Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Ég byrja á því, sem er reyndar óvenjulegt af okkur þingmönnum Sjálfstfl. í umræðum undanfarna daga, að hæla hæstv. fjmrh. dálítið. Ég ætla að hæla honum fyrir það að svo virðist sem hann hafi í samkeppni ríkisstjórnarflokkanna og í samkeppni ráðherranna náð yfirhöndinni sem talsmaður hæstv. ríkisstjórnar, ekki aðeins í fjármálum ríkisins heldur í efnahagsmálum almennt. Hæstv. forsrh., hinn yfirlýsingaglaði ráðherra, er algerlega horfinn í skuggann fyrir hæstv. fjmrh. í þessum efnum og þá sjaldan hæstv. forsrh. kemur fram, eins og t.d. í gær, er hann misskilinn eða jafnvel virðist ekki skilja sjálfur hvað hann meinar eins og glögglega hefur komið fram í fjölmiðlaumræðunni í dag þar sem hvað stangast á annars horn varðandi það sem hann raunverulega meinti í umræðum í Ed. í gær. Mér finnst að hæstv. fjmrh. eigi skilið prik fyrir að vera orðinn aðaltalsmaður hæstv. ríkisstjórnar í fjármálum og efnahagsmálum og ég veiti honum það hér með. Það þýðir auðvitað ekki að ég sé sammála þeim málflutningi sem hann iðkar hér eða þeim tillögum sem hann leggur fram á Alþingi.
    Ég undirstrika í upphafi eitt atriði sem hv. 1. þm. Suðurl. gerði ítarlega að umtalsefni í sinni ræðu og ég skal ekki fara nákvæmlega út í, en það er sú tilraun sem gerð er til blekkinga í útlistun á því frv. sem hér liggur fyrir og er til umræðu. Hv. 1. þm. Suðurl. gerði mjög rækilega grein fyrir því að í þeim töflum sem fylgja með frv. væri einungis tekið fram hvað menn greiddu í tekjuskatt, en í staðgreiðslunni verða menn að átta sig á skattbyrðinni í heild, þ.e. bæði á útsvarsgreiðslunni og tekjuskattsgreiðslunni, því að persónuafslátturinn dregst frá samanlagðri álagningu tekjuskatts og útsvars. Þess vegna er það í rauninni svo að skattgreiðendur munu greiða hærri tekjuskatt en hæstv. fjmrh. vildi vera láta í sinni ræðu og í sinni útlistun við fjölmiðla og að skattleysismörkin eru lægri en hæstv. fjmrh. hefur gefið til kynna.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefán Valgeirsson ræddi um réttlætið í sinni ræðu áðan og spurði: Hvað er réttlætið? Og á honum var að skilja að hér væri um að ræða frv. sem fyrst og fremst legði skatta á hátekjufólk og eignafólk eins og hæstv. fjmrh. hefur reynt að telja þingheimi og almenningi trú um. En nú er þetta ekki svo. Það liggur alveg kristalklárt fyrir að einstaklingur í núverandi skattkerfi með 55 þús. kr. tekjur væri skattlaus, en í þessu nýja kerfi, sem hér er gert ráð fyrir og hv. þm. mælti með, eru 50 þús. kr. mörkin, þau lækka niður í 50 þús. kr. ( SV: Ég er óánægður með þetta. Ég vil hafa hærri skatta.) M.ö.o.: þetta frv. er frv. um aukna skattbyrði á lágtekjufólk. Þetta er frv. um aukna skattbyrði á konuna sem vinnur í frystihúsinu eða jafnvel Iðjukonu sem vinnur í einhvers konar bónusvinnu þannig að þetta er blekking sem hæstv. fjmrh. heldur fram.
    Í rauninni hlýtur maður að spyrja að því: Hvernig stendur á því að gögn af þessu tagi eru lögð fram með fjárlagafrv.? Ég fór að skoða þessi gögn nánar og þá sé ég að þau eru merkt hagdeild fjmrn. Og maður

hlýtur að spyrja í því sambandi: Hvað er þessi hagdeild fjmrn.? Hún á sér nokkra sögu en stutta þó.
