Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það varð nokkur töf á því að umræða um þetta mál gæti hafist og fundi deildarinnar frestað af þeim sökum. Hæstv. ráðherra byrjaði ræðu sína á að bera fram afsökun fyrir það hversu seint hann kom til fundarins og var sú afsökun að sjálfsögðu tekin til greina. En mér er ekki grunlaust um að hæstv. ráðherra hafi verið að skjóta því aðeins á frest að mæla fyrir þessu frv., kannski hafi verið í hans huga svolítill efi og svolítið samviskubit yfir því að flytja frv. sem þetta, samviskan hafi nagað svolítið og það hafi verið svolítil sálarró að fá að fresta því að mæla fyrir þessu makalausa frv. svo sem um hálfa klukkustund.
    Hæstv. ráðherra mælti svo fyrir frv. Það vekur athygli, og ég hygg að það sé fátítt, að hæstv. fjmrh. mæli fyrir svo veigamiklu frv. og eyði meginhluta ræðunnar í það að mæla fyrir frv. sem aldrei var flutt, að mæla fyrir hugmyndum um tekjuskatta sem ekki eru hér fluttar í frumvarpsformi og mæla hér fyrir hugmyndum um sérstakan fjármagnstekjuskatt sem ekki er verið að flytja hér inn á Alþingi. M.ö.o.: Hæstv. ráðherra var í ræðu sinni ekki aðeins að mæla fyrir frv. sem ekki var flutt, hann var fyrst og fremst að staðfesta að öll stóru orðin, sem hann hafði fyrir aðeins örfáum vikum um það hvernig ætti að flytja til fjármunina í þjóðfélaginu, eru að engu orðin. Tilflutningurinn á fjármagni, eins og hann orðaði það, frá ríka fólkinu, er orðinn að skattlagningu á allan almenning í landinu. Þessi dapurlega framsöguræða fyrir frumvarpinu sem ekki var flutt er staðfesting á þessu, iðrandi stef um það að allar miklu og stóru og breiðu yfirlýsingarnar sem hæstv. ráðherra flutti eru að engu orðnar. Það vantaði ekki rúmið sem hæstv. ráðherra fékk í fjölmiðlum til þess að gera grein fyrir hinni nýju stefnu. Nú væri kominn nýr maður, nú væri komin ný stefna, nú ætti að flytja til fjármunina, nú ætti að hætta að skattleggja allan almenning í landinu, bara ríka fólkið. Svo kemur hæstv. ráðherra hér og flytur þetta iðrandi stef um að allar þessar yfirlýsingar séu hrundar. Ég er viss um það að þó að almenningur í landinu sé að verða býsna þreyttur á daglegri viðveru hæstv. ráðherra í fjölmiðlum þá hefði hann býsna gott af því að hæstv. ráðherra játaði það nú í stórri yfirlýsingu frammi fyrir þjóðinni berum orðum, en ekki með því að fara svona bakdyramegin að þeirri játningu eins og hér í þessari ræðu, að öll stóru orðin séu nú að engu orðin.
    Þetta frumvarp, sem hér hefur verið lagt fram og hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir, hefur verið kallað ,,síðasta skattheimtufrumvarp hæstv. ríkisstjórnar``. Er það vel að þeim málum linni. Hitt ber þó að hafa í huga í þessu sambandi að fyrir tveimur kvöldum síðan, að ég hygg, komu þeir ráðherrarnir fram í fréttatímum sjónvarpsins. Þá lýsti hæstv. forsrh. því yfir að tekjuskattsfrv. væri enn til meðferðar hjá stjórnarflokkunum. Þetta var sagt af því tilefni að Alþfl. mun hafa hafnað því að tekjuskattshækkunin yrði meiri en í þessu frumvarpi getur, en hæstv. forsrh. sagði að það gæti vel til þess komið að

hækkunin yrði meiri og fullyrti að meðferð frumvarpsins í þingflokkum stjórnarflokkanna væri ekki lokið. Umfjöllun um og ákvörðunum um endanlega gerð frumvarpsins væri ekki lokið. Hæstv. fjmrh. tók undir þetta með því að segja að það væri algengt að frv. væri breytt í meðförum þingsins og það gæti eins orðið í þessu tilviki. Það er auðvitað alveg augljóst að hv. deild hlýtur að kalla eftir skýrum svörum um það hvort þetta sé endanlegt frv., hvort þingmenn í hv. deild eigi að taka mark á ummælum forsrh. að þessu sinni að umfjöllun í þingflokkum stjórnarflokkanna sé ekki lokið. Eða á að taka þessi ummæli hæstv. forsrh. eins og venjulega? Það er alveg nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. svari þessu. Átti að taka mark á þessum ummælum hæstv. forsrh. eða á að taka þau eins og venjulega?
