Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég hélt satt að segja að þessum umræðum væri u.þ.b. að ljúka þegar hæstv. fjmrh. hélt aðra miklu lengri ræðu í lokin en ég gerði ráð fyrir og sem gaf tilefni til þess að menn báðu um orðið á ný. Það minnti mig á sögu sem ég heyrði alveg nýlega. Það getur vel verið að hæstv. fjmrh. vilji gjarnan heyra hana. En sagan er þannig að hér á landi var erlendur maður, bissnessmaður svokallaður, á einu hótelanna og beið eftir íslenskum kunningja sínum og horfði á sjónvarp á meðan. ( Gripið fram í: Búinn að heyra hana oft þessa.) Búinn að heyra hana oft, en það er gott að fá hana skráða því að hún á vel við. Maðurinn skipti um stöðvar, þ.e. Stöð 1 og Stöð 2, og sá alltaf sama manninn og spurði hvort hér væri engin samkeppni á milli sjónvarpsstöðva. ,,Jú, jú, hér er mjög mikil samkeppni á milli stöðvanna,,, var þá svarað. En þá spyr hann: ,,Hvers vegna nota þeir þá sama þulinn?``, vegna þess að sami maðurinn var alltaf á báðum stöðvum. Þessi maður var hæstv. fjmrh. Hann talar og talar og það er út af fyrir sig ágætt.
    Ég hjó eftir því að hæstv. fjmrh. gat þess áðan að hann hefði hugsað sér að kynna aukafjárveitingarnar fyrir fjvn. Ég saknaði nefnilega aukafjárveitinganna þegar fjárlögin voru lögð fram og eins hvernig þær voru kynntar sem ein upphæð fyrir hvert ráðuneyti. Þegar ég var fjmrh. lagði ég fram frv., sem varð að lögum, þar sem lögð voru fram, eins og fjmrh. ber, fjárlög, lánsfjárlög og aukafjárveitingar sundurliðaðar og áætlun fjárlaga þrjú ár fram í tímann. Ekkert af þessu hefur verið gert nema þá að fjárlögin sjálf hafa verið lögð fram og að vísu ósundurliðuð aukafjárlög og lánsfjárlög, sem ég held að ég megi segja að verði ekki samþykkt um leið og fjárlögin eins og lög gera ráð fyrir. Það bendir að sjálfsögðu til þess að hvorki er samkomulag um tekjuhlið fjárlaga, sem við höfum verið að ræða í dag, né heldur gjaldahliðina. En ég vil benda á, sem ég hef áður gert, að það er ekki nema eðlilegt að eitthvað fari úr skorðum.
    Ég benti á það á iðnaðarnefndarfundi í morgun að slík væri ringulreiðin í stjórnun á þessu blessaða landi að það hefðu sex iðnaðarráðherrar farið með stjórn á síðustu fimm árum og hver með sína stefnu. Gott ef þeir eru ekki a.m.k. þrír til fimm, ég hef að vísu ekki talið það, en alla vega hafa fimm menn gegnt stöðu fjmrh. Á þeim tíma sem ég var fjmrh. var stefnan sú að leggja niður tekjuskattinn með öllu og við skárum niður 600 millj. kr. af 2400 millj. kr. sem þá átti að innheimta. Nú er stefnan að auka skattheimtuna á öllum sviðum.
    Ég ætla ekki að hefja þessar umræður á ný. Við þingmenn Borgfl. höfum verið nokkuð hóflegir í dag, lítið tekið til máls og lítið tafið tímann en hlustað þeim mun meira. Við ættum því að skilja betur en margur annar ástæðuna fyrir þeim gríðarlegu sköttum sem nú er ætlað að leggja á þjóðina. Ég verð þó að segja alveg eins og er að það sem mér er efst í huga er að biðja hæstv. fjmrh. að vera ekki svona vondur við fólkið. Biðja hann að athuga hvort ekki sé hægt að minnka eitthvað þessa skattheimtu með því að

draga í land með útgjöldin vegna þess að ég held að forsendur fjárlaganna með þessari gríðarlegu hækkun á útgjaldahlið séu rangar. Þegar fjárlög sem eru í bígerð og samin með ákveðinni verðbólguforsendu en breytast ekkert í niðurstöðum þó verðbólgan fari niður í núll, eins og hún er sögð vera núna, hlýtur það alla vega að benda til þess að svo sé. Vextirnir hafa lækkað en þrátt fyrir það er reiknað með ákveðnum vaxta- og fjármagnskostnaði í fjárlögunum. Með því að endurskoða forsendur fjárlaga trúi ég að útgjaldahliðin geti lækkað og þar með skattar. Ég bið hæstv. fjmrh., af því að ég veit að það er áhugamál fjmrh. yfirleitt, að vinna þannig að skattarnir þurfi ekki að vera hærri en nauðsyn krefur.
    Öll vinnubrögð eru svo framandi í sambandi við fjárlagagerðina, framlagninguna og bæði útgjalda- og tekjuhliðina. Hvernig þetta er rætt á göngum Alþingis og hvernig það er rætt í sölum Alþingis er allt svo framandi miðað við það sem hefur verið unnið í þau 14 ár sem ég hef verið hér. Það er einnig alveg ljóst að vinnubrögðin við gerð fjárlaga í meðferð ríkisstjórnarinnar hafa ekki verið hefðbundin. Það gefur tilefni til að ætla að ekki sé samstaða í ríkisstjórninni því venjulega er bæði samstaða í ríkisstjórn og í þingflokkunum. Ef þessi samstaða væri fyrir hendi værum við nú að ræða fjárlög og lánsfjárlög í afgreiðslu á lokastigi. Að sjálfsögðu verður að taka til greina að fjmrh. hefur haft tiltölulega lítinn tíma miðað við aðra fjmrh. til þess að undirbúa þetta mikla mál, því þetta er nú eitt af stærstu málum sem þingið afgreiðir árlega.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Úr því að fjmrh. lét þess getið úr ræðustól áðan að hann mundi kynna aukafjárveitingarnar fyrir fjvn. óska ég eftir því, hæstv. fjmrh., að farið verði að þeim lögum sem eru í gildi og þessi listi lagður fyrir Alþingi. Ég gerði það og að sjálfsögðu tók það þó nokkra umræðu á þeim tíma. Ég lá undir vissri ádeilu frá ýmsum fyrir ýmsar aukafjárveitingar sem ég afgreiddi, en að sjálfsögðu afgreiðir ekki fjmrh. aukafjárveitingar nema hann telji það rétt og hann fer eftir samvisku sinni hverju sinni. Ég lá þá undir ádeilu fyrir ýmislegt. Sérstaklega er mér minnisstætt framlag til kvennasamtaka hér á Vesturgötu 3. Ég vildi gjarnan að fjmrh. kynnti þennan lista fyrir Alþingi eins og á að gera en ekki aðeins fyrir fjvn.