    Ég vil í upphafi þó áður en ég rek það minna á að fyrir tveimur árum var samþykkt á hv. Alþingi þáltill. þar sem skorað var á ríkisstjórnina að láta fram fara athugun á starfsemi þeirra ýmsu hagstofnana sem hér eru í þjóðfélaginu og hvort ekki væri hægt að samræma störf þeirra betur með tilliti til fækkunar því að enginn vafi væri á því að verið væri að vinna sömu verkin á fleiri en einum stað. Menn voru með Þjóðhagsstofnun í huga, menn voru með hagdeild Seðlabankans í huga og vafalaust fleiri stofnanir af þessu tagi.
    Síðan gerðist það að þegar fyrrv. hæstv. fjmrh., núv. hæstv. utanrrh., settist í ráðherrastól virtist hann ekki treysta einum eða neinum nema helst hann hefði flokksskírteini Alþfl. upp á vasann. Maður horfði á það með miklum ugg og kvíða hvernig hann hreinlega rústaði fjmrn., hvernig hver starfsmaðurinn á fætur öðrum, hæft starfsfólk sem hafði unnið í fjmrn. og hafði mikla reynslu, flúði ráðuneytið og hvarf á braut. Eitt af því sem þáv. hæstv. fjmrh. tók upp var að í stað þess að treysta hlutlausri stofnun sem allir í þjóðfélaginu eiga að bera fullt traust til stofnaði hann sérstaka hagdeild innan fjmrn. sem reyndist vera eins konar pólitísk deild í fjmrn. Það var hagdeild þar sem hæstv. fjmrh. sjálfur sagði fyrir um hver niðurstaðan ætti að verða. Það er þessi sama hagdeild sem spáði því í september, og hæstv. þáv. fjmrh. varð styggur við ef efast var um réttmæti þeirrar niðurstöðu, að halli á fjárlögum yrði 690 millj. kr. á árinu 1988. Ég treysti þess vegna ekki þessari hagdeild fjmrn. og lái mér það hver sem vill. Þetta er pólitískur armur ráðherrans, þessi deild, og ég sé það glögglega á þeim gögnum sem lögð hafa verið fram með fjárlagafrv. að það er verið að blekkja, a.m.k. er verið að segja hálfan sannleikann. Og hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi, eins og segir í kvæðinu eftir Stephan G. Það er ámælisvert að leggja fram gögn af þessu tagi því að þau fela í sér blekkingar.
    Ég ætla ekki að ræða meira um þennan þátt, en nú vildi ég aðeins fá að vita hvort hæstv. menntmrh. væri í húsinu ef herra forseti vildi athuga það
fyrir mig. ( Gripið fram í: Hann er í atkvæðagreiðslu í Ed.) Er hann í atkvæðagreiðslu í Ed.? ( Forseti: Ég mun gera hæstv. menntmrh. viðvart um að hans nærveru sé óskað.) Ef hann er bundinn mundi ég bíða með þann kafla í ræðu minni þar til á eftir. ( Forseti: Já, hæstv. ráðherra verður gert viðvart núna og mun væntanlega birtast innan tíðar.)
    Ég skal þá á meðan hæstv. menntmrh. er upptekinn í Ed. í atkvæðagreiðslu drepa á annan þátt sem snertir bæði þetta skattafrv. og önnur skattafrv. sem verið hafa til meðferðar hér í hv. deild að undanförnu. Við sjálfstæðismenn höfum lýst mjög ákveðinni stefnu gagnvart einstökum frumvörpum sem hér hafa verið flutt. Við höfum treyst okkur til þess að styðja sum frumvörp, eins og frv. um frestun á gildistöku virðisaukaskatts. Við höfum treyst okkur til þess að koma til móts við hæstv. ríkisstjórn varðandi önnur

frumvörp, eins og t.d. frv. um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Þó að það hafi reyndar ekki borið árangur skiptir það ekki máli. Við höfum sýnt vilja til að koma til móts við hæstv. ríkisstjórn í þeim efnum. Við höfum hins vegar lýst okkur algerlega andstæða þeim breytingum sem verið er að gera á vörugjaldi og munu hafa í för með sér almenna verðhækkun á þeim vörum sem þar er um að ræða. Vörur sem allur almenningur notar en ekki hin breiðu bök sérstaklega. Og við höfum lýst andstöðu okkar við það frv. sem hér er til umræðu um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum.