    Þetta frv. ásamt öðrum frv. sem hér liggja fyrir er auðvitað þáttur í heildarstefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags-, atvinnu- og fjármálum. Það ber auðvitað að fagna því að ríkisstjórnin hafi fallið frá áformi sínu um að skattleggja starfsemi þeirra frjálsu félagasamtaka sem unnið hafa hér mikið starf í þágu öryrkja og íþrótta, um að skattleggja starfsemi Háskóla Íslands og þar fram eftir götunum. Hæstv. ríkisstjórnin hefur sem sagt fallið frá öryrkjaskattinum, menningar- og menntaskattinum og íþróttaskattinum --- ekki af því að það sé ekki enn hugsjón hæstv. fjmrh. í nafni félagshyggjunnar að leggja á slíkan skatt, heldur vegna þess að Framsfl. ákvað eins og venjulega að brjóta a.m.k. einn af þeim samningum sem hann gerir í ríkisstjórnarsamstarfi. Minna má það ekki vera. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að um þetta hefði verið gerður formlegur samningur og hann hafði ekki fyrr lýst því yfir en Framsfl. greindi frá því að hann væri allsendis óbundinn, enda hefði samningurinn bara verið svona óformlegt, lauslegt spjall. En þó að vinnubrögðin lofi ekki meistarann, þá ber að fagna því að þessi skuli vera niðurstaðan.
    Þessi skattafrumvörp, og þar á meðal þetta frumvarp, verða auðvitað ekki slitin úr tengslum við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar í heild. Útgjöld og tekjur ríkissjóðs hljóta að ráðast af því hvaða efnahagsstefnu er fylgt. Tekjur ríkissjóðs eru að stærstum hluta til byggðar á veltusköttum og ráðast
því mjög af atvinnuástandi í landinu á hverjum tíma. Þær ráðast líka af því hverjar tekjur alls almennings eru. Það er þess vegna alveg fráleitt eins og fram hefur komið hjá hæstv. ráðherrum að niðurstöður í fjárlögum fáist einungis með því að bera saman debet og kredit. Niðurstöður fjárlaganna ráðast auðvitað fyrst og fremst af því hvaða efnahagsstefnu er fylgt. Nú er ljóst að þessi ríkisstjórn fylgir þeirri stefnu í efnahagsmálum sem getur ekki leitt til annars en að koma atvinnulífinu á kné. Og það hefur verið staðfest af hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. að það á að draga úr verðbólgunni í landinu annars vegar með því að taka erlend lán til þess að greiða niður verðlag og hins vegar með því að lama svo atvinnulífið að af þeim sökum verði engin verðbólga til. Fjárlagafrv. byggir á þessari efnahagsstefnu.

    Það er býsna athyglivert að það skuli nú gerast að hæstv. fjmrh. skuli vera sá ráðherra sem stýrir efnahagsmálum í þessari ríkisstjórn, mótar þá stefnu í öllum aðalatriðum, ekki bara í ríkisfjármálunum sjálfum heldur heildarefnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, ákveður það hvaða gengisstefnu skuli fylgt, ákveður það að ná skuli niður verðbólgu með því að lama atvinnulífið og útflutningsframleiðsluna. Það er orðið á valdi hæstv. fjmrh. Hann er orðinn verkstjóri í efnahagsmálum hjá hæstv. ríkisstjórn. Það gengur svo langt að hæstv. forsrh. felur hæstv. fjmrh. að annast viðræður við stjórnarandstöðuflokkana á þingi um framgang þingmála og efnislega niðurstöðu. Svo rækilega hefur hæstv. fjmrh. tekið við verkstjórn efnahags- og atvinnumála í landinu. Og hann fylgir rangri efnahagsstefnu.
