Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég ætla nú að leyfa mér að kalla það efnahagsstefnu, það sem maður hefur séð í því sem fram hefur komið um fjárlagafrv. og þau frumvörp sem hér eru til umræðu, þar á meðal þetta um tekjuskatt og eignarskatt. Ég ætla að leyfa mér að kalla þetta efnahagsstefnu sýndarmennskunnar, þar sem verið er að áætla tekjur í þykjustunni inn í ríkiskassann sem flestum mönnum, sem eitthvað hugsa, ætti að vera fullkomlega ljóst að koma aldrei í kassann, eins og við erum að verða vitni að núna síðast á þessu ári. Í hvert skipti sem hæstv. fjmrh. opnar munninn í sambandi við útkomu ríkisins á núverandi ári, þá hækkar gatið um 1 milljarð. Í hvert skipti. Síðasta talan sem heyrst hefur í þeim efnum er 7 milljarðar. Hún var í september 600 milljónir. Fyrr má nú rota en dauðrota á svo stuttum tíma. Þetta þykja mér ekki snyrtilegar efnahagsáætlanir á tölvuöld, svona hrikalegt gat.
    Hæstv. ríkisstjórn var stofnuð til þess að gera einhver ósköp sem síðasta ríkisstjórn gat ekki gert. Sú ríkisstjórn var víst aðallega ómöguleg vegna þátttöku sjálfstæðismanna og verkstjórinn var ómögulegur. En nú leggur hér nýr yfirverkstjóri sýndarmennskunnar fram hvert frumvarpið um tekjuöflun á fætur öðru sem er alveg vonlaust að nokkurn tíma náist í kassann. Þetta virðast vera einu ráðin sem þessir menn hafa, þ.e. að hækka skatta. Á öðrum sviðum stjórnunar ríkir algjört ráðaleysi og getuleysi. En menn eru nokkuð duglegir að breiða yfir þetta ráðaleysi og getuleysi með þessum sýndarmennskuleik í fjölmiðlum landsins á hverjum einasta degi. Hækka skatta. Senda bara fógetann á peningalaus fyrirtæki og ná þessu einhvern veginn.
    Ég held að það sé öllum ljóst sem eitthvað geta hugsað og vilja hugsa að þessi stefna þýðir bara skert lífskjör í landinu, stórkostlega skert lífskjör. Að skrá gengi krónunnar kolvitlaust með annarri hendinni og fara þannig ránshendi um eigið fé undirstöðufyrirtækja landsmanna, útflutningsfyrirtækjanna, sú athöfn er bæði brot á lögum, eins og ég hef áður sagt hér, og stjórnarskrá lýðveldisins. Bjóða svo þessum sömu fyrirtækjum lán úr Atvinnutryggingarsjóði á röngu gengi. M.ö.o.: Að rupla af fyrirtækjunum ránsfé með annarri hendinni og þeim er boðið lánsfé með hinni hendinni í staðinn og það lánsfé á kolvitlausu gengi, sem þýðir að það skellur eins og snara um hálsinn á þessum fyrirtækjum, ef þannig mætti komast að orði, þegar loksins verður að viðurkenna það að gengið er rangt skráð.
    Varðandi þetta frv. um tekjuskatt og eignarskatt, sem hér er til umræðu, vil ég segja það um tekjuskattinn almennt að ekki verður nú auðveldara fyrir þessi fyrirtæki í sjávarútvegi, sem alltaf er verið að tala um að sé verið að leysa vandann hjá, að fá fólk í vinnu þegar um er að ræða yfirvinnu eftir að búið er að hækka tekjuskattinn. Það er því ekkert verið að gera þar nema auka vandann.
    Það var nokkuð merkilegt að hlusta hér á hæstv. fjmrh. áðan þar sem hann sagði að einungis 1 / 3