    Þetta hefur kallað fram viðbrögð af hálfu ýmissa hæstv. ráðherra eða hv. þm. sem styðja þessa stjórn, síðast hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefáni Valgeirssyni, þar sem reynt er að stilla okkur upp við vegg og segja: Ef þið viljið ekki samþykkja þessi skattalagafrumvörp þá eruð þið að leggja til að fjárlagafrv. verði samþykkt með halla. Hverjar eru ykkar tillögur til sparnaðar eða hvaða aðra skatta viljið þið leggja á? Á þennan hátt er ekki hægt að stilla stjórnarandstöðu upp við vegg og ég skal segja það alveg hér og nú að við þingmenn Sjálfstfl. látum auðvitað ekki gera það. Þetta gefur tilefni til hugleiðinga um hver sé ábyrgð stjórnar og stjórnarandstöðu.
    Ríkisstjórn er mynduð til að stjórna landinu. Samkvæmt okkar stjórnarskrá er þingbundin stjórn, þ.e. við búum við svokallaða þingræðisreglu, en í henni felst það að Alþingi verður að styðja eða a.m.k. þola þá ríkisstjórn sem situr á hverjum tíma. En í hverju felst það að sitja í ríkisstjórn og að stjórna? Í því felst það að ríkisstjórnin og þeir flokkar sem hana styðja eiga að hafa forustu um lausn þeirra vandamála sem að steðja hverju sinni, eiga að vísa þjóðinni fram á veginn og marka stefnu um framtíðina. Lögum samkvæmt hefur ríkisstjórn ýmis úrræði sem framkvæmdarvaldshafi. Dæmi: Ríkisstjórn getur beitt sér fyrir að gengið sé lækkað án þess að þurfa að leita um það samþykkis löggjafans. En í öðrum tilfellum þarf ríkisstjórn að hafa frumkvæði að lagasetningu á Alþingi.
    Krafan um þingbundna stjórn á auðvitað rætur að rekja til þess að það er talið nauðsynlegt að ríkisstjórn hafi nægilegt afl á Alþingi til að koma sínum stefnumálum fram, til að koma þeirri löggjöf fram sem ríkisstjórn telur nauðsynlega til að stefna hennar komist í framkvæmd. Þetta er grundvallarregla í okkar stjórnarfari. Þessi ríkisstjórn er hins vegar ekki meirihlutastjórn í þeim skilningi sem ég hef hér lýst. Hún hefur ekki meiri hluta í annarri deildinni og þess vegna má segja að það sé blekking þegar því er haldið fram að þetta sé meirihlutastjórn og það er auðvitað spurning um hvort núv. hæstv. forsrh. með tilstyrk þeirra flokka sem skipa þessa ríkisstjórn hafi ekki blekkt forseta Íslands á sínum tíma þegar gengið var frá myndun þessarar stjórnar. Það er hins vegar annað mál.
    Upp á síðkastið hefur í hinni almennu umræðu, bæði hér á Alþingi og reyndar úti í þjóðfélaginu,

verið reynt að snúa þessu ábyrgðarhlutverki við. Áróður hefur verið settur í gang. Hæstv. fjmrh. er mjög ötull í þeim áróðri að afmarka ábyrgðina þannig að ríkisstjórnin, að framkvæmdarvaldið, beri ábyrgð á því að leggja mál fyrir Alþingi, leggja frumvörp fyrir Alþingi, en eftir það sé ábyrgðin Alþingis og þar beri stjórnarandstaðan ekkert minni ábyrgð á málum ríkisstjórnarinnar en ríkisstjórnin sjálf. Þessi túlkun og þessi áróður eru alröng. Það er hæstv. ríkisstjórn og þeir stjórnmálaflokkar og þeir þingmenn sem að henni standa sem bera fulla ábyrgð á málum sínum hér á hv. Alþingi, bera fulla ábyrgð á þeim lagafrumvörpum sem hún leggur fram og bera fulla ábyrgð á stefnu sinni í heild allt þar til mál hafa verið afgreidd. Og það er ekki hægt að stilla einum eða öðrum stjórnarandstöðuflokki upp við vegg og segja sem svo: Nú er ábyrgðin ykkar. Ef þið samþykkið ekki okkar frumvörp, ef þið takið ekki þátt í þeirri stefnumörkun sem við höfum mótað berið þið ábyrgðina. Þarna er gersamlega verið að snúa hlutunum við.