    Það fæst aldrei botn í þessi fjárlög ef fylgja á þeirri efnahagsstefnu sem lamar atvinnulífið í landinu. Ef það á að ná niður verðbólgu með því að drepa atvinnulífið og útflutningsstarfsemina niður þá fæst aldrei botn í fjárlögin, sama hvað hæstv. ráðherra hækkar skattana. Hann heldur áfram að hækka skattana, það leiðir til þess að það dregur meir úr atvinnulífinu, framleiðslan verður minni, tekjurnar verða minni og hann þarf á ný að hækka skattana þangað til að allt er komið í öngþveiti. Þetta er vítisvél sem getur ekki annað en leitt til ófarnaðar og mun aldrei leysa þann vanda sem ríkissjóður stendur frammi fyrir. Grundvallarhugsun efnahagsstefnunnar er röng og þess vegna gengur það ekki upp að hækka alltaf skattana eftir því sem ríkissjóður lendir í meiri vanda. Það dregur bara meir úr þrótti atvinnulífsins, úr umsvifunum í þjóðfélaginu, lækkar tekjur einstaklinganna meira, og þá ætlar hæstv. fjmrh. að koma aftur og setja meiri skatta á fyrirtækin eftir því sem þau hafa minnkað afl sitt, meiri skatta á launafólkið eftir því sem tekjur þess minnka. Sér er nú hver hagspekin! Og nánast furðulegt að framsóknarmenn skuli samþykkja að þannig skuli efnahags- og atvinnumálum stýrt. Þeir sem fengu þó í sinn hlut það ráðuneyti sem á að fara með verkstjórn í efnahags- og atvinnumálum, að þeir skuli framselja það með þessum hætti til Alþb. með þessum afleiðingum og þessari niðurstöðu. Það verður að skoða allt efni frv. í þessu ljósi.
    Þetta frv. er enn ein staðfesting á því að hæstv. ríkisstjórn hefur engin önnur ráð séð en að leggja skatta á allan almenning í landinu. Vörugjaldið leggst á neysluvörur, almennar neysluvörur heimilanna, leggst með miklum þunga á húsbyggjendur, unga fólkið í landinu. Unga fólkið, sem þarf að leggja á sig meiri vinnu af því að það er að koma sér upp þaki yfir höfuðið, afla sér meiri tekna af því að það er að standa undir kostnaði við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þá á að hækka þann kostnað. Og um leið á að hækka skattana á þá sem þurfa af þessum sökum að auka við sig vinnu og afla meiri tekna. Það er verið að lama framtak unga fólksins í landinu sem er að spara með því að vinna meira og afla meiri tekna til þess að geta sjálft staðið undir því að eignast sínar

eigin íbúðir. Það er verið að vinna gegn þessu í nafni félagshyggjunnar, hæstv. fjmrh. Í nafni félagshyggjunnar er verið að koma með þessum hætti fram við þetta fólk.
    Svo segir hæstv. ráðherra að hann hafi hvergi komið þar sem ekki sé krafa um að setja nýtt skattþrep í tekjuskattinn. Hann lýsti því yfir hér á þinginu fyrr í vetur að hann ætlaði að innlima Alþfl. í Alþb. og þeir hafa verið að syngja þeirri stefnu lof og prís í Alþfl. að ganga inn í Alþb. En ég veit ekki betur en að það sé einmitt í Alþfl. sem menn hafa þó haft manndóm í sér til þess að segja að nýtt skattþrep komi aldrei til greina. Samt ætlar nú hæstv. ráðherra að innbyrða þennan flokk. Samt segir hann hér að hann hafi aldrei heyrt nefnd ein einustu félagasamtök í landinu nema þau hafi borið þessa kröfu fram. Hann ætlar þó að innbyrða þau félagasamtök sem hafa lýst því yfir að þetta megi aldrei gerast, skatturinn á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það hefur verið sýnt fram á það með skýrum rökum að sá skattur fer allur út í verðlagið. Lendir allur eða mestallur a.m.k. á neytendum í landinu og veldur auðvitað dreifbýlisversluninni mestum örðugleikum.
