Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Eins og hv. deildarmenn ættu að vita og vita vel hefur umræðan um þetta mikla og stóra mál truflast talsvert vegna þeirrar yfirlýsingar sem hæstv. forsrh. gaf hér í gær og hefur að sjálfsögðu leitt til þess að menn hafa talað meira um eitt atriði í þó því frv. sem ekki er til umræðu beint hér núna, því sem síðast var til umfjöllunar, og er ekkert við því að segja. En við tökum auðvitað nægan tíma til að ræða um efni meginfrumvarpsins, þ.e. bráðabirgðalaganna frá í haust, og án þess að ég ætli að teygja lopann langar mig þó að ræða nokkuð um mikilvægustu málefni, raunar kannski byrja á að segja að ég er mjög þakklátur hæstv. forsrh. sem ég veit að þurfti nauðsynlega að bregða sér frá augnablik, en ég ætla engu að síður að reyna að halda minni ræðu áfram, þakklátur honum fyrir þá efnislegu umræðu og málefnalegu sem fram fór um greiðsluhalla ríkissjóðs og fjárlagagerð ásamt með almennri efnahagsumræðu sem hann svaraði mér um í eftirmiðdag í dag. Á sama hátt er ég mjög þakklátur hæstv. menntmrh., sem því miður er heldur ekki hér, fyrir að taka þátt í þeirri efnislegu umræðu og ætla að vona að hann komi nú fljótlega. Ég get þá haft útúrdúr eins og aðrir og rætt nokkuð um þann merkilega fund sem haldinn var í hv. fjh.- og viðskn. nú í morgun og er kannski einn merkilegasti fundur sem ég hef á alllangri setu á Alþingi verið á.
    Það var getið um af hálfu formanns nefndarinnar og annars hv. nefndarmanns nokkuð af þeim ummælum sem fram komu hjá gestum okkar, en myndin var ekki alveg heilleg samt og því held ég að það væri ekkert úr vegi að ég geti hér nú einstakra ummæla okkar ágætu gesta sem voru frá Alþýðusambandinu, Vinnuveitendasambandinu og Vinnumálasambandi samvinnufélaga, þó hver hópurinn um sig inni í einu en ekki allir. Ásmundur Stefánsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sagði í tilefni af ummælum hæstv. forsrh. um að hann hefði rætt við marga verkalýðsmenn um þá brtt. sem hann nánast flutti í gær orðrétt: ,,Eina samtalið frá því fyrir langa löngu var sjónvarpsviðtalið í gærkvöld.`` Þetta sagði hann sem sagt um þær fréttir sem hann hefði haft af því sem var að gerast í Stjórnarráðinu og þeim samþykktum sem þar voru gerðar í gærmorgun um breytingar á frv. sem við erum nú að ræða.
    Forseti Alþýðusambands Íslands sagði enn fremur: Það er fullkomlega ljóst að allir samningar eru bundnir til 15. febrúar þrátt fyrir að 2. málsgr. 4. gr. laga, sem eru nr. 20 í frumvarpsformi, yrði felld niður og ekkert er því til fyrirstöðu að laun hækki lögum samkvæmt eins og þetta er í dag og þó að greinin í heild væri niður felld og gerðar þær breytingar að samningar væru lausir væri ekkert breytt í því að samkvæmt lögum þeim, sem ríkisvaldið hefur sett og Alþingi fjallar nú um, mætti greiða þessi 1,25% og meira ef mönnum sýndist svo. Hann sagði enn fremur að það bæri að fagna þeirri hugarfarsbreytingu sem orðið hefur á þeim bæ. Og bærinn var nú hæstv. ríkisstjórn og leyndi sér ekki að hann hafði ekki mikla

trú á hvorki húsbændum þar né hjúum. Það fór nú ekkert milli mála hvað hann átti við með þessu orðalagi ,,á þeim bæ``.
    Hugarfarsbreytingin nægði sem sagt ekki að hans mati því að efnisbreyting væri engin. Þetta hefur allt saman komið skýrt í ljós í fjölmiðlum í dag og í kvöld þannig að það velkist enginn í vafa um það lengur að þetta er sýndarmennska hvert sem tilefni hennar er og það getur enginn hvítþvegið sig, hvorki verkalýðsforingjar né aðrir, ef þeir ekki standa að því að gera víðtækari breytingar á frv. en ríkisstjórnin hefur boðið fram af gæsku sinni og kostar hana nákvæmlega ekki neitt. Ef hún getur keypt sér fylgi einhverra manna með þessu, þá hún um það ef mönnum finnst það eitthvað göfugt eða sniðugt að bjóðast til slíkra kaupa eða bjóða sig fram til sölu fyrir slíkan gjaldeyri.
    Hann bætti við: Ég sé ekki að verið sé efnislega að breyta einu eða neinu. Allt eru þetta orðrétt ummæli. Og forseti Alþýðusambandsins sagði enn fremur að þetta væri ,,storkandi smekkleysa`` sem ríkisstjórnin væri að framkvæma með þessu tilboði sínu, ,,storkandi smekkleysa.`` Og u.þ.b. sem þeir Alþýðusambandsmenn voru að kveðja skaust upp úr forsetanum þegar einhver spurði hvort málið hefði skýrst: Já, það er skýrt fram komið hversu óskýrt það er. Það er skýrt fram komið hversu óskýrt málið er, voru hans síðustu orð. Hringavitleysa sem sagt. Enda féllu orð mjög á þann veginn. Ég þori ekki að fullyrða hver sagði hvað nákvæmlega, en það voru notuð orð eins og ,,glórulaust`` og þetta orðalag sem ég var núna síðast að fara með, að allt væri óskýrt og gruggugt í sambandi við þetta mál.