    Ábyrgð stjórnarandstöðu á þingi hverju sinni er auðvitað mikil. Stjórnarandstaðan á að veita ríkisstjórn aðhald. Hún á að gagnrýna. Og það er skylda stjórnarandstöðu --- ég segi skylda stjórnarandstöðu að snúast gegn þeim málum, greiða atkvæði gegn þeim frumvörpum sem stjórnarandstöðuflokkar geta ekki sætt sig við og eru andstætt boðaðri stefnu þeirra.
    Við skulum taka nánar dæmi um stöðuna eins og hún er á þinginu í dag.
Ríkisstjórnin leggur fram frv. til fjárlaga. Þar er gert ráð fyrir mjög mikilli aukningu ríkisútgjalda. Til að ná endum saman flytur ríkisstjórnin frumvörp um margvíslegar skattahækkanir, um auknar álögur á fólkið í landinu og einmitt eitt af þeim frumvörpum er verið að ræða í dag. Eins og ég hef áður lýst og við sjálfstæðismenn í þessum umræðum snúumst við gegn mörgum þessara skattafrumvarpa og munum greiða atkvæði gegn þeim. Sú afstaða er ekki ábyrgðarleysi heldur sýnir hún þvert á móti fulla ábyrgð gagnvart Alþingi, gagnvart þjóðinni og gagnvart þeim grundvallarlífsskoðunum sem stefna Sjálfstfl. hvílir á.
    En nú segja menn í áróðrinum eins og ég gat um áðan: Ef Sjálfstfl. vill ekki hækka skattana ber hann ábyrgð á halla fjárlaganna eða verður að koma með tillögur um niðurskurð á fjárlögum. Þessi fullyrðing er í grundvallaratriðum röng. Fjárlög hvíla á ákveðinni efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin hefur sjálf mótað. Þáttur í þeirri stefnu er aukin ríkisútgjöld, aukin ríkisafskipti. Sjálfstfl. eða aðrir stjórnarandstöðuflokkar hafa ekki verið kvaddir til við að móta þessa stefnu, hvorki í upphafi né að taka þátt í gerð þeirra fjárlaga sem hér eru nú til afgreiðslu. Það eru aukin ríkisafskipti sem er einkennisorð þessa fjárlagafrv. og þá grundvallarstefnu getum við ekki sætt okkur við. Það er alveg ljóst að sú krafa verður ekki gerð til Sjálfstfl. né annarra stjórnarandstöðuflokka að þeir fari að krukka í þetta fjárlagafrv. svo neinu nemi. Við munum vafalaust huga að því hvort ekki séu augljós atriði sem hægt sé að spara í ríkisútgjöldum og bera

fram um það tillögur t.d. við 3. umr. fjárlaga. En ég held að það sé ljóst að þessu fjárlagafrv. verður ekki breytt að neinu ráði, sem neinu máli skiptir nema með gerbreyttri efnahagsstefnu og til að ná samkomulagi um breytt fjárlagafrv. þarf ítarlegar og miklar viðræður stjórnar og stjórnarandstöðu og slíkum viðræðum mætti jafnvel líkja við stjórnarmyndunarviðræður.
