Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Sighvatur Björgvinsson:
    Herra forseti. Aðeins út af því sem kom hér fram hjá hv. 5. þm. Reykv., þá ætla ég að vekja athygli á því að á bls. 387 til og með bls. 391 í fjárlagafrv. eru birtar útgefnar fjárheimildir frá 1. jan. til 30. sept. 1988, þ.e. sundurliðaðar allar aukafjárveitingar á þeim tíma, hver og ein niðurgreind á viðfangsefni og ráðuneyti og tilgreind upphæðin þannig að það er einhver misskilningur hjá hv. þm. ef hann heldur að þessar upplýsingar komi ekki fram í frv. Honum hefur þá skotist yfir að kynna sér þær í því frv. sem dreift var til okkar allra þegar fjárlagafrv. var lagt fram af hæstv. ríkisstjórn. Hér eru allar þessar upplýsingar sem hv. þm. bað um.
    Því til viðbótar vil ég taka fram að 15. nóv. sl. að mig minnir fremur en þann 14. upplýsti fjmrh. fjárveitinganefndarmenn um allar þær aukafjárveitingar sem höfðu verið veittar frá 30. sept. 1988 og til þess tíma. Allir þingflokkar eiga fulltrúa í fjvn. og þannig gafst öllum þingflokkum kostur á að kynna sér lista þann yfir aukafjárveitingar sem hæstv. ráðherra gaf upplýsingar um þá. Ég vil hins vegar hvetja hv. þm. til þess að kynna sér þær upplýsingar sem fram koma í prentuðum þingskjölum hér á hinu háa Alþingi.