    Að því er varðar aftur formann BSRB, Ögmund Jónasson, þá er það ekki alveg rétt mynd af því sem gerðist á þessum merka fundi að vitna einungis til þess sem Ögmundur sagði í upphafi fundarins, sem var í líkum dúr og hann mun hafa sagt í sjónvarpi í gær, að hann væri ánægður með þessa breytingu. Það var alveg ljóst þegar á fundinn leið að honum hafði farið eins og mér og öðrum að þegar þetta kom óvænt fram nokkrum mínútum fyrir sjö af hálfu hæstv. forsrh. var ég ekki nógu fljótur að átta mig á því hvað fælist í þessari yfirlýsingu hans, enda lét hann að því liggja að það væri einhver stórkostleg breyting á
afstöðu til samningamálanna, fór ekkert dult að hann gerði það. Hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði hins vegar strax að þetta þýddi ekki neitt. Hann hafði áttað sig á því, en það hafði formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hins vegar ekki gert í gærkvöld né heldur í upphafi þessa fundar. Hann sagði m.a. frá því að frá því að BSRB-þingið í október var haldið hefði tvívegis verið rætt við sig eða hann tvívegis rætt við forsrh., þ.e. skömmu eftir að þingið var haldið og í gær, og aðspurður sagði hann ,,að mínu frumkvæði``. Það var að hans frumkvæði sem þeir ræddust við hæstv. forsrh. og hann kl. um sexleytið víst í gær.
    Og hann sagði enn fremur og það var snemma á fundinum:

    ,,Þessi lagabálkur allur er okkur ekki að skapi. Þetta er skerðing á mannréttindum. Að sjálfsögðu munum við ekki leggja blessun okkar yfir þennan þátt.``
    Og um það leyti sem málin höfðu verið skýrð, m.a. af lögfræðingi Alþýðusambands Íslands, þannig að þetta væri þýðingarlaust ákvæði með öllu og breytti engu efnislega og allir skildu það þá þar inni að svo var, og allir hljóta að skilja það, hvort sem þeir vilja viðurkenna það eða ekki, ef þeir bara fletta upp á nokkrum greinum í lögum nr. 80 frá 1938, þ.e. lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, en það eru 14., 15. og 16. gr. sem um þetta fjalla, en þar er algerlega tvímælalaust að verkföll eru bönnuð á samningstíma með þessum gömlu landslögum til að knýja fram breytingar á þeim atriðum sem fjallað er um í samningum og þess vegna var þar ekki um neina breytingu að ræða, þá sagði Ögmundur: ,,Eins og ég hef skilið þetta er numið úr gildi bann við verkföllum og bann við samningum`` --- eins og ég hef skilið það. Nú er komið í ljós að hann eins og fleiri, þar á meðal ég fyrst í stað, fyrstu mínúturnar a.m.k., og við kannski einhverjir fleiri og áreiðanlega þeir sem hafa breytt eitthvað um skoðun við þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh. eins og hún virtist koma í gær, hafa áreiðanlega skilið þetta á sama veg og Ögmundur, en hann hafði þetta sér til afsökunar, sem er alveg fullgild afsökun, og þegar hann er kallaður nokkrum mínútum eftir að hann heyrir þetta með þessari glansyfirlýsingu hæstv. forsrh. í sjónvarp fagnar hann þessu auðvitað. Hann hefur ekki hugmynd um frekar en aðrir hvað í þessari lagaflækju leynist sem við erum búnir að vera í nefndinni að reyna að greiða fram úr með mörgum tilþrifum í margar, margar vikur og höfum fengið hjálp utan úr bæ til þess líka að greiða fram úr þessu. Menn sem ekki eru vanir samningamálum, aldir beinlínis upp í þessu meira og minna, létu blekkjast. Forseti ASÍ og starfsmenn Vinnuveitendasambandsins skildu þetta auðvitað um leið, en við hin ekki. Sem sagt: Það var enginn fögnuður í orðum formanns BSRB þegar hann fór af þessum fundi og gerði sér grein fyrir að hann hefði verið plataður eins og við fleiri og átti að plata enn þá fleiri.
