Lánstraust Íslands erlendis
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Það vakti óneitanlega verulega athygli fyrir nokkrum vikum þegar hæstv. forsrh. Íslands lýsti því yfir á fundi hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna að hann hikaði ekki við að segja að Íslendingar stæðu nær þjóðargjaldþroti en líklega nokkru sinni fyrr. Nú er það þannig að víðast hvar með menningarþjóðum þar sem menn taka mark á sínum þjóðarleiðtogum hefði yfirlýsing sem þessi eflaust vakið margar spurningar og haft veruleg áhrif bæði innan þess ríkis og út á við. Við Íslendingar eigum mikið undir því að álit okkar gagnvart öðrum þjóðum, ekki síst þeim sem hafa lánað okkur fé, rýrist ekki, allra síst að ástæðulausu og með yfirlýsingum sem ekki eiga rétt á sér.
    Þegar þessi fsp. var samin hafði ég nokkrar áhyggjur af því eins og margir aðrir að með þessari yfirlýsingu sinni um yfirvofandi þjóðargjaldþrot gæti forsrh. rýrt það góða lánstraust sem Ísland hefur notið út á við og sem unnið hefur verið að hörðum höndum á undanförnum árum að byggja og sem t.d. hæstv. núv. viðskrh. hefur sjálfur átt ríkan þátt í að vinna að. Þess vegna hef ég leyft mér að beina þeirri spurningu til hans á því þskj. sem hér er til umræðu hvort hann hyggist láta kanna hver áhrif nefndrar yfirlýsingar forsrh. hafi á lánstraust Íslands erlendis og í öðru lagi hvort hann sé samþykkur þeirri yfirlýsingu að Íslendingar standi nær þjóðargjaldþroti en líklega nokkru sinni fyrr.