Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Nú er fram komið hið svokallaða síðasta skattafrv. ríkisstjórnarinnar og fjallar um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Hér er um að ræða frv. þar sem gerðar eru tillögur um mjög viðamiklar breytingar á núgildandi skattalögum, bæði að því er varðar tekjuskatt einstaklinga og tekjuskatt fyrirtækja en ekki síður eignarskatta.
    Ég tel að með frv. þessu hafi sannast, eins og við margir í stjórnarandstöðunni höfum haldið fram, að hæstv. fjmrh. mundi guggna á því áformi sínu að ætla að klessa nýju svokölluðu hátekjuskattþrepi inn í hið nýja staðgreiðslukerfi skatta. Ég fagna því mjög að hann hefur látið sannfærast af þeim efnisrökum sem um það mál hafa verið flutt, bæði hér í þingsölum og væntanlega einnig af hans eigin undirmönnum í fjmrn. og í skattkerfinu.
    Það er svo eins og hvert annað yfirklór, sem kom fram í ræðu ráðherrans, að hann ætli eitthvað að láta athuga þetta frekar og hálf var það ámátlegt þegar hann var að lesa upp úr grg. frv. um þetta efni --- rétt eins og þingmenn geti ekki gert það sjálfir --- að þarna séu þessi og þessi atriði er varða nýtt skattþrep og ýmsar vangaveltur í því sambandi. En aðalatriðið er að fjmrh. hefur verið knúinn til betri vegar í þessu efni og er ég ekki grunlaus um að þar hafi ýmsir einstakir þingmenn annarra stjórnarflokka átt hlut að máli. En gjörðin er söm og ég fagna þeirri stefnubreytingu sem fram er komin í þessu efni.
    Ég vakti athygli á því í gær, herra forseti, að með því að frv. mun vera síðasta tekjuöflunarfrv. sem hæstv. ríkisstjórn leggur fram er þar með fallið frá áformum bæði um skatta á happdrættin í landinu og á þá sem að þeim standa og sömuleiðis á orkufyrirtækin í landinu og eigendur þeirra. Hvort tveggja er þetta af hinu góða og til marks um að það eru ekki allir stjórnarþingmenn sem hyggjast lúta framkvæmda- og verkstjórn hæstv. fjmrh. sem hefur annars tekið sér öll ráð í hendur að því er virðist í efnahags- og fjármálum. Það er ekki öðruvísi að skilja yfirlýsingar ráðherranna, einkanlega forsrh., og ekki heldur að skilja öðruvísi framgang mála hér í þingi en svo, að forustumaðurinn og potturinn og pannan í þingstörfunum af hálfu stjórnarliðsins sé enginn annar en hæstv. fjmrh. En ég skil það vel að einstakir þingmenn í stjórnarflokkunum uni því misvel.
    Ég hef vakið athygli á því í umræðum hér á þingi, m.a. um vörugjald, að kaupmáttur atvinnutekna hefur minnkað verulega með minnkandi yfirvinnu og minna vinnumagni, sem fólki stendur til boða, og ég hef jafnframt vakið athygli á því að kaupmáttur ráðstöfunartekna muni sömuleiðis minnka mjög verulega vegna skattalagabreytinga ríkisstjórnarinnar. Þarna er samtals um að ræða kaupmáttarskerðingu upp á a.m.k. 7% að því er fróðir menn telja áður en ríkisstjórnin grípur til nokkurra efnahagsráðstafana, en eins og allir vita verður það óumflýjanlegt fyrr eða síðar.
    En að því er varðar skattahækkanirnar og áhrif skattanna á kaupmátt ráðstöfunartekna erum við

kannski komin að frv. sem hér er til umræðu vegna þess að það er einn meginburðarstólpinn í tekjuöflunaráformum stjórnarinnar. En væntanlega verður það svo að ríkisstjórnin mun ekki ein eiga við afleiðingar þess að glíma, a.m.k. ekki ef kjarasamningar verða gefnir frjálsir á næstu dögum eins og margt bendir til að verði og þá ekki bara sú fáránlega hugmynd að gefa verkfallsréttinn frjálsan en ekki samningsréttinn, að leyfa mönnum að tala saman og hóta verkfalli án þess að hafa um neitt að semja fyrr en eftir 15. febrúar. Það bendir allt til þess að menn geti þá rætt þau mál öll og áhrif skattahækkana á kaupmáttinn, m.a. þessa frv. sem fram er að ganga á næstu dögum og vikum, en um þessi mál er einmitt verið að ræða í hv. Ed. um þessar mundir.
    Ég hyggst nú, herra forseti, víkja nokkuð að einstökum atriðum í þessu frv., en áður en ég geri það kemst ég ekki hjá því að nefna eitt atriði sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra í dag og snýr að tekjujöfnuninni innan núverandi kerfis. Því um leið og hann var að reyna að tala sig út úr því fráhvarfi frá öðru skattþrepi sem hann var að gera í dag upplýsti hann jafnframt að innan núverandi skattkerfis með einu þrepi væru verulegir möguleikar til tekjujöfnunar rétt eins og þetta væri einhver nýlunda og upplýsti síðan með miklum mærðarsvip að það hefði verið vanrækt að útskýra þennan möguleika fyrir almenningi. Geri ég þá ráð fyrir að hann hafi ekki sjálfur áttað sig nægilega vel á þessum möguleika þegar hann kom til starfa í sínu núverandi embætti eða á sínum fyrstu starfsvikum þar.
    En hitt er öllum ljóst, sem hafa eitthvað fylgst með þessum málum, átt sæti á Alþingi undanfarin tvö ár t.d. þegar þessi mál hafa verið þar til umræðu, að þetta er eitt af lykilatriðunum í þessu nýja staðgreiðslukerfi skatta eins og það er í pottinn búið, þessir möguleikar sem þar eru fyrir hendi til að tekjujafna innan skattkerfisins og hafa áhrif á tekjuskiptinguna með því að spila saman skattþrepinu, skatthlutfallinu, og síðan persónuafslætti og barnabótum. Það er út af fyrir sig ánægjuleg viðurkenning að fjmrh. sjálfur lýsir því yfir að hann hafi bara ekkert áttað sig á þessu
fyrr en rétt nýlega. Ég verð að segja að það er út af fyrir sig ákveðin hreinskilni.