    Lítum þá aðeins á efnisatriði þessa frv. sem hæstv. ráðherra fór nú ekki ítarlega út í, því ræða hans var um frv. sem aldrei var flutt, frv. sem aldrei fékk stuðning. Ræða hans var um hið innra uppgjör í ríkisstjórninni. Ræða hans var um niðurlagið sem hann sjálfur hefur orðið fyrir. Þess vegna kaus hann að
fara fáum orðum um efni frv. Það gerir ráð fyrir verulegri hækkun á tekjuskatti á einstaklinga.
    Ýmislegt er athyglivert við þá útfærslu, fylgiskjal með frv. og ræðu hæstv. ráðherra. Nú er aðeins um tæpur sólarhringur síðan að frv. var lagt fram hér á Alþingi þannig að ekki hefur gefist mikið tóm til að fara nákvæmlega yfir efnisatriði þess og því nauðsynlegt að hv. fjh.- og viðskn. taki það til mjög ítarlegrar skoðunar og fari ofan í saumana á einstökum efnisatriðum. Þó eru nokkur atriði sem strax skera í augu og nauðsynlegt er að fjalla um. Það er til að mynda athyglivert að nú á að breyta út frá þeirri meginreglu sem í upphafi var sett varðandi endurskoðun á ýmsum skattfjárhæðum sem lögin gera ráð fyrir. Nú á að taka upp að nýju varðandi ýmsar greiðslur af þessu tagi, svo sem persónuafslátt, sjómannaafslátt, húsnæðisbætur, barnabætur og barnabótaauka, sérstaka skattvísitölu í stað lánskjaravísitölu sem átti að breyta þessum fjárhæðum tvisvar á ári. Skattvísitölu sem á að ákveða samkvæmt geðþótta í fjárlögum einu sinni á ári. M.ö.o.: Það er verulega verið að draga úr þeirri tryggingu sem skattborgararnir höfðu með endurskoðun samkvæmt lánskjaravísitölu. Ég trúi því tæpast að þetta frv. hafi fengið þá meðferð í þingflokkum stjórnarflokkanna að þeir hafi farið yfir þetta efnisákvæði í því. Það fær mig enginn til að trúa því að óreyndu að til að mynda þingmenn Alþfl. hafi samþykkt þessa grundvallarbreytingu skattborgurunum í óhag sem hér er verið að gera ráð fyrir. Það kemur þá í ljós í þessum umræðum ef svo er. Ég vil a.m.k. trúa því að

umfjöllun í þingflokkum stjórnarflokkanna sé ekki lokið eins og hæstv. forsrh. tók fram, þó að það sé kannski vafasamt hvernig á að taka ummæli hans í þessu tilviki sem öðrum, en á meðan ekki kemur annað í ljós þá vil ég a.m.k. trúa því, því hér er um grundvallarbreytingu að ræða.
    Ég fæ ekki betur séð en að persónuafsláttur eigi að óbreyttum lögum að hækka núna úr 16.092 kr. í 17.840 kr. En með því frv. sem hæstv. fjmrh. er að leggja hér fram er verið að ákveða persónuafsláttinn upp á nýtt upp á 17.675 kr. Samkvæmt þessu fæ ég ekki betur séð við þá skömmu athugun sem fram hefur farið en að hæstv. ráðherra sé að lækka persónuafsláttinn frá því sem verið hefði ef lögin hefðu haldið gildi sínu óbreytt. Þá sé hæstv. ráðherra að lækka persónuafsláttinn. Og á ég að trúa því að þingmenn Alþfl. til að mynda --- sem ekki eru nú viðstaddir þessa umræðu að ég sé, ( Gripið fram í: Og hafa ekki verið.) og hafa ekki verið, og ég skil það nú mætavel að þeir eigi erfitt með að fylgja hæstv. fjmrh. eftir í þessu efni --- en á ég að trúa því að þeir hafi samþykkt þessa meðferð á persónuafslættinum? Að lækka hann með framlagningu þessa frv. úr 17.840 kr., sem hann hefði átt að vera, niður í 17.675 kr.? Ja, það er þá enn eitt dæmið um kollsteypu Alþfl., ekki bara í efnahags- og atvinnumálum, heldur enn eitt dæmið um kollsteypu þeirra í skattamálum ef þeir mætu þingmenn hafa samþykkt þessa breytingu.
