Skýrsla OECD um efnahagsástandið á Íslandi
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil gera skýran mun á því sem hér er til umræðu í dag, þ.e. hvert sé almennt gildi og hvernig staðið er að gerð skýrslna OECD og þátttöku Íslendinga í því starfi annars vegar, og hins vegar hvort menn eru samþykkir því áliti sem fram kemur í einni tiltekinni skýrslu sem OECD hefur samið. Þarna er verið að tala um tvo óskylda hluti. Hér er ekki til umræðu í dag sérstaklega það álit sem OECD lét í ljós í nýlegri skýrslu sinni. Ég hef svarað þeim fyrirspurnum sem hv. 17. þm. Reykv. beindi til mín um hið almenna mál og við það álit stend ég.
    Um hitt má jafnan ræða, og það er rétt sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að efni þeirrar skýrslu sem upphaflega varð tilefni þessarar umræðu var nokkuð úrelt orðið, enda urðu breytingarnar á stöðunni í íslenskum efnahagsmálum --- eða á matinu á henni --- mjög snögglega, og slíkt efni úreltist fljótt eins og hv. 17. þm. Reykv. sagði réttilega áðan. Ég get tekið undir það að í þeirri skýrslu sem OECD birti í haust var einkum byggt á efni sem fram hafði komið í vor eða snemma á þessu sumri sem nýlega er liðið. Það er annað mál. Um það ætla ég hér ekki að fjalla á örfáum mínútum.