    Hins vegar get ég alveg tekið undir það með honum að framkvæmd staðgreiðslukerfisins hefur verið mjög viðamikið og umfangsmikið verk. Það vissu menn vel áður en í það var ráðist með tiltölulega stuttum fyrirvara og það var ljóst að það mundi reyna mjög á það ágæta starfsfólk sem framkvæmdin hvílir á. Skattstjórar og aðrir starfsmenn vissu vel að mikil ábyrgð mundi hvíla á þeirra herðum í þessu efni, en þeir hafa leyst þetta verkefni afar vel af hendi, ekki síst staðgreiðsludeild ríkisskattstjóraembættisins, og ég vil taka undir það sem hæstv. ráðherra sagði um það starfsfólk sem þar starfar og á auðvitað ekkert annað en lof skilið fyrir vel unnin störf í þessum málum.
    En ef ég kem að einstökum þáttum í frv., herra forseti, þá er alveg ljóst að hér eru á ferðinni ýmsir

hlutir sem koma mönnum annarlega fyrir sjónir þó á hinn bóginn sé líka að finna í frv. ýmis atriði sem unnt er að samþykkja og eflaust sjálfsagt að breyta, en þau eru hins vegar öllu færri en hin atriðin sem eru með þeim hætti að þau er ekki unnt að fallast á.
    Það hefur þegar verið bent á í þessum umræðum að það eigi, að því er virðist nokkuð lymskulega, að breyta viðmiðun við vísitölur sem í gildandi lögum er að finna. Ég tók ekki eftir því að ráðherrann gerði þetta atriði að umtalsefni, en vitanlega getur það skipt miklu máli hvort hækkun viðmiðunarfjárhæða og persónuafsláttar t.d. er bundin lánskjaravísitölu í lögum eða hvort um þær fjárhæðir á að fjalla árlega við meðferð fjárlaga og setja þessar fjárhæðir í tengsl við skattvísitölu.
    Nú er að vísu ekki skýrt tekið fram í grg. hvað nákvæmlega vakir fyrir mönnum með þessari breytingu eða hvaða nauðsyn knýr á um að hún verði gerð. Hér segir eingöngu, með leyfi forseta: ,,Skv. 22. gr. frv. er hins vegar gerð tillaga um að tengja fjárhæð persónuafsláttar, sjómannaafsláttar, húsnæðisbóta, barnabóta og barnabótaauka við sérstaka skattvísitölu í stað lánskjaravísitölu með sama hætti og aðrar fjárhæðir í lögunum. Skattvísitala skal ákveðin í fjárlögum ár hvert. Þetta þýðir að fjárhæðir þessara afslátta og bóta verða ákveðnar í tengslum við fjárlagaafgreiðslu hverju sinni í samræmi við almenna stefnumörkun stjórnvalda í ríkisfjármálum.``
    En það eru einmitt þessi síðustu orð ,,í samræmi við almenna stefnumörkun stjórnvalda í ríkisfjármálum`` sem læða inn hjá manni þeim grun að þarna eigi að opna fyrir möguleika sem ekki hefur verið fyrir hendi til þess að spila á skattkerfið skattborgurunum í óhag svo að lítið beri á. Margir minnast deilna hér á árum áður um skattvísitölu, nærri því árlegra deilna um hana í tengslum við afgreiðslu fjárlaga. Ég held að það væri afskaplega óheppilegt að stofna til þess háttar deilna um þessi atriði í hinum nýju staðgreiðslulögum, og ég held að það væri hyggilegast að reyna að forðast slíkar deilur. A.m.k. kemur ekki fram í frv. hvaða nauðsyn rekur til að gera þessa breytingu eða hvaða efnislegar ástæður kunna að vera fyrir því. Ef þær eru einhverjar þarf að gera betur grein fyrir því en þarna er gert.
    Í framhaldi af þessu hefur líka verið vakin athygli á því að það virðist vera ósamræmi í þeim persónuafslætti sem ákveðinn er í núverandi lögum og þeim persónuafslætti sem fram kemur í frv. Á þetta er reyndar bent í dagblaði í dag þar sem því er haldið fram að skattleysismörkin lækki verulega miðað við óbreytt lög samkvæmt frv. Ég geri ráð fyrir því að ráðherrann hyggist svara því sem fram kemur í þessari frétt, en það er alveg sama eðlis og sú gagnrýni sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Suðurl. hér fyrr í umræðunni. Ef eitthvað er rangt með farið varðandi persónuafsláttinn og þær upplýsingar sem birtar eru í frétt DV í dag um það efni held ég að ráðherrann skuldi okkur einhverjar skýringar vegna þess að þetta stangast mjög á við það sem hann hélt fram í sínu máli.

    Látið er að því liggja með þeim gögnum sem fylgja frv. og það hefur komið fram í fjölmiðlum og eftir ráðherranum haft að skattar einstaklinga eftir þessa breytingu hækki aðeins örlítið á tekjum sem eru undir 60 þús. kr. og reyndar sáralítið á tekjum sem þar eru fyrir ofan. Þá gleymist hins vegar að taka með inn í þetta dæmi útsvarið sem menn verða að borga og standa skil á þó að það renni ekki til ríkissjóðs og auðvitað nýtist persónuafslátturinn upp í greiðslu útsvars ef því er að skipta. Það er ekki til þess að glöggva mönnum skilning á þessum málum að láta þess í engu getið að menn verði að standa skil á útsvari sínu til viðbótar því sem fram kemur í töflunum.