    Við fljótlega athugun á þeim töflum sem fylgja frv. sýnist mér að einungis sé tekið fram hvað skattgreiðendur sem þar eru tilgreindir eiga að greiða í tekjuskatt eftir þessar breytingar, þegar tekið hefur verið tillit til persónuafsláttarins. Svo virðist sem hæstv. fjmrh. sé í þessum töflum að nýta allan persónuafsláttinn á tekjuskattinn og ætli að láta útsvarið í engu njóta persónuafsláttar. Það kemur þó ekki fram í frv. að þá breytingu eigi að gera heldur er þar þvert á móti gert ráð fyrir því áfram að persónuafslátturinn komi hlutfallslega jafnt til frádráttar á tekjuskatti og útsvari. Og ef það er rétt sem mér sýnist að þannig séu þessar töflur búnar til, þá er hér auðvitað verið að skekkja mjög hina raunverulegu mynd og draga upp mjög villandi upplýsingar. Ef leiðrétt er fyrir þessu þá má til að mynda taka hér dæmi af þeirri fjölskyldu sem hæstv. ráðherra nefndi, hjónum með tvö börn, þar sem annað er sjö ára og hitt sextán ára. Hæstv. ráðherra sagði: Ef þessi fjölskylda hefur 150 þús. kr. í tekjur þá hækkar skatturinn ekki nema um 300 kr. Ef hins vegar tekið er tillit til þess sem lögin gera enn ráð fyrir, að persónuafslátturinn eigi að koma til frádráttar bæði á tekjuskatt og útsvar, þá hækka skattgreiðslur þessara hjóna, ekki um 300 kr. samkvæmt þessu frv. heldur um tæpar 3000 kr. Um tæpar 3000 kr. Og það munar býsna miklu hér á. Það munar æðimiklu og breytir í grundvallaratriðum þeim niðurstöðum sem hæstv. fjmrh. var að kynna.
    Það væri fróðlegt að fá að vita hvort hæstv. ráðherra hefur kynnt frv. með þessum hætti í

þingflokkum stjórnarflokkanna sem greinir hér í töflunum og engum öðrum, með sama hætti og hann kynnti hér hv. deild þetta frv. Samkvæmt raunveruleikanum byrjar fjölskyldan, sem hér var tekin sem dæmi, hjón með tvö börn, að greiða skatt í núverandi kerfi við 120 þús. kr. mánaðartekjur. Eftir breytinguna byrjar þessi fjölskylda að greiða skatt við 110 þús. kr. mánaðartekjur. Það er með öðrum orðum verið að hækka skatta á öllum almennum launatekjum. Og ef við tökum einstakling þá byrjar hann í núverandi kerfi að greiða skatt við 55 þús. kr. mánaðarlaun, en samkvæmt nýja kerfinu byrjar hann að greiða skatt við 50 þús. kr. mánaðarlaun. M.ö.o.: Skattahækkunin, sem hæstv. ráðherra segir að eigi að leggjast á breiðu bökin, nær til fiskvinnslukonunnar sem vinnur í bónus- og dagvinnu. Hjón, sem vinna í
fiskvinnu, dagvinnunni einni, fá skattahækkun samkvæmt þessu frv. Þar er skilgreiningin á hinum breiðu bökum hjá hæstv. fjmrh. í nafni félagshyggjunnar. Þetta er hin eiginlega niðurstaða í þessu frv. Sýnir fátt betur hvernig öll stóru orðin hafa fokið út í veður og vind og sýnir glöggt að það var ærin ástæða fyrir hæstv. ráðherra að tala hér ekki fyrir frv. heldur fyrir frv. sem ekki var flutt. Það var ærin ástæða fyrir hæstv. ráðherra að gera það og sannarlega hygg ég að það hafi verið góð stund sem hann átti meðan hann frestaði að mæla hér fyrir frv. í hálftíma.
