Skýrsla OECD um efnahagsástandið á Íslandi
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Þessi umræða er orðin allathyglisverð. Hæstv. fjmrh. byrjar á því að gefa til kynna að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að koma Íslandi hærra en í 10. sæti á lista yfir mestu skattheimtuþjóðir veraldarinnar og það sé hans hugsjón. Síðan hefur hæstv. viðskrh. afneitað hæstv. forsrh. og hæstv. forsrh. hefur komið og sagt að alþjóðastofnun sem hæstv. viðskrh. er í forsvari fyrir ætti fremur að hlýða á mál þingmanna Sjálfstfl. um efnahagsmál. Í því felst afneitun á efnahagsstefnu hæstv. fjmrh. sem neitar að taka tillit til þeirra viðhorfa. Hann hefur forustu og verkstjórn nú orðið um efnahagsmálin, neitar að taka tillit til þeirra viðhorfa og neitar frekari efnahagsaðgerðum í þágu atvinnulífsins. Þeir hafa því afneitað hverjir öðrum í þrígang, hæstv. ráðherrar. Það er niðurstaða þessarar umræðu.