    Örn Friðriksson sagði á þessum merkilega fundi að það fjallaði ekkert um samningsréttinn að fella þetta ákvæði niður. Þetta kæmi honum ekkert við og það væri ekkert um samningsréttinn að ræða og því enginn grundvöllur til að knýja á um nýja samninga og orðrétt sagði hann: ,,að fella þessa einu málsgrein niður hafi ekkert að segja varðandi samningsréttinn``, ekkert að segja. Þetta eru sem sé ummæli leiðtoga verkalýðsins á Íslandi og þau eru dálítið öðruvísi en ýmis ummæli sem hér hafa fallið, m.a. nú í dag. En þetta á ekki að þurfa að deila um. Þetta liggur allt saman á hreinu og við sjáum svo í kvöld hvernig atkvæði falla í þessu máli og þar dæmir hver sig. Það getur enginn skotið sér undir það að hann viti ekki hvað er efnislega fólgið í þessu og sagt eftir á: Ég lét plata mig, gekk til atkvæða og greiddi atkvæði af því

að ég var plataður. Ef hann var plataður í gær eins og við sum hér veit hann núna að það var verið að plata hann vísvitandi og það kemur þá fram í hans atkvæðagreiðslu hvert er raunverulegt álit hans og á ég þá ekki við neinn einn sérstakan, kannski fleiri, og þá vita allir hvernig hann eða þeir raunverulega standa að samningamálum, mannréttindamálum eins og það er nefnt, þeim mannréttindamálum sem ber að tryggja verkalýðshreyfingunni svo sannarlega þó að bæði ég og aðrir hafi tímabundið talið aðra meiri hagsmuni svo ríka að samninga mætti frysta t.d., jafnvel skerða vísitöluálög o.s.frv., rétt eins og það er í landslögum heimilt að setja fast verðlag jafnvel þótt maður viti að innkaupsverð vöru hækki eitthvað. Þetta er leyfilegt í flestum lýðræðisríkjum, hygg ég, til að ráða við tímabundin vandamál, sem maður vonar að séu tímabundin. Ég held að standi í löggjöf flestra ríkja að hægt sé að grípa til þessa hvort sem það fellur undir neyðarrétt eða er beinlínis lögfest að til slíkra aðgerða má grípa eins og t.d. bindingu verðlags um vissan tíma án þess að bera það undir Alþingi. Það er hægt með stjórnvaldsákvörðunum og hefur reyndar verið gert nýlega sem menn þekkja og verðbinding er í gildi.
    Um þetta ætla ég þá ekki að ræða meira núna að öðru leyti en því að forseti ASÍ vildi á þessum fundi geta þess að það væru aldeilis fleiri mál sem þyrfti að ræða við þessa ríkisstjórn en bara það sem þarna var á dagskránni. Það var ekki talið eðlilegt að taka þau beint til umræðu, en hann nefndi hver þau væru. Það var að sjálfsögðu vörugjaldið, sem hlaut að leggjast með miklum
þunga á launamenn því að þetta eru víst flestallt brýnustu lífsnauðsynjar sem þar er um að ræða, og það væri að skera fé af Atvinnuleysistryggingasjóði. Þá upptöku fjár með lögum vildi hann fá að ræða við nefndina. Og hann vildi fá að ræða við nefndina þá athöfn að rjúfa samkomulagið um húsnæðislánin og binda í ríkissjóði fé lífeyrissjóða. Þessi atriði vill forseti Alþýðusambands Íslands fá að ræða við nefndina og hann skýrði ekkert nánar hvað það væri sem hann vildi ræða, en hann verður kallaður á fund nefndarinnar þegar þessi mál ber á góma.
    Nú sá ég að hæstv. menntmrh. var að koma inn og mundi þá kannski ræða svolítið við hann ef hann er ekki vant við látinn. --- Hann finnst ekki. Hann getur þá lesið eitthvað í Alþingistíðindunum um það sem ég hér segi. Ég get kannski núna í millitíðinni getið þess að hæstv. forsrh. vék aftur að bráðabirgðalögunum, ræddi um breytinguna eða tilkynninguna sem hann flutti okkur í gær og sagði þá enn í dag að hann hefði fallist á eindregin tilmæli margra úr launþegastétt um að fella niður þennan paragraf eða hluta af lagagrein. En eins og kemur fram af þessum fundi í morgun eru það a.m.k. ekki helstu forustumenn launþegasamtakanna sem hann ræddi við. En það má vel vera að hann hafi rætt það við fjölmarga aðra sem teljast til verkalýðs eða launþega. Öll erum við í einhverjum skilningi launþegar raunar. Hann taldi einnig að hann vildi skoða lögfræðihliðina

nánar. Enn er tími til að gera það ef menn velkjast í einhverjum vafa. Það er raunar búið að greiða úr allri þeirri flækju sem við vorum í. Það liggur alveg ljóst fyrir hvað þetta snýst um. En þó sagði hæstv. forsrh. áðan að hann vildi enn skoða lögfræðihliðina á málunum og það er vel ef verið er að því núna á þessari stundu. Þá er þeirri stundu vel varið og mætti gjarnan fresta umræðum eða jafnvel ljúka þeim ef menn væru að komast að réttri niðurstöðu og ganga þá hreinlega til atkvæða og helst þá þannig að allir stæðu saman um þá einu lausn sem úr þessu er fær, þ.e. að fella þetta allt saman úr gildi og hafa síðan ábyrgðina á herðum launþega og vinnuveitenda eins og vera ber í frjálsum kjarasamningum. Auðvitað eru aðstæður verkalýðs og launþega ekkert sérlega góðar til að knýja fram neinar stórfelldar hækkanir eða breytingar, það er mér fullkomlega ljóst, en þó leggja öll þau samtök að sjálfsögðu mjög mikið upp úr því að þau fái frjálsar hendur. Eins og er í eðlilegu ástandi í sérhverju þjóðfélagi eiga þessar tvær meginstéttir, launþegar og vinnuveitendur, að leysa sín mál án afskipta ríkisvalds þó að fyrir geti komið að ríkisvaldið grípi þar inn í.