    Við skulum taka dæmi um land þar sem oft tekst gott samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um fjárlagafrv. Það er Finnland. Það var í fréttum nú í haust að stjórn og stjórnarandstaða í Finnlandi hefðu náð samkomulagi um fjárlagafrv., um afgreiðslu þess, og jafnframt náð samkomulagi við launþegahreyfinguna um hvaða launastefnu skyldi reka á næsta ári. En að baki slíku samkomulagi liggur gífurleg vinna. Mér hafa sagt finnskir þingmenn og finnskir stjórnmálamenn að það sé orðin nokkuð föst regla í Finnlandi að síðla sumars, í ágústmánuði setjast stjórn og stjórnarandstaða niður og ræða grundvallarstefnu í efnahagsmálum og grundvallarstefnu í fjármálum ríkisins, oft með þeim árangri að samkomulag næst eins og þar gerðist núna í haust. En ég legg áherslu á: Slíkt gerist að undangengnum ítarlegum samningaviðræðum. Slíkt gerist ekki með því að ríkisstjórn leggi fram frv. á þinginu og segi: Gerið þið svo vel. Ef þið samþykkið ekki þetta frv. eruð þið ábyrgðarlausir. Það gerist með ítarlegum samningaviðræðum þar sem menn taka tillit til sjónarmiða og skoðana og stefnumála hvers annars. Þessi ríkisstjórn, sem vitað er að hefur ekki meiri hluta í Nd. Alþingis, hefur ekki haft neitt frumkvæði eða sýnt neinn vilja eða neinn áhuga á slíkum viðræðum og auðvitað er það ábyrgðarleysi. Það er ábyrgðarleysi í þessari stöðu að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki miklu fyrr hafa reynt að ná samstöðu um grundvallarstefnu í fjármálum og efnahagsmálum og sú stefna hefði litið allt öðruvísi út en sú stefna sem birtist í þessu fjárlagafrv. ef Sjálfstfl. hefði að einhverju leyti verið kvaddur þar til.
    Ríkisstjórnin arkar að auðnu um hver verða örlög þeirra frumvarpa sem hún hefur hér borið fram í skattamálum, þar á meðal frv. sem hér er nú til umræðu. Hún hefur ekki sýnt neinn vilja til samkomulags og við knýjum ekkert á um það. Ríkisstjórnin sjálf ber fulla ábyrgð á sínum málum, á sinni stjórnarstefnu og afgreiðslu mála í þinginu, en ég vek athygli á því að sennilega hefur engin ríkisstjórn notið þess í jafnríkum mæli og þessi ríkisstjórn hvað stjórnarandstaðan hefur þó viljað ganga til móts við þessa ríkisstjórn varðandi afgreiðslu fjárlaga nú. Ég vek athygli á því, sem ég talaði um áðan, að við höfum samþykkt að virðisaukaskattur taki ekki gildi á miðju ári eins og átti að vera og með því höfum við tekið þátt í 1200 millj. kr. skattgreiðslum sem ella hefði verið létt af almenningi á miðju næsta ári. Við höfum líka léð máls á því að framlengja skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði óbreyttan. Með þessu vil ég enn ítreka að ég man ekki dæmi þess að ríkisstjórn hafi notið jafnmikils velvilja stjórnarandstöðu að þessu leyti og sú ríkisstjórn sem

nú situr.
    Ég hef gert þetta nokkuð að umtalsefni í þessari umræðu til að sýna fram á hversu rangur og blekkjandi sá áróður er sem nú er haldið fram þar sem reynt er að varpa allri ábyrgð á stjórnarandstöðu um úrslit mála hér á Alþingi. Hæstv. ríkisstjórn ber auðvitað fulla ábyrgð á fjárlagafrv. Hæstv. ríkisstjórn ber fulla ábyrgð á þessum skattafrumvörpum. Stjórnarandstaðan hefur hvergi komið þar nálægt. Sjálfstfl. mun ekki styðja frv. sem hér er til umræðu. Sjálfstfl. mun greiða atkvæði gegn þessum meginskattafrumvörpum, þ.e. tekjuskatts- og eignarskattsfrv. og vörugjaldsfrv. Með því teljum við að við
séum að sýna fulla ábyrgð gagnvart þjóðinni, gagnvart Alþingi og gagnvart þeim grundvallarhugsjónum sem okkar stefna hvílir á. Ef frumvörpin falla hefur vilji Alþingis komið fram, þá ber það vott um að Alþingi vilji ekki þá auknu skattaánauð sem þessi frumvörp fela í sér og þá ber hæstv. ríkisstjórn að sveigja fjárlagafrv. og útgjöld þess undir þennan vilja Alþingis. Ef hún treystir sér ekki til þess hlýtur hún að segja af sér, fara frá eða teknar verða upp nýjar viðræður milli stjórnmálaflokka sem má þá jafna til stjórnarmyndunarviðræðna.