fyrirtækja á Íslandi greiddi tekjuskatt. Og málflutningurinn var með þeim hætti að þessi 2 / 3 sem eftir væru greiddu engan tekjuskatt en þau ættu að gera það. Svo maður tali nú hreint út þá er verið að gefa það í skyn að 2 / 3 fyrirtækja á Íslandi stundi skattsvik. Ætli það væri ekki nær að reyna að líta á þessar upplýsingar sem staðreyndir um afkomu fyrirtækjanna. Það borgar ekkert fyrirtæki tekjuskatt nema það skili hagnaði. Og ef það hefur verið tap árið áður þá er það dregið frá áður en tekjuskattur verður greiddur og það hefur nú oft gengið á ýmsu í gegnum árin. Þar af leiðandi held ég að þetta teljist ekkert óeðlilegt.
    Það á líka að herða reglur um hlunnindi og fyrningar, t.d. vegna rekstrarkostnaðar fólksbifreiða. En hvað ætlar hæstv. fjmrh. að gera í sambandi við ráðherrabifreiðar? Á að fara að mismuna í þessum efnum hvort menn eru í stjórnunarstarfi, ráðherrar eða framkvæmdastjórar? Og hvers vegna þá? Af hverju eru ekki settar þá einhverjar almennar reglur um fríðindi í störfum hvort sem þau eru hjá hinu opinbera eða hjá hlutafélögum eða samvinnufélögum? Skiptir það einhverju máli hvað það heitir? Eða bara einkafyrirtæki. Það stendur hér að tekjuskattar félaga séu taldir geta skilað um 2700 millj. kr. Hræddur er ég um að þarna sé sýnd veiði en ekki gefin.
    Almennar fyrningar, aðrar en af fasteignum, þær eiga að lækka. Einmitt núna á þeim tíma sem við stöndum í harðri samkeppni við erlend fyrirtæki og tækni tekur sífellt hraðari breytingum, þá úreldast einmitt tæki og vélar miklu hraðar en áður. T.d. getur dýptarmælir í skip verið ónýtur á einu ári þannig að hann ætti bara að gjaldfærast beint ef menn vilja hugsa þetta rökrétt. Varðandi vélar og tæki til iðnaðar þá eru framfarirnar svo örar að afskriftir á þessum tækjum eru mjög háar í raunveruleikanum. Það er lítið gagn að því fyrir fyrirtæki að eiga í efnahagsreikningi einhverja eign, einhverja vél sem stendur ryðguð úti í porti vegna þess að hún er úrelt og ónýt. Það er mikil heimska sem kemur fram í þessum hugmyndum.
    En mig langar til þess að spyrja hæstv. fjmrh. a.m.k. tveggja spurninga ef hann er einhvers staðar hér nálægur. Er hægt að fá hann í salinn? ( Forseti: Það er verið að svipast um eftir hæstv. ráðherra. Hann birtist væntanlega
fljótlega.) Ég ætlaði að spyrja hæstv. fjmrh. spurninga um ákveðið grundvallaratriði. Í fyrsta lagi: Ef ráðherrann fengi nú að erfðum frá einhverri frænku sinni sjoppu að verðmæti 12 millj. kr., hvað tæki það mörg ár fyrir hann að tapa sjoppunni samkvæmt nýjustu viðmiðunum um eignarskatt? Og í öðru lagi: Ef hann mundi nú erfa líka einbýlishús, hvað tæki það mörg ár að ríkið eignaðist húsið eða tæki andvirði hússins til sín? Og jafnframt: Telur hæstv. fjmrh. að þetta samrýmist 67. gr. stjórnarskrárinnar, um friðhelgi eignarréttarins, að gera eigurnar upptækar með þessum hætti? En 67. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji.

Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.``
    Þá vantar mig í öðru lagi svar vegna gengisskráningarinnar. Telur hæstv. fjmrh. að ríkisstjórnin hafi heimild til þess að skrá gengið einhvern veginn eins og henni sýnist af því bara, út í loftið? Telur hæstv. fjmrh. að ekkert sé að marka þau lög um gengisskráningu, sem kveða á um það að gengi krónunnar skuli skráð þannig að afkoma útflutningsfyrirtækja landsmanna skuli tryggð og að jafnvægi skuli vera í viðskiptum við útlönd? Fyrir svo utan áðurnefnda 67. gr. stjórnarskrárinnar. Hafa stjórnvöld á Íslandi raunverulega leyfi til þess að beita slíkri valdníðslu sem hér er á ferðinni? Því að rýrnandi eiginfjárstaða flestra fyrirtækja á Íslandi um þessar mundir, þó sérstaklega útflutningsfyrirtækja, leiðir óhjákvæmilega til skertra lífskjara í landinu vegna þess að samkeppnishæfni þessara fyrirtækja minnkar og geta þeirra til að greiða sómasamleg laun versnar sífellt.
    Ég get ekki séð annað en verið sé að boða gjaldþrot fjölda fyrirtækja með þessu ofsköttunarbrjálæði sem lagt er fyrir þingið. Hærri tekjuskattur, nýtt og hærra vörugjald og hærri skattur eru lögð á fasteignir þegar fyrirtækin berjast í bökkum og hafa alls enga peninga til þess að borga með. Ef hægt er að neyða þessa peninga út úr fyrirtækjunum með fógetavaldi verður bara minna eftir til að borga í laun. Mér er spurn hvort senda eigi fógetann á atvinnufyrirtæki landsmanna í nafni jafnréttis og félagshyggju? Það er nú nokkuð merkilegt. Neyða út úr þessum fyrirtækjum peninga sem þau hafa alls ekki undir höndum. Óhjákvæmilega bitnar svona stjórnarstefna á launþegum þessara fyrirtækja. Þegar búið er að koma öllu á hausinn viljandi eða óviljandi á þá að þjóðnýta allt klabbið? Það er síðasta spurningin.
    Ég verð að leyfa mér að mótmæla þessum skattahugmyndum. Ég tel íslenskt atvinnulíf alls ekki undir það búið að borga hærri skatta þegar eins illt er í ári og nú. Mér finnst allar þessar skattahugmyndir jaðra við hálfgert skattabrjálæði. Það er eins og engin hugsun komist að nema að hækka skatta og hækka skatta. Það er hægt að gera ýmislegt annað. Mönnum er borið það á brýn að engin ráð séu til. Það er ekki hlutverk stjórnarandstöðunnar að hysja buxurnar upp um stjórnina þegar hún er búin að gera svo rækilega í þær að allt sitji fast.
    Ástæðan fyrir því hvernig farið hefur í efnahagsmálum undanfarin ár er m.a. sú að ríkissjóður Íslands er alltaf að framkvæma of mikið, því miður. Spurningin sem ég spyr sjálfan mig þessa dagana er: Á Ísland allt of góða stjórnmálamenn, stjórnmálamenn sem eru svo góðhjartaðir að þeir vilji úthluta þegnunum miklu meira en raunverulega er til skiptanna? Það er til takmarkað fjármagn og fólk í þessu landi. Þegar ríkissjóður spennir bogann of langt og ætlar atvinnufyrirtækjunum að bítast um restina getur aldrei farið vel. Ég held menn ættu að hugsa þetta í einhverju öðru ljósi en þessu skattabrjálæði og reyna að fara að skilja um hvað íslenskt atvinnulíf

snýst.