    Hæstv. menntmrh. gat þess hér, og þá var hann að ræða um gengisfellingu, að afstaða atvinnurekenda væri önnur en áður til gengisbreytinga. Þetta er vissulega rétt. Það var svo áður fyrr þegar afurðalán t.d. voru öll innlend við gengisbreytingar að þá batnaði hagur atvinnuveganna, útflutningsatvinnuveganna, venjulega mjög mikið. Nú er það svo að afurðalánin eru öll komin, fyrir mörgum árum raunar, í erlenda mynt þannig að skuldir fyrirtækjanna hækka við gengisbreytingu í íslenskum krónum. Þetta dregur úr áhrifum gengisfellingarinnar fyrir útveginn, en engu að síður er það ljóst að hann getur ekki til langframa búið við mjög ranga gengisskráningu eins og nú er orðið. En einmitt núna, þegar þær hliðarráðstafanir duga ekki sem áður dugðu vel fyrir útveginn meðan lánin voru í erlendum peningum, afurðalánin og birgðirnar hækkuðu í verði í íslenskum krónum við gengisbreytinguna, þá er enn þá nauðsynlegra nú að haga málum þannig að ekki sé samhliða gengisbreytingunni og nýjum útreikningsgrunni t.d. í afgreiðslu í tolli sem síðan söluskattur leggst á, vörugjöld og allt það, sem er auðvitað nýr grunnur í krónum í gengisbreytingu, að samhliða gengisbreytingu sé bætt á mjög miklum nýjum sköttum hvort heldur eru neysluskattar eða tekjuskattar og síst þó neysluskattarnir vegna þess að þeir verka strax á verðbólguþróunina eða verðlagið í landinu.
    Hæstv. menntmrh. Ég var rétt að byrja á þessum kafla ræðu minnar í von um að sjá þig hér, ég gleðst yfir því, og var reyndar búinn bæði að þakka hæstv. menntmrh. og hæstv. forsrh. fyrir að vilja taka hér upp málefnalega umræðu um meginefni atvinnu-, efnahags- og peningamála eins og þeir báðir voru fúsir til að gera í dag jafnvel þó í nokkurri tímaþröng væri. En nú vill svo til að hæstv. forsrh. er á áríðandi fundi með að ég hygg formönnum þingflokka eða

a.m.k. einhverjum forustumönnum og þess vegna getum við hæstv. menntmrh. sem best rabbað saman á meðan.
    Ég var einmitt að víkja að því að það er út af fyrir sig alveg rétt, sem ráðherrann sagði, að afstaða atvinnurekenda er önnur nú en áður til gengisbreytinga og það byggist á því fyrst og fremst, eins og ráðherrann beint sagði eða ýjaði að a.m.k., að nú eru afurðalán öll komin í erlenda mynt og þess vegna er ekki svigrúm til hliðarráðstafana með sama hætti og áður var þegar meiri háttar gengisfelling gat mjög bætt í einu vetfangi hag atvinnuveganna því að samhliða því sem vörubirgðir hækka nú auðvitað í íslenskum krónum við gengisbreytingu hækka lánin líka. Þau eru þó sem betur fer ekki 100% heldur verður þar eitthvert svigrúm og til langframa sem fyrirtækin hagnast á því að búa við rétta gengisskráningu en ekki ranga. En ég
var að segja að einmitt vegna þessa þarf að gípa til annarra hliðarráðstafana en áður og þær geta alls ekki verið þær að bæta við sköttum. Í fyrsta lagi hækka skattar, tollar og öll vörugjöld, söluskattur og annað slíkt í krónutölu við gengisbreytinguna því að allt er þetta lagt hvað ofan á annað og grunnurinn sem skattarnir eru reiknaðir á hækkar í íslenskum krónum við gengisbreytinguna þannig að ríkið tekur þar sjálfvirkt án þess að hækka nokkra skattaprósentu mikla hækkun til sín. En í viðbót við það er nú gert ráð fyrir að bæta stórfelldum sköttum ofan á þennan breytta útreikningsgrunn og það er það sem getur ekki gengið upp. Þá er verðbólgunni boðið heim og hún fer ekki bara hliðarspor heldur hliðarhopp og dansar síðan upp á við. Það er algerlega ljóst. Þess vegna hefur minni hl. í sínu nál., sem er undirritað af öllum fulltrúum minni hl. í hv. fjh.- og viðskn., lagt til að fara þveröfuga leið, þ.e. að við gengisfellingu verði söluskattur t.d. eða einhver annar óbeinn skattur lækkaður sem svarar því að engin almenn verðhækkun verði í landinu. Það verði vegið upp að fullu þannig að það sé enginn verðbólguhvati sem óhjákvæmilega verður að öllu öðru óbreyttu.