    Nei, það er alveg ljóst að þetta er ekki leiðin til þess að mæta þeim örðugleikum sem íslenska þjóðin á við að etja í dag. Að hækka tekjuskatta á öllum almenningi í landinu, að hækka tekjuskattana á fiskvinnslukonunni við minnkandi atvinnu og þrengingar atvinnufyrirtækjanna, það er ekki leiðin til þess að mæta vandamálunum í dag. Gatið á ríkissjóði verður ekki stoppað með þessum hætti. Það heldur áfram að vaxa með þessum hætti.
    Svo er það ein spurning til hæstv. ráðherra. Í þessum makalausu ákvæðum, þar sem talað er um að hverfa frá tengingu við lánskjaravísitölu yfir í geðþóttaskattvísitölu samkvæmt ákvörðun í fjárlagafrv. ár hvert, kemur fyrir orðið lánskjaravísitala. Nú liggur það fyrir að hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. hafa lýst því yfir að ný lánskjaravísitala eigi að taka gildi um áramót. Nokkrir þingmenn Framsfl. hafa hins vegar lýst því yfir að sú nýja vísitala sé allsendis ófullkomin og það gangi ekki að hafa þá vísitölu og þeir hafa lagt til að skipuð verði sérstök nefnd til að taka þetta mál úr höndum viðskrh. til þess að gera tillögur um aðra vísitölu en þá sem hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. hafa ákveðið að taki gildi um áramótin. Þar með hafa stjórnarflokkarnir hér inni á Alþingi lýst því yfir að á næsta ári eigi að gilda a.m.k. tvær tegundir af lánskjaravísitölu. Svo hafa menn af því spurnir, og það er ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt, að hann hafi gefið lífeyrissjóðunum fyrirheit um það að þeir geti á næsta ári treyst því að í lánssamningum milli þeirra og fjmrn. verði stuðst við óbreytta lánskjaravísitölu. Ef þær fregnir eru réttar þá liggur það fyrir að ríkisstjórnin stefnir að því að hafa þrjár tegundir af lánskjaravísitölu á næsta ári.

Ringulreiðin getur nú varla verið meiri. En það er alveg nauðsynlegt að það komi þá a.m.k. fram í skattalögunum þar sem talað er um lánskjaravísitölu, hvaða lánskjaravísitala það er af þessum hringlandi sem á að vera í skattalögunum því að þar verður þó vonandi að vera ein vísitala. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra svari þessari spurningu hér á eftir.
    Frv. gerir líka ráð fyrir verulegum breytingum á skattlagningu atvinnufyrirtækja. Auðvitað getur verið full ástæða til þess að endurskoða í grundvallaratriðum skattlagningu á atvinnureksturinn í landinu. Það kemur fyllilega til álita að mínu mati að breyta uppbyggingu þeirrar skattálagningar. En það er auðvitað fráleitt við aðstæður sem þessar, þegar atvinnufyrirtækin eru að loka hvert af öðru, þegar það liggur fyrir að meginvandi atvinnulífsins er sá að það hefur ónógt eigið fjármagn, að ætla þá að taka hverja einustu krónu af þeim fyrirtækjum, sem þó skila arði og hagnaði og geta byggt sig upp, í ríkissjóð og halda áfram að knésetja þau fyrirtæki sem hafa þó lífvænlegan grundvöll í dag. Það er m.ö.o. verið að staðfesta það hér enn einu sinni að þetta er stefna hæstv. ríkisstjórnar með þeim ákvæðum sem hér eru sett.