    Nú er ég ekki að segja að þessar töflur svo langt sem þær ná séu rangar. Ég held að þær séu vafalaust rétt út reiknaðar miðað við forsendur og auðvitað stendur hér að þetta séu breytingar á tekjuskatti en ekki tekjuskatti og útsvari. En þó að þetta sé ekki rangt er þetta eilítið villandi og sama er að segja um það að þessar tölur eru allar reiknaðar á áætluðu meðalverðlagi ársins 1989 á sama tíma og allar tölur frv. sjálfs eru reiknaðar á verðlagi í desember á þessu ári, þar með talinn persónuafslátturinn sem óhjákvæmilega kemur með í útreikninginn í þessum töflum. Þannig að án þess að ég sé að gera lítið úr þeirri vinnu sem liggur hér að baki teldi ég að þetta hefði mátt vera
fyllra til að gefa af þessu heildarmynd og það á sambærilegum tölum og er að finna í frv.
    Hins vegar er það nú þannig, herra forseti, að því er mjög haldið fram, og svo hefur verið frá því að fjárlagafrv. sá fyrst dagsins ljós í haust, að þetta frv. mundi ekki leiða til þess að skattur hinna tekjulægstu hækkaði. Hins vegar mundi þetta lenda á breiðu bökunum svokölluðu. En eitthvað er þetta nú málum blandið í frv. Að vísu fer það auðvitað eftir því hvernig menn skilgreina lægstu tekjur, en mér þykir nú æðilangt seilst þegar því er haldið fram í athugasemdum með frv. á einum stað að hið almenna markmið með frv. sé að skattbyrði þeirra sem miðlungstekjur hafa og lægri verði því sem næst óbreytt milli áranna 1988 og 1989. Það segir hér á bls. 9 í athugasemdum við 21. og 22. gr. og verður ekki betur séð en að það sé í ósamræmi við það sem áður er komið fram nema hæstv. ráðherra ætli að halda því fram, og má vera að hann geri það, að mánaðarlaun á meðalverðlagi árið 1989, 60 þús. kr., verði á þeim tíma miðlungstekjur í landinu. Eitthvað er þarna nú málum blandið, auk þess sem ljóst er að 60 þús. kr. fyrir einstakling þykja ekki neitt sérstaklega há laun þó að ég geri mér grein fyrir því að auðvitað eru þeir einstaklingar til, því miður, sem ekki hafa hærri mánaðarlaun en þetta og hafa ekki möguleika á að drýgja tekjur sínar með öðrum hætti. Um það er hins vegar enginn efnislegur ágreiningur að fólk sem er í þeirri aðstöðu á auðvitað ekki að borga neina skatta og það er eitt af því sem náðist fram í tengslum við kerfisbreytinguna yfir í staðgreiðslu í fyrra, þá tókst að afnema skatt af mjög

lágum tekjum. Eins og kemur fram í þessum töflum er enginn tekjuskattur á þessum tekjum miðað við kerfið eins og það er í dag. Það var út af fyrir sig ánægjulegur ávinningur sem þá náðist fram þó að auðvitað megi alltaf halda því fram að skattleysismörkin svokölluðu eigi að vera hærri en þau eru í dag.
    Ég tel hins vegar að ráðherrann hafi reynt að gera sér fullmikinn mat úr þessari 60 þús. kr. upphæð eða 120 þús. fyrir hjón vegna þess að það þykir enginn sérstakur árangur og mér þykir það enginn sérstakur árangur að hafa komið í veg fyrir að skattur leggist á slíkar tekjur. Fyrr má nú vera metnaðurinn gagnvart láglaunafólkinu ef menn þurfa að berja sér á brjóst og stæra sig af því að hafa tekist að koma í veg fyrir að þeir sjálfir eða félagar þeirra legðu skatt á slíkar tekjur. Þetta er eins og að menn komi hér og segi: ,,Það stóð til að fara hér niður í 30 þús. eða 40 þús. og okkur tókst að koma í veg fyrir það. Það stóð til að lækka skattfrelsismörkin.``
    Auðvitað er þetta ósköp ódýr málflutningur. Í þessu felst hins vegar gagnvart einstaklingum sú stefna Alþb. að hækka skatta á öllum tekjum umfram þetta hóflega lágmark, 60 þús. Það er auðvitað ákveðin stefna að hér séu allt of lágir beinir skattar og því beri að breyta. Ég er hins vegar ekki sammála þeirri stefnu þó að ég viðurkenni það vel að núverandi staðgreiðslukerfi býður upp á möguleika til hagstjórnar sem ekki voru fyrir hendi í hinu gamla. Þá er auðvitað eðlilegt að nota eftir aðstæðum, en þá hefði ég talið að eðlilegra væri að hækka skattana þegar um er að ræða þenslu, en draga frekar úr þeim á samdráttartímum. Hins vegar felst náttúrlega í frv. ráðherra ákveðin viðurkenning á því að skattkerfið er vel nothæft eins og það er til frekari tekjujöfnunar og þar með, eins og ég sagði áðan, ástæðulaust og nánast óframkvæmanlegt að bæta inn í það öðru skattþrepi.
    Að því er varðar fyrirtækjaskattana, en af þeim stærði hæstv. fjmrh. sig einna mest í ræðu sinni, þar væru merkastar umbæturnar á ferðinni jafnvel, þá er það mál allt mun fjölskrúðugra en tekjuskattur einstaklinga vegna þess að það mál er tiltölulega einfalt og tekur ekki margar greinar í frv. Hins vegar er tekjuskattur fyrirtækja þeim mun fyrirferðarmeiri og hver greinin af annarri fjallar um að breyta honum.
    Hæstv. fjmrh. byrjaði mál sitt hér í dag og reyndar endaði það líka á þeim ummælum að það væri mikil óhæfa hversu fyrirtæki á Íslandi greiddu lítinn tekjuskatt. Þetta er nú ræða sem forveri hans einn úr Alþb., hv. þm. Ragnar Arnalds, hélt hér árlega yfir þingmönnum og varð þó engin breyting á þegar hann var fjmrh., skattar fyrirtækja tóku engum sérstökum stakkaskiptum. Það er vegna þess, og þar er blekkingin fólgin í máli hæstv. fjmrh., að fyrirtæki á Íslandi borga svo mikið af öðrum sköttum sem draga úr þeirra hagnaði. Þau verða að borga svo mikið af sköttum óháð tekjum og afkomu að það dregur auðvitað úr hagnaði þeirra og þar með þeim skatti sem þau borga af sínum hagnaði.
