Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að ég bað um, og ég endurtek það í þriðja sinn, að fá fyrir þingmenn alla þann lista yfir aukafjárveitingar sem hæstv. ráðherra tilkynnti að hann ætlaði að kynna fyrir fjvn. og það hlýtur að vera eitthvað til viðbótar við það sem var í bókinni. Öðruvísi var óþarfi fyrir hann að tilkynna um einhvern lista yfir aukafjárveitingar.
    Það er hins vegar út af fyrir sig ágætt að taka fram hér frv. til fjárlaga fyrir 1986. Þar kemur nefnilega fram að þrátt fyrir að ekki eru liðin nema tvö, við skulum segja þrjú ár --- á þessum tíma voru lagðar niður 600 millj. af 2400 millj. tekjuskatti og endurgreiddar hátt á fimmta hundrað kr., sem urðu fyrir rest um 600 millj., á uppsöfnuðum söluskatti af sjávarútveginum, og þrátt fyrir það er í þessari bók 123 millj. kr. tekjuafgangur á fjárlögum, svo að ég þakka kærlega virðulegum formanni fjvn. fyrir að gefa mér tækifæri til að benda á þessa staðreynd sem hann flutti hingað inn í þessar umræður því að það eru ekki nema þrjú ár síðan endurgreiðsla upp á 1200 millj. kr. samtals, af tekjuskatti helmingurinn og hinn helmingurinn í endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti fyrir sjávarútveginn, var veitt, en það var samt sem áður tekjuafgangur. Hvað hefur skeð síðan?