    Og það á að draga úr heimildum til þess að ráðstafa hluta af rekstrarhagnaði í sérstakan fjárfestingarsjóð. Ég hefði nú haldið að þetta hefði verið eitt af skynsamlegustu ákvæðunum sem sett hafa verið í skattalög því að auðvitað þurfa skattalögin að stuðla að því að sveiflur, sem eru miklar í íslensku hagkerfi og leiða sem betur fer stundum til þess að tekjuaukning er mikil, lenda ekki allar í fjárfestingu samstundis og að atvinnufyrirtækin hafi möguleika á því að geyma fjármuni til síðari tíma en þurfi ekki að fjárfesta þegar í stað bara til þess að sleppa við skattgreiðsluna. Það er engum vafa undirorpið að mikið af þeirri fjárfestingu í landinu, sem ekki skilar nægjanlegum arði, er af þessum rótum runnið. Og nú á að auka á þetta skattalega misrétti með skattaákvæðum, að pína þá sem vilja taka þátt í því að dreifa fjárfestingu á lengri tíma til þess annaðhvort að fara í óarðbæra fjárfestingu eða þá að setja peningana í ríkissjóð og draga úr því að unnt sé að byggja betur upp eiginfjárstöðu atvinnufyrirtækjanna í landinu. Hvort tveggja er jafnalvarlegt. Hvort markmiðið sem hæstv. ríkisstjórn hefur í huga er auðvitað rangt, leiðir okkur af þeirri braut sem við þurfum að stefna á.
    Svo kórónar það auðvitað allt að það á að fella niður heimildir til þess að fyrirtækin geti dregið frá styrki til menningarmála og vísindarannsókna. Það á að fella niður frádráttarheimild þegar fyrirtæki verja fjármunum til menningarstarfsemi í landinu. Það kórónar nú þetta sköpunarverk og þarf ekki að fara um það fleiri orðum. Það lýsir mest þeirri smán sem þetta frumvarp er.
    Hér eru svo atriði sem sjálfsagt er að taka til skoðunar efnislega eins og skattlagningu á bifreiðum sem stjórnendur fá, um breytingar á skattalegri meðferð ef fyrirtæki eru að veita starfsmönnum eða

stjórnendum lán. Þar ber
þess þó auðvitað að gæta að það er nauðsynlegt að hafa sömu viðmiðunarreglu að þessu leyti hjá öllum fyrirtækjum og með öllu ástæðulaust, sýnist mér, að taka hlutafélög ein úr en heimila slíkar ráðstafanir ef það eru samvinnufélög. Ég vona að þetta stafi ekki af því að hæstv. fjmrh. er sjálfur meðlimur í samvinnufélagi að það eigi að skilja þau eftir og gefa þeim rýmri heimildir að þessu leyti. En óneitanlega vakna spurningar af því tagi þegar svo stendur á að hæstv. ráðherra er einmitt meðlimur í félagi af því tagi sem á að undanþiggja þessum ákvæðum. Atriði sem þessi er sjálfsagt að taka til skoðunar í hv. fjh.- og viðskn.
    Síðan er hér gert ráð fyrir hækkun á eignarskatti. Eignarskattur er á margan hátt óréttlátur skattur. Það er verið að skattleggja eignir sem hafa myndast vegna þess að menn hafa áður aflað tekna sem búið er að skattleggja. Það er verið að skattleggja sparnað með þessum hætti. Það er verið að tvískatta tekjumyndunina í þjóðfélaginu. Og það er verið að hvetja menn til þess að eyða fremur en að mynda eignir. Þess vegna er þetta mjög varasamt skattform og hækkun á því við þessar aðstæður gengur auðvitað þvert gegn öllum þeim markmiðum sem æskilegt er að stefna að í íslenskum þjóðarbúskap um þessar mundir.
    Ástæða er til að spyrja, til þess að enginn vafi leiki á um það, hvort nýja skattþrepið upp á 1,5% eigi að leggjast ofan á lægra þrepið eða vera sjálfstætt. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra muni svara spurningum af því tagi hér síðar í umræðunni.