    Það er því auðvitað mikil blekking að halda því

fram að fyrirtæki á Íslandi hafi verið skattlaus. Þau borga bæði há aðstöðugjöld og ýmsa aðra skatta, launaskatt og margt fleira sem við höfum m.a. verið að fjalla um þessa dagana, þannig að auðvitað er það alveg út úr samhengi að taka bara tekjuskatt fyrirtækjanna einan og koma svo og segja eins og ráðherrann hefur gert, bæði hér og í fjölmiðlum: Sjáið þið bara, fyrirtækin borga enga skatta.
    Þetta er ekki rétt og reyndar ætti hann að vita þetta sjálfur. Hitt er hins vegar rétt sem fram kom í hans máli að það frv. sem hann hefur lagt fram mun stefna að því að hækka verulega tekjuskatt á fyrirtækjum sem á annað borð
hafa einhvern hagnað eftir að hafa lokið greiðslum á öðrum sköttum sem eru óháðir afkomu þeirra.
    Það er hins vegar ekki rétt, svo að ég haldi mig við mál hæstv. fjmrh., að sú hækkun sem verður á tekjuskattinum standi í einhverjum tengslum við þá hækkun sem verður á tekjuskatti einstaklinga. Því er haldið blákalt fram í frv. og hæstv. ráðherrann hélt því blákalt fram að skatthlutfall fyrirtækja hækkaði í takt við hækkun á tekjuskatti einstaklinga. Ég er hér, herra forseti, að vitna orðrétt í athugasemdir frv. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þykir eðlilegt að skatthlutfall fyrirtækja hækki í takt við hækkun á tekjuskatti einstaklinga til þess að raska ekki gildandi hlutföllum í skattlagningu milli einstakra rekstrarforma.``
    Þetta hljómar nokkuð prúðmannlega, en er auðvitað hin argasta blekking þegar að er gáð vegna þess að samkvæmt frv. fjmrh. hækkar raunverulegur skattur úr 33,6% í 42,5% á meðan tekjuskattur einstaklinga hækkar úr 28,5 í 30,5. Og ef ráðherrann er í einhverjum vafa um hvað ég er að tala um, þá er ég að tala um það að ekki er nóg að benda á að í 17. gr. frv. sé gert ráð fyrir að álagningarprósenta tekjuskatts fyrirtækja hækki úr 48% í 50%. Það verður líka að taka með áhrifin af 8. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir því að heimild til þess að leggja í fjárfestingarsjóði lækki úr 30% í 15%. Þar með borga fyrirtækin ekki lengur 48% af 70% hagnaðar eins og áður var eða hefur verið, heldur 50% af 85% hagnaðar í báðum tilfellum þegar búið er að taka fjárfestingarsjóðina með í reikninginn. Þess vegna er það algjör blekking, ósvífin blekking, að halda því fram að vegna þess að munurinn á milli 48 og 50 er hinn sami og á milli 28,5 og 30,5 sé hér einhver sambærileg breyting á ferðinni. Þetta er bara algjör og reyndar auðsæ blekking þeim sem til þekkja.
    Hitt er annað mál, herra forseti, að það segir í athugasemd með ákvæðinu um lækkun heimilda til þess að leggja í fjárfestingarsjóði að það hafi verið ráðagerð fyrri stjórnar að fella þessi framlög niður og þess vegna hafi þau í fyrra verið lækkuð úr 40% í 30%. Það er alveg rétt. Það stóð til í tíð fyrri stjórnar, og var reyndar eitt af því sem unnið var að í tíð fyrri ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, hæstv. núv. forsrh., að breyta þessum sjóðum, fella niður ýmsa frádráttarliði sem verið hafa fyrir hendi í tekjuskatti fyrirtækja en lækka á móti álagningarprósentuna.

    En hæstv. núv. fjmrh. gerir sér lítið fyrir og fer þveröfuga leið. Hann vill lækka heimildina til þess að leggja í fjárfestingarsjóði og fellir niður ýmsa aðra frádráttarmöguleika en hækkar síðan prósentuna. Auðvitað er það hrein ósvífni, hæstv. fjmrh., að gefa það í skyn í athugasemd með þessari 8. gr. frv. að hér sé verið að tala um sama hlutinn. Auðvitað er það ekkert annað en blekking, ómerkileg blekking, að vera að gefa það í skyn að það hafi vakað áður fyrir mönnum að fara inn á þær brautir sem lagt er til í frv. Það er alveg eins og með álagningarhlutfallið sjálft sem ég var að rekja hér áðan. Þetta er tóm blekking. Það er blekking að halda því fram að tekjuskattshlutfall fyrirtækja hækki í takt við hækkun á tekjuskatti einstaklinga þegar tekið er tillit til þessara möguleika varðandi fjárfestingarsjóði.
    Það er ýmislegt fleira hér uppi á borði hjá hæstv. ráðherra að því er varðar tekjuskatt fyrirtækja eins og m.a. það að þrengja fyrningarreglur. Það hefur einmitt verið eitt af því sem hefur aðgreint sósíalistana í Alþb. frá ýmsum öðrum aðilum í þjóðfélaginu, sem tjá sig um stjórnmál og efnahagsmál, að sósíalistarnir í Alþb. hafa átt afskaplega erfitt með að skilja það hvað fyrningar eða afskriftir væru í raun og hafa talið að þarna væri bara um að ræða einhverja óeðlilega frádrætti, óeðlilegar skattívilnanir, þegar í raun er um að ræða frestun gjaldfærslu á hlutum sem eyðast í framleiðslunni eða rekstrinum. Ég veit að ég þarf ekkert að tala um það yfir hæstv. viðskrh., en það væri kannski ráð að hann tæki alþýðubandalagsmennina í ríkisstjórninni í smákennslustund í þessum efnum.