    Við sjálfstæðismenn lýstum því yfir um fyrri frumvörpin sum sem voru hér til umræðu að það væri eindregin krafa okkar að áður en 2. umr. fjárlaga færi fram yrði búið að leggja fram öll skattafrumvörp hæstv. ríkisstjórnar þannig að við hefðum heildarmynd af því hverjar væru tillögur hæstv. ríkisstjórnar í skattheimtu. Hæstv. fjmrh. hefur orðið við því og nú liggja fyrir áður en 2. umr. fjárlaga fer fram þau frumvörp sem um er að ræða. En við gerðum líka aðra kröfu, sjálfstæðismenn, og við hana munum við standa. Við munum undir engum kringumstæðum una því að 3. umr. fjárlaga fari fram eða fjárlögin verði afgreidd fyrr en búið er að afgreiða þau skattafrumvörp öll sem hér liggja fyrir. Það verður að liggja fyrir áður en Alþingi samþykkir tekjuhlið fjárlaga í 3. umr. hvernig skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar reiðir af. Við munum ekki una öðru, sjálfstæðismenn, í þinginu.
    Herra forseti. Mig langaði að eiga nokkurn orðastað við hæstv. menntmrh., en hann er væntanlega enn þá bundinn í atkvæðagreiðslu. ( Forseti: Það verður nú gengið úr skugga um það.) Það gefst þá væntanlega kostur á því síðar að ræða við hann. En ég ætla að vekja athygli á einu máli sem ég tel að hæstv. menntmrh. verði að svara og vafalaust eiga fleiri eftir að koma upp í ræðustól sem munu þá inna hann eftir svörum við þeim fyrirspurnum sem ég vildi til hans beina.
    Ég vek athygli á því, sem reyndar hefur verið gert áður í þessari umræðu, að 2. gr. þessa frv. til l. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt er mjög sakleysisleg. 2. gr. hljóðar svo: ,,3. mgr. 1. tölul. 31. gr. fellur niður.``
    Hvað þýðir þetta? Við skulum skoða það. Það gerum við best með því að sjá hvernig 3. mgr. 1.

tölul. 31. gr. núverandi laga orðast. Hann orðast svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Frá tekjum má enn fremur draga einstakar gjafir til menningarmála, vísindalegra rannsóknastarfa, viðurkenndrar líknarstarfsemi og kirkjufélaga, þó ekki yfir 0,5% af aðstöðugjaldsstofni gefanda á því ári þegar gjöf er afhent, sbr. 37. gr. laga nr. 73/1980. Með aðstöðugjaldsstofni í þessu sambandi er átt við stofninn eins og hann er áður en verðmæti gjafarinnar er bætt við hann. Fjmrh. ákveður með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þessa grein.``
    M.ö.o.: það er verið að fella úr skattalögum þau heimildarákvæði sem veita fyrirtækjum heimild til að draga frá tekjum sínum áður en skattur var á þær lagður gjafir til menningarmála, til vísindalegra rannsóknastarfa, viðurkenndrar líknarstarfsemi og kirkjufélaga. Hvers vegna var þetta ákvæði sett inn í skattalög? Ástæðan var sú, sem liggur í augum uppi og þarf ekki að hafa mörg orð um, að með þessu ákvæði var verið að örva fyrirtæki í landinu til að láta fjármagn af hendi rakna til þjóðþrifastarfs af þessu tagi, menningarmála, líknarmála, vísindamála o.s.frv. Þetta er ekkert mjög gamalt ákvæði í íslenskum skattalögum, en sem betur fer þó orðið svo gamalt að fyrirtækin voru farin að átta sig á því að í þessu var hvati, í þessu var örvun og mörg íslensk fyrirtæki hafa látið verulegt fjármagn af hendi rakna til menningarmála, svo ég taki þau sérstaklega, einmitt í skjóli þessa ákvæðis.