    Hæstv. ráðherra vék að stjórnarmynduninni 1978. Það var rétt hjá honum að þá var að vissu leyti aðeins farið inn á þá hugsun sem núna er í áliti minni hl., þ.e. að lækka nokkuð söluskatta, og það var lækkaður skattur eða jafnvel afnuminn á nokkrum matvörutegundum. Aðrir skattar hækkuðu þó að ég hygg til jafns við það, en þar að auki hækkuðu svo skattar við mikla gengisfellingu, við það að útreikningsgrunnurinn sem skattarnir eru lagðir á, tollarnir og vörugjöldin og síðan söluskattur sem allt kemur hvað ofan á annað, hækkaði líka. Það var því ekki nægilega mikið að því gert að vega upp áhrif gengisfellingarinnar með því að lækka skatt á matvörurnar. En það var rétt hugsun því og algerlega rétt hjá hæstv. menntmrh. að það er ekkert nýtt sem verið er að tala um núna. Það er reyndar ekkert nýtt undir sólinni og þegar hæstv. ráðherra sagði eitthvað á þá leið að menn kæmust ekki á leiðarenda með þessum tillögum minni hl. er ég honum innilega

sammála um það. Við komumst ekkert á leiðarenda með þeim tillögum, en við erum á réttri leið eins og var okkar ágæta kjörorð í sína tíð. En ég hef aldrei látið mér detta í hug a.m.k. að við myndum leysa lífsgátuna með þeim ræðum sem nú er verið að halda. Fyrst er að ræða úrræðin og síðan þá kannski að reyna þau af því að þau hafa aldrei verið reynd. Þau voru ekki reynd í nægilega ríkum mæli 1978. Það er að vísu rétt, sem hæstv. ráðherra sagði, að það voru lækkaðir skattar a.m.k. á matvöru og felldir niður á sumum matvörutegundum, en viðbótarskattarnir sem voru þá á lagðir, bæði nýir skattar og hækkuð álagning á fyrri skatta sem gengisfellingin gerði sjálfvirkt, gerðu miklu meira en vega þetta upp. Þetta er ekki lausn á lífsgátunni, en þetta er a.m.k. tillaga um að gera tilraun sem gæti lukkast og getur a.m.k. miklu frekar lukkast en það sem nú er verið að gera. Og við skulum athuga að í a.m.k. einn og hálfan áratug hefur verið fylgt þessari sömu stefnu: gengið hefur verið fellt ef vandræði hafa verið og síðan hafa ekki bara skattarnir hækkað að krónutölu vegna breytts útreikningsgrundvallar heldur hefur prósentan verið hækkuð líka, yfirleitt alltaf og er þá verðbólgunni hleypt af stað á nýjan leik og hún hefur verið farin að æða af stað eftir örfáa mánuði aftur. Það er þetta sem við erum að vara við og viljum ekki taka þátt í, a.m.k. ekki ég.
    En þá er aftur komið að blessuðum ríkissjóðnum sem á helst að sitja fyrir öllu. Ég hef nú litið þannig á að ríkissjóður ætti að vera afgangsstærð en ekki það fyrsta sem ætti að hugsa um, fyrst ætti auðvitað að hugsa um atvinnuvegina og brýnustu nauðsynjar heimilanna þó einkum og sér í lagi. Síðan er auðvitað indælt að fá skatta. En hvað verða skattarnir miklir þegar atvinnuvegirnir eru komnir á hausinn? Ætli þeir yrðu ansi miklir þegar svo væri komið? Og þar höfum við líka dæmin fyrir okkur. Hér í fyrrahaust var reiknað út að halli á fjárlögum ársins 1988 mundi að óbreyttu með skattaálögum nema nálægt 3 milljörðum kr. Þá var dengt yfir þjóðina um 5 milljörðum í skattheimtu til að hafa nú borð fyrir báru og vera viss um að allt gengi upp og mikill afgangur yrði hjá ríkissjóði, a.m.k. núll.
    En þá gerist það í fyrsta lagi að verðlagið byrjar að hækka og síðan auðvitað kaupgjaldið sem dregur úr kaupmættinum og hér er því lýst yfir í umræðum af hæstv. fjmrh. í fyrstu skýrslu hans um stöðu fjárlaga 27. okt. sl. að fjárlagahallinn geti orðið 3--4 milljarðar, jafnvel meira. Og hver er skýringin? Hún liggur í augum uppi, segja bæði hæstv. núv. fjmrh. og eins utanrrh., fyrrv. fjmrh. Það liggur í augum uppi. Tekjurnar urðu minni en áætlað var og gjöldin meiri. Reiknimeisturunum þarna upp frá sést nefnilega alltaf yfir að það eru tveir dálkar í fjárlögunum. Þeir segja bara: Það er 3 milljarða gat. Við fyllum upp í gatið með 3 milljörðum. Þá er allt klappað og klárt. En reynslan hefur alltaf orðið sú að gjöldin hafa hækkað meira og fyrr en tekjurnar. Og hvað halda menn að gerist nú þegar það er í rauninni komin kreppa og dregur verulega úr kaupmætti, að þeir skattar sem á

að leggja á núna, 5 milljarðar, skili afgangi næsta ár? Miðað við reynsluna frá þessu ári ættu 5 eða 6 milljarðarnir að gera 10--12 milljarða halla á fjárlögunum næsta
ár. Hitt væri vegur að ríkissjóður yrði kannski hallalítill ef það yrði farið þveröfugt að, að skattarnir yrðu lækkaðir. Kaupgjald mundi þá standa kyrrt, menn mundu sætta sig við óbreytt kjör. Eða jafnvel að lækka líka matarskattinn eitthvað þannig að kjör mundu batna smávegis. Menn mundu sætta sig við það. Og ef áhrifum af gengisbreytingu, t.d. 13--15% gengisfellingu væri eytt með öllu, t.d. með því að lækka söluskattinn um 5%, það dæmi gengur nokkurn veginn alveg upp. 13% gengisfelling, 5% söluskattur vegur hvað annað upp vegna þess að söluskatturinn leggst á svo miklu stærri grundvöll en gengisbreytingin, þ.e. á alla innlenda þjónustu og alla innlenda vöru, auk innfluttu vörunnar, þá væri einhver von um að ríkissjóður gæti orðið hallalaus eða með litlum halla.