    Nú er verið að gera tillögu um að breyta fyrningarhlutföllum. Þó að það sé rétt sem ráðherra sagði að að einhverju leyti sé verið að fara í það horf sem var í þessum lögum árið 1981, þá er það nú þannig um marga hluti að með framförum og tækniþróun styttist gjarnan endingartíminn. Það þarf ekki annað en að nefna tölvur t.d. sem verða mjög fljótt úreltar með breyttri tækni. Það verður auðvitað að vera eitthvert samhengi milli skattalegra fyrninga og raunverulegra efnahagslegra afskrifta, raunverulegs endingartíma og notkunartíma hluta sem um er að ræða. Ég heyrði ekki ráðherrann færa neinar slíkar röksemdir fyrir sínu máli, eingöngu þær að þetta hefði verið svona árið 1981.
    En þó að hæstv. ráðherra hafi ekki nefnt það berum orðum, þá er tilgangurinn auðvitað sá að auka skattstofninn og krækja sér í eilítið fleiri krónur hjá þeim fyrirtækjum sem hafa einhvern hagnað og geta þar af leiðandi borgað tekjuskatta. Síðan, og það tengist þessum fyrningum, er gert ráð fyrir því í 4. og 5. gr. frv. að fella niður heimildir til þess að færa til gjalda á einu ári alls kyns smávarning. Bæði er um að ræða ýmsar vörur, sem nota þarf í
rekstri en hafa skemmri endingartíma en þrjú ár, en það hefur verið heimilt að gjaldfæra þær að fullu á einu ári þegar þær eru keyptar. Svo er einnig um það að ræða að heimilt hefur verið að færa til gjalda kostnaðarverð ýmissa smáhluta sem ekki eru að

verðmæti nema tiltekin upphæð --- hún hefur verið u.þ.b. 100 þús. kr., reyndar 108 þús. kr. á þessu ári --- að færa slík kaup til gjalda á einu ári.
    Ég veit ekki hvað eiginlega vakir fyrir hæstv. ráðherranum með þessari breytingu af því að ég er ekki viss um að hann átti sig á því hvað þetta er ópraktískt sem hann er að tala um með þessari breytingu. Þetta þýðir það, ef grannt er skoðað og eftir orðanna hljóðan, að fyrirtæki í landinu verði að færa alls kyns smámuni sem keyptir eru til rekstrarins og endast, ja hugsanlega innan við þrjú ár, hugsanlega lengur, fyrirtækin verða að fyrna slík kaup á einhverjum tíma. Ef fyrirtæki, t.d. smíðaverkstæði, kaupir sér borvél eða hefil eða eitthvað slíkt sem ekki eru nein gríðarleg verðmæti þá verður það að fyrna slík aðföng. Ég er ansi hræddur um að fyrning slíks lausafjár feli í sér gríðarlega mikið óhagræði fyrir öll fyrirtæki og sé ekki sú tekjulind sem ráðherrann gerir sér eflaust von um, ef það er það sem vakir fyrir honum því að þetta útskýrði hann ekki í máli sínu. Þar fyrir utan er ofan í þetta kaup bætt þeirri ósvinnu að þetta ákvæði á að vera afturvirkt og gilda við álagningu fyrir tekjur og gjöld á þessu ári. En auðvitað hafa öll fyrirtæki á þessu ári fært sitt bókhald á grundvelli gildandi laga og fært þetta allt til gjalda jafnóðum í stað þess að gera það með þeim hætti sem um væri að ræða ef þarna væri um að ræða venjulegar fyrnanlegar langtímaeignir.
    Þetta er auðvitað algjör fjarstæða, hæstv. ráðherra. En það eru langir fingurnir á Alþb. um þessar mundir, þykir mér, og víða er leitað fanga um tekjur ef það á nú að fara að seilast svona langt. En það var kannski engin tilviljun að ráðherrann sá ekki ástæðu til að gera grein fyrir þessum atriðum í sinni ræðu.
    Að því er varðar 6. og 7. gr. þessa frv. sem snúa að bifreiðum framkvæmdastjóra og starfsmanna til einkanota þá tel ég að þar sé á ferðinni ákvæði sem er sjálfsagt að athuga og sömuleiðis 7. gr. varðandi lán til hluthafa í hlutafélögum ef það gildir þá jafnframt um aðila í öðrum rekstrarformum.
    Að því er varðar hins vegar 9. gr. frv., um möguleika manna til þess að yfirtaka rekstrartap í óskyldum rekstri, þá vildi ég líka taka undir það að þar er eflaust athugandi að gera breytingu frá núgildandi reglum, ef menn geta skilgreint nákvæmlega hvað átt er við með orðunum ,,sams konar rekstri`` sem þarna koma fram. Þetta tel ég að hv. fjh.- og viðskn. eigi að kanna sérstaklega.
    Síðan er í þessu frv. gert ráð fyrir því að niður falli möguleikar fyrirtækja á því að fá dregið frá tekjum sínum gjafir til menningarmála, vísindalegra rannsókna, viðurkenndrar líknarstarfsemi og kirkjufélaga. Mætti ég ekki minna hæstv. fjmrh., en ekki síður hæstv. viðskrh., á það að þegar lög um staðgreiðslu voru sett hér fyrir tveimur árum síðan, þá gerðist það að fyrir mistök féll út þetta lagaákvæði sem hér er gerð tillaga um að fella niður. Þetta ákvæði féll út fyrir mistök sem urðu í fjmrn. og hér í þinginu, en síðasti hæstv. fjmrh., hæstv. núv. utanrrh., beitti sér fyrir því sérstaklega að þetta yrði

aftur sett inn í lögin. Að honum var gerð hörð hríð af hálfu alþýðubandalagsmanna, ef ég man rétt, a.m.k. man ég það vel úr hv. fjh.- og viðskn. á þeim tíma að Alþb. var ekkert á þeim buxunum að hleypa þessu aftur inn í lögin, þannig að ég skil vel að þeir skuli nú, þegar þeir eru komnir í aðstöðu til þess, vilja fella þetta út á nýjan leik.
