipti einhverju máli hvort bann við verkfalli standi á einum stað í lögum eða tveim. Ég skil ekki hvaða friðþægingu hann hefur út af því. En við sjálfstæðismenn erum nú að koma honum til hjálpar. Við viljum eyða óvissunni sem verkalýðshreyfingin er í og vinnuveitendur. Við viljum að hægt sé að tala á nýjan leik um kjaramálin efnislega og menn hætti að pexa um aukaatriði. Maður hefur fundið það, bæði af viðtölum við verkalýðssinna og aðra, að umræður þessara síðustu klukkustunda hafa hleypt vissri ólgu í launþegasamtökin og ég tel sjálfsagt þess vegna að við sjálfstæðismenn stígum það skref sem við höfum gert áður. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við sjálfstæðismenn með þessum hætti viljum taka til baka bann við því að ganga til kjarasamninga eða verkfalls ef við teljum að það hafi jákvæð áhrif í þjóðfélaginu. Það er það sem við erum að reyna að gera. Ég vona þess vegna að forustumaður verkamanna og sjómanna í Keflavík taki fegins hendi okkar útréttu hönd og hjálpi okkur til að fá því til vegar komið að þessi deild samþykki að fella niður allar hömlur sem eru á samningsrétti og verkfallsrétti. Ég heyrði á ræðu hans áðan að hugur hans stóð til þess. Hann var að fagna einhverjum smááfanga sem hann þóttist hafa náð. Ég segi ekki að honum hafi svipað til Þorgeirs Hávarssonar þegar hann hékk á njólanum forðum, en ég verð þó að segja að þá kem ég í líki Þormóðar Kolbrúnarskálds og kasta til hans taumnum til að draga hann upp. Ég vona að honum farist þá ekki eins og Þorgeiri að ætla að drepa mig á eftir og skilji hvað mér gengur til.
    Það kom auðvitað ekki á óvart í ræðu hæstv. menntmrh. hversu ríka áherslu hann lagði á að útgjöld ríkissjóðs væru óhreyfanleg, óhagganleg. Hann hafði mörg orð um það í sinni ræðu að ef skattar væru skornir niður um 8 milljarða, ef óbeinir skattar væru lækkaðir um 8 milljarða væri ekki hægt að mæta því nema í fyrsta lagi með beinum sköttum, sem hann taldi óráðlegt og var nú gott að vita það, en í öðru lagi með því að skera niður skólakerfið. Hann talaði mikið um að menn ætluðu að skera niður skólakerfið. Það er verið að búa til einhver módel. Og í þriðja lagi talaði hann um að skera niður almenna þjónustu ríkisins. Ef menn vildu ekkert af þessu gera í mjög miklum mæli sagði hann að menn vildu ekki gera neitt, en láta reka ríkissjóð með þetta 5--10 milljarða kr. halla.
    Nú er það svo að þó að mikil laun séu greidd úr

ríkissjóði er það algerlega rangt hjá hæstv. menntmrh. að hvergi megi spara í launakostnaði ríkissjóðs. Hann talaði um að slíkur niðurskurður gæti ekki verið milljarður, í milljörðum. Þetta er alger misskilningur hjá hæstv. menntmrh. Það er hægt að benda á ótal stofnanir sem að miklu leyti vinna sama verkið. Við getum tekið brunaeftirlit, heilbrigðiseftirlit og ýmislegt af því tagi. Þar mætti mikið spara bæði í ferðalögum og öðru. Við getum t.d. talað um þá nýju hagdeild fjmrn. Hvaða þýðingu hefur hún? Við erum með Hagstofu, við erum með Þjóðhagsstofnun, við erum með Seðlabanka og að sumu leyti hefur Byggðastofnun verið falið að vinna verk sem koma inn á það sama. Hvað höfum við þá að gera við heila hagdeild til viðbótar í fjmrn.? Auðvitað má skera það niður. Það er enginn sem biður um það. Og á ótal sviðum. En auðvitað er ekki hægt að skera
niður nema þeir sem fara með framkvæmdarvaldið vilji það. Ef hæstv. ríkisstjórn er ákveðin í að eyða getur ekki alþm. í stjórnarandstöðu fengið hana til að spara.
    Og að síðustu vil ég aðeins snúa dæminu við og segja: Það er líka hægt að auka tekjur ríkissjóðs og komast hjá útgjöldum með því að styrkja stoðir atvinnuveganna, treysta grundvöll þeirra, láta hjól framleiðslunnar snúast.