    Ég tek sem dæmi að á síðustu listahátíð, sem haldin var hér á sl. vori, var það ráð tekið vegna þess að Alþingi skammtar naumt til listahátíðar og borgarsjóður reyndar líka --- það eru helmingsskipti á kostnaði milli þessara opinberu stofnana --- að fá fyrirtæki til að kosta, bera ábyrgð á ákveðnum hluta kostnaðar við vissa menningarviðburði. Ég ætla ekkert að nefna þau fyrirtæki hér, en það var eitt fyrirtæki sem tók að sér að kosta verulegan hluta af Chagall-sýningunni sem haldin var í Listasafni Íslands. Sennilega hefði þessi sýning aldrei komið til Íslands, þessi merka málverkasýning, ef þetta ákveðna fyrirtæki hefði ekki hlaupið þarna undir bagga og borgað verulegan hluta af kostnaði við að flytja þessi dýrindis málverk hingað heim til Íslands, borgað tryggingar og fleira þannig að hægt væri að sýna þau hér.
    Einhverjir stórkostlegustu tónleikar sem haldnir hafa verið í mörg ár á Íslandi voru tónleikarnir þegar Penderevsky kom og stjórnaði sinfóníuhljómsveit og kór og flutti sína pólsku sálumessu. Verulegur hluti af kostnaði við þessa tónleika var greiddur af ákveðnu fyrirtæki í skjóli þessa ákvæðis.
    Þannig get ég talið upp mörg dæmi af þessu tagi í sambandi við listahátíðina eina og nú vill Alþb. afnema þetta. Nú ætlar Alþb. að kippa fótunum undan þessum þætti okkar menningarstarfsemi. Þetta er með slíkum
ólíkindum. Það fólk sem má vart vatni halda þegar menningarmál koma til umræðu úti í þjóðfélaginu og það vantar ekki áhugann þegar verið er að flytja

hátíðarræðurnar eða þegar verið er að skrifa blaðagreinar. En hvar er þessi áhugi í reynd? Með þessu ákvæði er verið að kippa fótunum undan stórum hluta af þeirri menningarstarfsemi sem haldið hefur verið uppi á Íslandi undanfarin fá ár. Ég skora á hæstv. fjmrh. Ég sé að hæstv. forseti Sþ. er hér aftar í salnum og hefur áhuga á menningarmálum, sannarlega áhuga, það veit ég. Það er ekki bara á tyllidögum eins og ýmsir aðrir. Ég skora á hæstv. forseta Sþ. að taka þetta mál upp í sínum þingflokki og fá sína flokksbræður til að hætta við að afnema þetta ákvæði. Ég er sannfærður um að ef þetta verður afnumið verður íslenskt menningarlíf fátækara eftir en áður.
    Það er nefnilega svo að einmitt þessi aðferð er farin að ryðja sér mjög til rúms úti í hinum stóra heimi sem hæstv. fjmrh. talar oft um, bæði hjá vinstri stjórnum og hjá hægri stjórnum, að örva menningarlíf með þessum hætti. Þetta gera ríkisstjórnir bæði í krata-Skandinavíunni, í Thatcher-Bretlandi, ég tala nú ekki um hjá Mitterand í Frakklandi. Þetta er á ensku það sem menn kalla ,,sponsorship`` á ákveðnum menningarviðburðum eða ákveðnum menningarathöfnum. Menn hafa verið að reyna að þýða þetta og kalla þetta kostun á íslensku. Ég var t.d. á fundi menningarmálaráðherra Evrópuráðsins fyrir rúmu ári, sem haldinn var í Portúgal, þar sem aðalumræðuefni fundarins var einmitt hvernig ríkisstjórnir viðkomandi landa gætu örvað menningarlífið með því að auka heimildir fyrirtækja til að draga framlög til menningarmála frá skatti. Nú á bara að strika yfir þetta allt með einu pennastriki hjá hæstv. fjmrh. Ég vil skora á og ítreka, og ekki bara Alþb. heldur á alla þá þingmenn sem standa að baki þessari ríkisstjórn, að viðurkenna að hér sé um mistök að ræða og draga nú þessa tillögu til baka og ég vonast svo sannarlega til að það verði gert í fjh.- og viðskn. þar sem þetta mál kemst væntanlega til umræðu.
    Ég vildi reyndar spyrja hæstv. menntmrh. um hver væri hans skoðun á þessu, hver væri hans þáttur í þessu, hvort hann hefði átt frumkvæði að þessari tillögu. Vafalaust fær hann tækifæri til að svara þeirri spurningu þótt síðar verði í þessari umræðu og henni verður örugglega komið til skila til hans.