Lánstraust Íslands erlendis
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Það er ótrúlegt að svo glöggur maður sem hv. 17. þm. Reykv. Geir Haarde, sem eins og deildinni er kunnugt er einn mesti heili sjálfstæðismanna hér í hv. deild, tvímælalaust, skuli misskilja ummæli hæstv. forsrh. svo herfilega sem mér virtist hann gera því ég vil ekki gera honum að hann hafi verið að snúa út úr ummælum hæstv. forsrh. Það sem forsrh. sagði var að hann teldi að Íslendingar stæðu nær þjóðargjaldþroti en þeir hefðu gert fyrr. Það var alls ekki í orðum forsrh. að hann teldi að Íslendingar væru að sigla í þjóðargjaldþrot. Það var alls ekki að hann teldi að þjóðin væri að verða gjaldþrota heldur sagði hann að við stæðum nær þjóðargjaldþroti fyrr. Það er enga aðra merkingu hægt að leggja í það en þá að efnahagsástand sé ískyggilegra núna en það hefur verið áður, þ.e. við þurfum að bera sama ástandið núna og ástandið 1967--1968, kannski seilast aftur í kreppuna. Nú er þetta ástand að sumu leyti sambærilegt en að öðru leyti ekki. Við lifum við talsvert mikið aðrar kringumstæður en við lifðum 1967 og 1968. Við höfum ekki sömu auðlindir að ausa af og þá. Að sumu leyti höfum við betri aðstöðu. Við höfum betri framleiðslutæki. En við höfum ekki sömu auðlindir sem við höfðum þá til að vinna okkur út úr vandræðum.