    Hæstv. ráðherra rakti þau úrræði sem menn hefðu þegar stefndi í hallarekstur og hann rakti nokkrar leiðir, nokkra valkosti, alveg réttilega, að það hefur verið venjan að grípa þá til annaðhvort skattahækkana, að hækka tekjuskatt t.d. og í öðru lagi að skera niður, sem við erum flest orðin sammála um að verði að gera hressilega, og þriðja leiðin að reka ríkissjóð með halla.
    Ég hef greint frá skoðunum mínum á því hver mundi verða afleiðingin af skattahækkunum, tekjuskattshækkunum, hvort það er tekjuskattshækkun eða hækkanir á vörugjöldum og neyslusköttum. Niðurstaðan af þeim, við höfum þá reynslu, er aukin verðbólga og meiri halli á ríkissjóði en ella mundi verða og ég held að sú verði raunin á nú eins og fyrr. Hitt hefur ekki verið reynt. Það mætti a.m.k. prufa það einu sinni, sjá hvernig það kæmi út þegar við vitum að þetta endar með skelfingu.
    En þá er komið að þessum ósköpum að reka ríkissjóð með halla. Og þá spyr hæstv. ráðherra að því hver hallinn sé, hann sé annaðhvort brúaður með erlendum lántökum eða innlendum lántökum og segir svo að erlenda lántakan, við erum sammála um það, sé af hinu illa nema til sérstakra verkefna eins og hæstv. ráðherra er líka sammála mér um að geti svo sannarlega verið rétt, til einhverra stórframkvæmda, einkum á sviði atvinnulífsins sem mundu skila miklum arði eins og orkuver mundu gera, við skulum segja hitaveitur og virkjanir o.s.frv. og jafnvel til vegagerðar gæti borgað sig að taka erlend lán til að klára tvöfalda vegi en það hefur miðað þó nokkuð samt. (Gripið fram í.) Það er mjög alvarlegt.
    En síðan er það með innlendu lánin. Hæstv. ráðherra heldur því fram að þá verði samkeppni um fjármagnið við atvinnuvegina. Þetta er algjörlega röng hugsun. Ef ríkið hirðir með sköttum peninga af mér og þér og atvinnuvegunum eru þeir peningar endanlega horfnir í ríkishítina og koma þaðan aldrei aftur. Það held ég að allir menn skilji. Og hvað með kvittunina sem við fáum frá Ólafi Ragnari Grímssyni,

hæstv. fjmrh.? Getur einhver selt hana? Er hún peningur á markaði? Ég held að enginn mundi borga krónu fyrir hana, en ef hann gefur út skuldabréf á frjálsum markaði eins og gert er í öllum vestrænum ríkjum er það aukið peningamagn í umferð vegna þess að skuldabréfin eru auðvitað ekkert annað en peningar í umferð. Þeir eru ávísanir ríkissjóðs á ríkisauðinn, peningar eru ekkert annað en ávísanir á auðinn. Áður voru þeir ávísanir á kýr og hross, síðan á gullið og þegar það dugði ekki, sá út af fyrir sig ómerkilegi málmur dugði ekkert lengur, var það orðið ávísun á ríkisauðinn og frumskylda ríkisvalds í öllum lýðræðisríkjum og raunar öllum ríkjum er að gefa út peninga, ávísanir á ríkissjóðinn. Ef ríkið tæki hluta af því fé sem það nauðsynlega þarf að láni hjá okkur eykst peningamagn í umferð en það minnkar ekki. Það minnkar við eignaupptökuna. Og það sem gerist líka með þessu móti er að þá fara hjólin að snúast þegar peningar aukast í umferð en minnka ekki. Þessu er sem sagt snúið við og hæstv. menntmrh. er ekki eini maðurinn sem hefur gert það. Það er fullt af hagfræðingum sem hafa til skamms tíma gert þetta, snúið þessu alveg við, og þetta lítur ósköp vel út. Ríkið er komið á markaðinn og keppir um fjármagnið við fólkið. Fjármagn, peningar, er ekkert annað en ríkisauðurinn og þegar verið er að auka hann er ríkið auðvitað að minnka peningana hjá fólkinu. Það er alltaf verið stanslaust að minnka yfirráð fólksins og atvinnuveganna yfir fjármununum og flytja þá í ríkishítina með beinum og óbeinum hætti. Og ríkið er að taka af okkur peninga með mörgum öðrum hætti. Það á alla sjóðina, meira og minna alla bankana og það á kröfur á hvern einasta borgara meira og minna. Það á stórfelldar kröfur á námsmenn, stórfelldar kröfur á alla húsbyggjendur. Ríkið á kannski þriðjunginn í húseignum að meðaltali, öllum húseignum á landinu, í skuldum borgaranna við ríkið og ríkið er að lána til skamms tíma, það tekur að vísu lán núna hjá lífeyrissjóðunum til skamms tíma, lána fé sem það var búið að taka af borgurunum með skattlagningu og meira að segja færir til gjalda. Þegar verið er að reikna út halla á ríkissjóði er það gert hér á Íslandi, sem ég held að sé hvergi annars staðar í veröldinni, að öll sjóðaframlög, allt sem lagt er í sjóði, er aftur lánað út með fullri verðtryggingu og vöxtum. Það eru bara gjöld hjá ríkinu. Hvaða fyrirtæki mundi færa það til gjalda ef það tekur peninga og lánar þá út aftur eins og banki gerir? Það er frekar eign en gjöld. Það held ég að menn skynji þegar þeir líta dýpra ofan í þessa hluti.
