Vestmannaeyjaferja
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Eggert Haukdal:
    Frú forseti. Þegar frv. að lánsfjárlögum lá fyrir síðasta þingi var búið að taka ákvörðun um að byggja nýjan Herjólf og þáverandi ríkisstjórn var sammála um það. Hefði það gengið fram óbreytt væri málið langt komið og stutt í að nýtt skip kæmi. Það var hins vegar brtt. frá öðrum fulltrúa Framsfl. í fjh.- og viðskn. svo og fulltrúa Alþfl. sem gerbreytti málinu og setti þessar tafir á. Því miður voru þær samþykktar, og þetta er vert að undirstrika. Þess er að vænta að þær tafir standi nú ekki öllu lengur, þær eru þegar búnar að gera nóg af sér.