    En mér er spurn: Hvað hefur breyst að því er Alþfl. varðar? Og hvaða nauður rekur nú til þess að fella út úr lögunum það ákvæði sem fjmrh. Alþfl. gekk í vatnið fyrir í fyrra til þess að koma inn í lögin á nýjan leik? Hvað hefur breyst? Eru alþýðubandalagsmenn algjörlega að ná undirtökum í öllu samstarfi þessara flokka? Er nú ekkert heilagt lengur, ekki einu sinni mál sem hæstv. núv. utanrrh. gerði að sérstöku baráttumáli hér á síðasta þingi? Er nú Alþfl. bara algjörlega búinn að beygja sig í duftið fyrir forustu og framkvæmdastjórn hæstv. fjmrh. sem, eins og ég sagði í upphafi, er búinn að taka öll völd í sínar hendur að því er virðist í efnahags- og fjármálum?
    Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort allir muna eftir því hvað hér var á ferðinni mikið baráttumál í fyrra við breytingar á þessum lögum, hvað það var hæstv. núv. utanrrh. mikið kappsmál að koma þessu inn í lögin á nýjan leik. Auðvitað var það vegna þess að hann hafði góðar og gildar ástæður fyrir því, þær sömu ástæður fyrir því og ég hef fyrir því núna að vera andvígur því að fella þetta út. Við vitum ósköp vel að það hefur verið ákveðinn bakhjarl í atvinnulífinu fyrir einmitt þessa starfsemi sem þessar gjafir renna til. Það hefur verið talið eðlilegt að ríkisvaldið styddi með þessum óbeina hætti við þá starfsemi með því að afsala sér skatttekjum af þessum peningum og hvetti jafnframt atvinnulífið og fyrirtækin í landinu til þess að veita menningarstarfsemi, vísindarannsóknum, líknar- og kirkjufélögum sérstakan
stuðning. Ég held að það væri einmitt frekar meira vitið að reyna að efla þetta, auka tengslin milli atvinnulífsins og þessarar starfsemi. Það skyldi þó aldrei vera að það gæti haft í för með sér eitthvað minni útlát ríkisins sjálfs þegar fram í sækir. En hér ræður skammsýnin ríkjum, peningagræðgin í Alþb. hefur tekið völdin og alþýðuflokksráðherrarnir lúta í duftið. Jafnvel þó að hér sé á ferðinni verknaður sem ekki er einu sinni orðinn ársgamall. Ég sé að þeim er báðum skemmt, ekki síst viðskrh. sem auðvitað veit upp á sig þessa miklu skömm. Hann veit hana jafn vel upp á sig og fjmrh.
    Ég hef nú ekki lokið máli mínu enn þá, hæstv. fjmrh., en það fer að styttast í það.
    Ég ætlaði að koma næst eilítið inn á eignarskattsþáttinn í frv. vegna þess að ég hef nú þegar gert að umtalsefni tvo hina meginþættina, þ.e. tekjuskatt einstaklinga og tekjuskatt fyrirtækja. En þó að lítið fari fyrir þriðja þættinum, sem er eignarskattur einstaklinga og fyrirtækja, þá er þar um að ræða tröllauknar hækkanir á núverandi skatti. Tröllauknar hækkanir. Svo miklar að þegar það er tekið í

tengslum við aðrar eignarskattshækkanir núv. ríkisstjórnar þá efast ég um að nokkrir hafi séð annað eins, hvorki hérlendis né annars staðar í öðrum menningarlöndum.
    Ég hef í nál. um frv. til laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sýnt fram á hversu sú skattheimta á þann skattstofn sem fasteignamatið er sé komin út í mikla ófæru. Eins og hv. þm. er kunnugt stefnir þessi ríkisstjórn að því að tvöfalda sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Ef um er að ræða skrifstofuhúsnæði eða verslunarhúsnæði sem er í eigu einstaklings eða einstaklinga og er meira en 6 millj. kr. virði --- ég geri ráð fyrir að það séu nú býsna margar verslanir og skrifstofuhúsnæði sem þannig er ástatt um --- þá verður skatturinn, sem lagður er á þennan eignarskattsstofn, fasteignamatsstofninn, hvorki meira né minna en 6,4%.
    Ég veit ekki hvort menn hafa gert sér grein fyrir þessu. Það er 2,2% skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það er hinn almenni eignarskattur, sem samkvæmt þessu frv. á að hækka í 1,2%. Það er þjóðarbókhlöðuálagið, sem hæstv. fyrrv. fjmrh. og núv. sömuleiðis ætla að stinga í vasa ríkissjóðs að mestum hluta. Það er síðan sérstakt viðbótarálag upp á 1,5% sem menn verða að greiða ef eign þeirra er umfram 6 millj. kr. af því sem er umfram þá tölu.
    Þetta hef ég sannreynt að er meiningin með ákvæðinu í 19. gr. Það kom fram á fundi í fjh.- og viðskn. Nd. í morgun að það mun vera ætlunin þó að orðalagið í greininni sé villandi, ég kem að því á eftir. En með því að vera búinn að koma heildarskattlagningunni á fasteignamatið upp í 6,4% þá er náttúrlega ljóst að eign, sem þarf að standa undir slíkri skattheimtu, verður að gefa dável af sér því hún þarf að skila af sér hvorki meira né minna en 6,4% raunvöxtum til þess eins að standa undir þessum eignarskatti. Þá færu tekjurnar allar í eignarskattinn og þá væri eignateknaskatturinn eða fjármagnsteknaskatturinn af þessu orðinn 100%. En ef það ætti að borga af þessu jafnhátt hlutfall og þetta frv. gerir ráð fyrir að einstaklingar greiði í tekjuskatt, þá þarf svona eign að skila af sér 17% raunávöxtun og verð ég að segja að það skýtur nú mjög skökku við og stingur í stúf við hugmyndir fjmrh. og ríkisstjórnarinnar um vexti og ávöxtun á verðmætum, ef þeir ætlast í raun og veru til þess að menn afli slíkra tekna af eignum sem þessum.