    En úr því að liðið er á kvöld og mér sýnist að menn hafi ýmislegt að hugsa ætla ég ekki að fara lengra út í þessa sálma núna, enda held ég að við hæstv. menntmrh. eigum eftir að ræða þetta meira og betur síðar. En ég held að ég hafi svarað spurningum ráðherrans í stærstum dráttum þó að minni atriðin gætum við tekið seinna þegar betur stendur á. En ég tók það fram, hæstv. forsrh., að ég væri mjög þakklátur fyrir málefnaleg svör ykkar ráðherra beggja og ég skal ekki fara út af fyrir sig langt út í að

gagnrýna þau svör við þeim beinu spurningum sem ég lagði fram. Ég átti kannski ekki von á að það væri þægilegt fyrir ráðherra eins og sakir standa að svara þeim mikið á annan hátt en hann gerði.
    Hann talaði um að það væri verið að undirbyggja þá stefnu sem ríkisstjórnin verður að móta. Orðalagið var að undirbyggja stefnu sem ríkisstjórnin verður að móta. Í því felst auðvitað að ríkisstjórnin hafi ekki mótað stefnu í efnahagsmálum en ætli að byggja þá stefnu á þeim aðgerðum sem verið er að framkvæma. Ég held að það verði mjög erfitt að byggja heilbrigða efnahagsstefnu á frv. sem nú eru að sjá dagsins ljós, skattalagafrv., því sem við erum að ræða hér, sum af þeim a.m.k., að það geti orðið erfitt og þess vegna var kannski ekki von til þess að fyrstu spurningunni yrði svarað með rökstuddum hætti á þann veg að það væri eitthvað jákvætt að gerast.
    En fyrsta spurningin var svona: Telur hæstv. forsrh. að afgreiðsla þessa máls, sem við ræðum hér núna, skattafrv. og fjárlaga muni í einhverju bæta stöðu atvinnuveganna? Svar hans var í meginefnum að verið væri að byggja undir þá stefnu sem ríkisstjórnin verður að móta. Og ég læt mér það svar alveg nægja.
    Önnur spurningin: Hvernig hyggst forsrh. rétta af rangt gengi? Telur hann að stórfelldar nýjar skattaálögur á fyrirtæki og almenning geri einhvers konar niðurfærslu kostnaðarliða auðveldari en ella? Hann viðurkenndi að það mundi ekki gerast, það gerði það ekki auðveldara, en hins vegar þyrfti að gæta hags ríkissjóðs og rakti þau rök eða rakaleysi, eftir því hvernig menn vilja á það líta, sem við höfum margsinnis heyrt og ekki síst kannski hjá sumum hagfræðingum, a.m.k. þeim sem hafa verið lengi í kerfinu og eru orðnir heimavanir og líkar vel að vera þar og eru ekkert að líta á málin frá einhverju öðru sjónarmiði en þeir gerðu fyrir 5 árum, 10 árum, 20 árum, 30 árum eða 40. Þeir eru ekkert að fá höfuðverk af því að það kynnu einhverjar aðstæður að vera eitthvað öðruvísi en t.d. var í kennisetningum aldamótahagfræðinga eða í kreppunni gömlu. Ég held að það geti ekki auðveldað lausn mála að dengja þessum skattaálögum yfir, enda hélt ráðherrann því ekki fram.
    En síðan spurði ég hæstv. ráðherra hvort hann gerði sér grein fyrir þeim grundvallarmun sem væri á stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og fjármálum og þeirri stefnu sem boðuð væri, að vísu aðeins í tveimur, þremur setningum í nál. minni hl., og ég held að þó að því væri ekki svarað öðruvísi en á þann veg að þetta væri aðeins lítill angi efnahagsstefnunnar sem þarna væri markaður láti ég mér það líka nægja. Það má segja að það sé lítill angi, en ég held samt að á þessari hugsun megi byggja mjög útfærða stefnu og meginatriðið er að hverfa frá þeim hugsunarhætti að sífellt eigi að hækka skatta, færa aukna fjármuni frá fólkinu, frá atvinnuvegunum til ríkisins eftir beinum og óbeinum leiðum, að það geti kveðið verðbólgu í kútinn, að það geti aukið afrakstur í þjóðfélaginu, að það geti bætt kjörin. Það er rangt. Það höfum við séð og það verður enginn til þess að halda því hér fram,

held ég. Hitt, skulum við segja, að búa við óbreytta skatta, reyna það, hækka þá ekki, og t.d. að við gengisbreytinguna yrði a.m.k. eitthvað slakað á sköttunum þannig að við hækkaðan grunn í krónutölu við gengisfellingu yrði prósentan lækkuð eitthvað á móti, a.m.k. á þeim vörum, þannig að krónutalan yrði sú sama, ef við ætluðumst til þess að atvinnuvegir og fólkið hefði líka sömu krónutölu á eftir, þá ætti það a.m.k. að lækka skattana á útlendu vörunni, tollana, vörugjöldin, söluskattinn af þeirri vörutegund sem svaraði því sem útreikningsgrunnurinn hækkaði.
