Vestmannaeyjaferja
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svar hans og fagna því að mönnum hefur miðað í málinu og hafa komist að þeirri niðurstöðu að leit að eldri skipum er dýr leit og þær eru óhentugar margar þær ferjur sem í boði eru. Mér fannst því, og hann lýsti því yfir ráðherrann, að nú væri komið að því stigi sem mikilvægast er, þ.e. að bjóða út og hefja smíði á nýrri ferju. Ég hygg að það þurfi ekki að taka mörg ár að smíða nýtt skip. Við gætum í lok þessa kjörtímabils séð nýja ferju á þessari leið. Ég held að það væri ákaflega mikilvægt og mér sýnist, miðað við svör ráðherrans, að það ætti að geta gengið eftir.