    Ég viðurkenni það fúslega að ég hef hér tekið það dæmi sem lengst gengur. Að því leyti til er þetta jaðartilfelli þar sem skatturinn verður svo gríðarlega hár. En sjá ekki allir hvert stefnir? Það þarf ekki mikið hugmyndaflug fyrir fólk til þess að reikna út sjálft hvað verið er að gera þarna því það er verið að leggja slíkar byrðar á þennan eina skattstofn að það sætir mikilli undrun.
    Nú stendur hér í 19. gr., með leyfi forseta:
    ,,Eignarskattur manna reiknast þannig: Af fyrstu 2,5 millj. kr. af eignarskattsstofni greiðist enginn skattur. Af næstu 3,5 millj. kr. af eignarskattsstofni greiðist 1,2%. Af eignarskattsstofni yfir 6 millj. kr. greiðist

1,5%.``
    Ég hef borið mig saman við nokkra aðila hér í þingdeildinni í dag og okkur hefur öllum komið saman um að þetta geti ekki þýtt nema eitt, þetta geti ekki þýtt annað en það að skatturinn hækki um 0,3% þegar verðmæti eignar fer yfir 6 millj. kr. og þá greiði menn 1,5% af því sem þar er umfram. Hins vegar er þetta heldur óljósara í grg., enda mun það svo að því er ég hef sannfrétt, m.a. á fundi í fjh.- og viðskn. í morgun, að þetta er alls ekki það sem átt er við heldur á að leggja þetta eina og hálfa prósent ofan á þann skatt sem fyrir er. Þannig að skattur á eignir yfir 6 millj. kr. á ekki að vera 1,5% heldur 2,7%. Og sjá nú allir hversu gríðarlegt stökk það er að fara úr 0,95%, eins og þetta er í dag, upp í 2,7% af eignum sem eru yfir 6 millj. kr. að verðmæti hjá einstaklingi.
    Auðvitað ætti að standa þarna í frv. ef þetta ætti að vera nákvæmt: Af eignarskattsstofni yfir 6 millj. greiðist 1,5% til viðbótar. Eða það ætti að standa þarna: Greiðist 2,7% --- til þess að það sé innbyrðis samræmi í þessu
frv.
    En ég held að þetta hljóti nú einfaldlega að vera einhver villa því ekki trúi ég því upp á fjmrh. að hann hafi ætlað að villa mönnum sýn í þessu efni, enda tel ég fullvíst að eins og þetta frv. er orðað, ef það hefði orðið að lagatexta, þá hefði það verið túlkað eftir orðanna hljóðan sem 1,5% en ekki sem 2,7%. En ætlan ráðherrans er auðvitað söm og það hugarfar sem þar býr að baki. Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á því hvað þar er um að ræða.
    Nú er það þannig, fyrst fjmrh. gerði mjög að umtalsefni skattlagningu fjármagnstekna, að það er auðvitað samhengi milli eignarskatts og skattlagningar á eignartekjur. Og í þessu tilfelli, þegar um er að ræða fasteignir og fasteignamatsskatt, þá er þarna mjög einfalt samhengi á ferðinni í raun og veru. Ef lagður er á 2,7% skattur, segjum að þetta sé nú bara íbúðarhúsnæði, þá er það auðvitað 2,95 vegna þess að við bætist álagið í þjóðarbókhlöðuna, og þá þarf eignin að gefa af sér 2,95% raunávöxtun til þess að standa undir þessu. Og ef það er reiknað yfir í húsaleigu, þá er það sannarlega nokkuð há eigin húsaleiga sem menn eru þá að greiða sjálfum sér óbeint ef þeir geta staðið undir slíkri skattlagningu.
    Miðað við 2,95% eignarskatt þá er sem sagt 100% skattur á tekjurnar af eigninni ef þær samsvara 2,95% raunávöxtun. Nú er hins vegar vaxtastigið ekki þarna um þessar mundir. Ef við gefum okkur að raunávöxtun sé kannski almennt í þjóðfélaginu 6%, þá erum við samt að tala um 50% skatt á þessar eignatekjur, 50% tekjuskatt eða ígildi hans á þessar tekjur. Fjmrh. má því ekkert vera haldinn þeim misskilningi að það sé ekki lagður neinn fjármagnstekna- eða eignateknaskattur á hér í landi. Hann er lagður á þarna með þessum hætti þó að óbeint sé. Ég held að það hljóti að vera að fjmrh. og aðstandendur hans allir geri sér grein fyrir þessu.
    En nú er það hins vegar ekki þannig að menn hafi verið að tala um það í alvöru að leggja 50%

tekjuskatt á fjármagnstekjur. Þær tölur sem ég hef heyrt nefndar í því efni hafa allar verið miklu, miklu lægri. Ég held því að það sé alveg ljóst að varðandi þetta tiltekna eignarform er skattheimtan komin út fyrir öll eðlileg mörk og út fyrir það sem nokkrum mundi detta í hug ef um væri að ræða beinan skatt á tekjurnar af þessum eignum. Ég held að þessi áform, ef þau ná fram að ganga, séu gersamlega óraunhæf og komin út fyrir öll þau mörk sem nokkur maður getur talið eðlileg út frá einhverjum efnahagslegum eða fjármálalegum forsendum. Þetta eru bara orðin trúarbrögð eða eitthvað álíka. Þá er bara spurningin: Af hverju er þá ekki farið í 10% eignarskatt eða eitthvað álíka? Það er alveg jafnrökrétt og þetta. Verð ég nú að segja að ég undrast það að ýmsir ágætir þm. Framsfl. og Alþfl. skuli hafa látið plata sig inn á þetta. En það er ekki víst að þeir hafi gert sér grein fyrir því hvað í þessu getur falist og munum við þá væntanlega kanna það í hv. fjh.- og viðskn.