    Það er sagt að þetta nýja skattþrep leggist aðeins á 6 þúsund einstaklinga af 182 þúsund framteljendum. Hæstv. ráðherra veit auðvitað að hér er verið að villa um fyrir mönnum. Hæstv. ráðherra veit auðvitað hversu stór hluti framteljenda borgar engan skatt, hversu stór hluti framteljenda eru unglingar og skólanemendur sem borga enga skatta. Hið rétta hlutfall, hin rétta viðmiðun væri sú að fá hér fram hvað það eru margar fjölskyldur sem greiða skatt og hvað það eru margar fjölskyldur sem fá þetta nýja skattþrep. Þá fyrst fáum við rétta viðmiðun um það til hversu stórs hóps þessi skattlagning nær. Og ég vona að hæstv. ráðherra geri hér í umræðunni grein fyrir þeirri viðmiðun því það er hún sem er rétt. Þessi er röng og villandi og hefur ekkert að segja um hið efnislega innihald.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að svo stöddu fleiri orðum um þetta makalausa frv. sem hér hefur verið lagt fram. Það er makalaust, dæmalaust, að hæstv. ríkisstjórn skuli leyfa sér að flytja frv. af þessu tagi við þær aðstæður sem við búum við í dag, skuli ætla sér kinnroðalaust að leggja með þessum hætti auknar byrðar á allan almenning, ekki bara meðaltekjufólkið heldur lágtekjufólkið í þjóðfélaginu, þegar tölurnar í frv. eru skoðaðar í réttu ljósi en ekki villuljósi. Það er hið rétta ljós en ekki villuljósið sem á að lýsa í þessari umræðu. Það er auðvitað makalaust hvernig hæstv. ráðherra hefur talað þær vikur sem

hann hefur setið í stól fjmrh., hvernig hann með stórum yfirlýsingum lýsti hinum nýju og breyttu áherslum og hvernig allt það hefur hrunið, hvernig hann stendur nú hér uppi með tekjuskattshækkun á allan almenning, með vörugjaldshækkun á almenna neytendur í þjóðfélaginu, ekki síst húsbyggjendur, þá sem í mestum erfiðleikum eiga um þessir mundir af launafólkinu í landinu. Þetta er það eina sem eftir er af stóru orðunum. Allt hrunið. Ég hygg að það séu engin dæmi um það að fjmrh. hafi á jafnskömmum tíma hrapað úr turni fyrirheitanna niður á jafnsléttu. Kannski var það fílabeinsturn. En það hefur enginn á jafnskömmum tíma tekið jafnmikla kollsteypu, staðið hér jafnberskjaldaður gagnvart fyrri yfirlýsingum eins og hæstv. fjmrh. og enda von að hann verði mestum hluta framsöguræðu sinnar í það að tala fyrir frv. sem ekki var flutt.
    Þetta frv. er þess eðlis að Sjálfstfl. er andvígur því í öllum meginatriðum. Það kunna að vera örfá atriði sem ástæða er til þess að skoða málefnalega eins og annað í meðferð hv. nefndar, en það liggur ljóst fyrir að sú tekjuskattshækkun sem hér er verið að leggja til stríðir gegn öllum skynsamlegum markmiðum í stjórn efnahags- og peningamála.
    Það verður ekki bætt úr vanda ríkissjóðs með þeirri kreppustefnu sem hæstv. fjmrh. fylgir. Það verður aðeins gert með því að breyta í grundvallaratriðum efnahagsstefnunni og taka fjárlögin og útgjöld þess og tekjur að nýju upp á grundvelli breyttrar efnahagsstefnu og breyttra forsendna á þeim grundvelli að sköpuð hafi verið hér skilyrði til þess að örva atvinnulífið og hleypa nýjum þrótti í atvinnulífið. Þá aukast umsvifin, þá aukast tekjurnar af óbeinum sköttum, þá hækka tekjur fólksins í landinu og þá skulum við sjá hvort það verður ekki auðveldara að leysa vanda ríkissjóðs. En með því að ætla að keyra atvinnulífið niður, minnka þannig umsvifin í þjóðfélaginu og lækka um leið tekjur fólksins, þá leysir fjmrh. engan vanda heldur heldur áfram að hlaða vandamálunum upp.