    Við skulum segja að ríkisstjórnin tæki þá ákvörðun að láta þetta allt standa kyrrt, lækka enga skatta nema þá sem ég var að tala um sem hefðu annars hækkað, lækka þá ekki og hækka ekki heldur. Ég held að þá hefði verið kannski vegur að bjarga þessu nokkurn veginn við. Ég held jafnvel að fólk hefði látið sig hafa það, skulum við segja, að þola þá kjaraskerðingu sem þá hefði orðið ef ríkisstjórnin hefði ekki gripið til neinna þeirra úrræða sem hún er að reyna að koma fram núna. Þá væri hugsanlegt að vel hefði farnast. En með þeim ósköpum sem núna er verið að dengja yfir getur það ekki vel farið. Ég sagði það sama í fyrrahaust þegar minn flokkur átti aðild að stjórn. Ég sagði þá strax og hef margsagt síðan að daginn sem sú stjórn sveik sinn eigin stjórnarsáttmála um að reyna ekki að ná hallalausum fjárlögum nema þá á þrem árum, að reyna það ekki, þegar hún sveik sína eigin stefnu í upphafi þings í fyrra, þá var mér alveg ljóst að það var hennar banabiti, það gat ekki öðruvísi farið, og að atvinnuvegirnir mundu sligast líka. Þetta var röng stefna og þessari stefnu á nú að framfylgja af miklu meiri hörku og það skapar
enn þá meiri vanda að sjálfsögðu. Halli ríkissjóðs verður miklu meiri en ekki minni við þessar aðgerðir. En það er ekki það versta. Halli ríkissjóðs er ekkert skaðvænlegur, a.m.k. ekki í nokkur ár, ef hann er fjármagnaður með innlendu fé, þ.e. peningum, ávísunum á þjóðarauðinn, að fólkið fái svolítið meiri eignarhlutdeild í þjóðarauðnum og styrki svo hag sinnar fjölskyldu og sjálfs sín með þeim hætti.
    Það má kannski geta þess til gamans ef menn hafa ekki heyrt það áður að til skamms tíma, ég held það sé ekki eins mikið nú síðustu árin ef ég nefni Japan, þótti það nokkuð gott að ríkissjóður tæki að láni árlega u.þ.b. 6% --- ekki af fjárlögum heldur af þjóðarauðnum, þ.e. svona 20% af fjárlögum, alltaf, frá ári til árs, stanslaust, leyfði fólkinu að eignast hlutdeild í þjóðarauðnum. Í Bandaríkjunum hefur þetta verið nokkurn veginn 2--3%, alltaf nema í stríðinu, í styrjöldinni. Þá voru held ég engir skattar hækkaðir heldur öll heimsstyrjöldin fjármögnuð með innlendu lánsfé. Innlendum lántökum hjá borgurunum. Og Víetnam-stríðið, eins og það var nú arðvænleg ,,forretning``, það var líka fjármagnað með skuldabréfum. Þýskaland, eitt ríki enn sem hraðast sækir, gefur alltaf út skuldabréf fyrir svo og svo miklum hluta af fjárlögunum. Mér er ókunnugt um að það sé í hinum vestræna heimi eitt einasta ríki sem er með greiðsluafgang eða greiðslujöfnuð eins og á að

kalla það eða tekjujöfnuð á fjárlögum. Hagfræðingarnir nefna að vísu að það muni vera Sviss og það kann að vera rétt vegna þess að þar er ríkið eiginlega ekki með nein umsvif. Þar eru fylki eða kantónur sem hafa öll mál með höndum sem eru útgjaldafrekust, eins og heilbrigðismál, almannatryggingar og allt það ef ég skil það stjórnarfar rétt. Ég held ég geri það, ég viti svo mikið um það. Þar er ríkið með sáralítil umsvif. Það munar ekkert um að kalla það hallalaus fjárlög. Enginn hefur getað bent mér á að neitt annað ríki í hinum vestræna heimi væri að böðlast við þessi ósköp eins og við hér. Menn nefna það að vísu að þeir ætli að reyna hallalaus fjárlög, en það hefur aldrei tekist og enginn tekið eftir því að það gerðist ekki. En menn hefðu kannski tekið eftir því hefði tekist að koma á greiðsluafgangi. En í Bandaríkjunum, af því að menn nefndu þau, held ég --- mér var alla vega sagt það eða einhvern veginn hefur það komist inn í eyrun á mér --- að það hafi ekki verið nema tvö ár á allri öldinni sem hafi verið afgangur á ríkissjóði og það var 1927 eða 1928 þegar Hoover kom úr heimskreppunni og fyrir 10--15 árum þegar Carter náði hallalausum fjárlögum, svo til hallalausum, og verðbólgan æddi upp í eina skiptið í ég man ekki áratugi sem verðbólga hefur ætt upp í Bandaríkjunum.