    En ávöxtunarkrafan, sem er innbyggð í þá gríðarlegu skattheimtu á eignir sem hér er á ferðinni í þinginu í dag, í þessari hv. deild, bæði með þessu frv. og með frv. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, er svo há, þessi innbyggða ávöxtunarkrafa er svo há að hún fer langt fram úr því sem manni skilst að tíðkist á hinum svokallaða gráa markaði og langt fram úr því sem ríkisstjórnin sjálf þykist vera að keppa að að því er varðar vexti, vaxtastig og ávöxtunarkröfu almennt í þjóðfélaginu.
    Ég sé heldur ekki betur en fjmrh. sé búinn að koma hér á svo rækilegum fjármagnsteknaskatti í þessu formi að ég er ekkert hissa á því þó hann skjóti því máli annars öllu saman á frest eins og fram kom í ræðu hans fyrr í dag. Ég hef reyndar fyrir nokkru síðan hér í þinginu átt við hann nokkurn orðastað út af þeim málum vegna þess að hann klifar sífellt á því að það sé eðlilegt að taka upp fjármagnsteknaskatt, skatt á fjármagnstekjur vegna þess að það hafi verið gert í öðrum löndum. Ég hef hins vegar leyft mér að benda honum á það að efnahagsástandið í þessum öðrum löndum sé kannski eilítið öðruvísi en hér, að tilhneiging til sparnaðar sé kannski eilítið öðruvísi en hér og uppspretta innlends sparnaðar í þessum löndum kannski eilítið öðruvísi. Hann hefur hins vegar ekki séð ástæðu til að hlusta neitt á það frekar en svo margt annað.
    Það er auðvitað fráleitt að halda því fram að vegna þess að í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og einhverjum öðrum löndum sé slíkur skattur, þá eigi hann jafn vel við hér. Fjmrh. hefur eflaust þurft í starfi sínu að taka erlend lán. A.m.k. veit ég að forveri hans, hv. núv. þm. Ragnar Arnalds, þurfti á sínum tíma eins og allir aðrir fjármálaráðherrar að taka erlend lán fyrir íslenska ríkið í útlöndum. Og hvar tóku menn þessi lán? Var það ekki einmitt í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Bretlandi og Japan og í þessum löndum þar sem sparnaður er mikill, þar sem peningar eru fluttir út en ekki inn eins og við gerum, þar sem sparnaður er svo mikill, að þeir geta ekki komið honum öllum í lóg innan lands og þurfa þess

vegna flytja hann til annarra landa?
    En það er auðvitað mergurinn málsins, þetta almenna efnahagsástand í löndunum. Hver er sparnaðurinn í hverju landi fyrir sig og hvaða áhrif mun svona skattur hafa, almennur skattur á fjármagnstekjur, á viðleitni manna til
þess að spara? Ég óttast það mjög að slíkur skattur við núverandi aðstæður á Íslandi mundi draga úr sparnaði sem er eitt af því sem við verðum helst að varast og helst að reyna að koma í veg fyrir. Ef okkur tekst að koma hér á varanlegu jafnvægi og efla sparnað og auka hér á Íslandi þá skulum við tala um þennan skatt því að að baki hugmynda um hann liggja ýmis sjónarmið sem ég út af fyrir sig get tekið undir.
    En það er auðvitað fráleitt að ætla sér að kasta honum inn án þess að huga að hagkerfinu í heild, hvað þar er að gerast og það er auðvitað til marks um illa undirbúinn málflutning að grípa til þess ráðs að segja: Svona er þetta hjá íhaldsstjórnunum í Bretlandi, í Danmörku, í Þýskalandi og hér og þar um heim. Það er auðvitað ekki málflutningur sem mark er takandi á þó að hæstv. fjmrh. hafi séð sig knúinn til þess að grípa til þeirra röksemda.
    Hæstv. forseti. Þetta er nú orðið nokkuð langt mál og ég er eiginlega búinn að fjalla um þau atriði flest sem ég hafði hugsað mér að gera að umtalsefni. Ég vil aðeins segja það í lokin að þetta frv. er að mörgu leyti stefnumarkandi fyrir heildarskattastefnu og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, enda er það ekkert skrýtið því að aðalforustumaður hennar í þeim efnum leggur það fram. Ég verð hins vegar að segja að það veldur mér miklum vonbrigðum ef óbreyttir þingmenn í Alþfl. og Framsfl. ætla að styðja þetta frv. óbreytt því að í því er mjög margt sem gengur þvert gegn því sem þessir sömu hv. þm. hafa í fyrra samstarfi verið að vinna að og þar er að ýmsu leyti verið að grafa undan ýmsum umbótamálum og framförum sem stefnt var að á þessu sviði skattamála í fyrri ríkisstjórnum tveimur. Það á ekki síst við um ýmislegt sem snýr að skattlagningu fyrirtækja, en líka ýmis tæknileg atriði sem snúa að skattlagningu einstaklinga, að ég tali nú ekki um eignarskattinum sem gersamlega gengur fram af manni hvernig fara á með.
    Ég vil þess vegna beina því til þeirra, þó að þeir séu nú ekki margir hér viðstaddir, að þeir skoði þetta mál vel og vandlega. Ég veit að samnefndarmenn mínir í hv. fjh.- og viðskn., þar sem ég á sæti þessa dagana í forföllum annars nefndarmanns, munu gefa sér góðan tíma til að skoða þetta vel með embættismönnum fjmrn. sem ég efast ekki um að muni boðnir og búnir að sitja þar með okkur til að fara yfir þetta. Það er spá mín að verði þetta allt að lögum, þá muni margir þeirra þingmanna sem að þessu standa þurfa einhvern tíma fljótlega aftur, þegar ný ríkisstjórn verður hér komin til valda, að horfa upp á það að þessu verði breytt aftur og jafnvel taka þátt í því sjálfir. Og þá held ég að sé nú betra að forðast að stíga slík skref til ófarnaðar áður en þau eru orðin í stað þess að þurfa að eiga síðan aðild að því að afturkalla þau síðar meir.

    Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.