Lækkun vaxta á spariskírteinum
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Fyrirspurnin hljóðar svo: ,,Hvenær verður næsta skref tekið til lækkunar vaxta á spariskírteinum ríkissjóðs?``
    Það er spurt að þessu vegna þess að hæstv. ríkisstjórn lýsti því yfir þegar hún tók við völdum að hún mundi stefna að 3% lækkun raunvaxta. Það hefur verið tekið örlítið skref í þá áttina en síðan ekkert heyrst meira af því máli. Þó var, þegar talað var um afkomureikninga hjá sjávarútveginum, gert ráð fyrir því að þessi 3% yrðu tekin tiltölulega snemma og þannig fengu menn þetta fræga núll út úr sínum útreikningum þegar hæstv. ríkisstjórn tók við.
    Á þskj. 227 er svar við fsp. um sölu spariskírteina. Þar kemur í ljós að sala hefur dottið nánast niður. Vextir voru lækkaðir í ágúst, aftur lækkuðu vextir hjá núv. hæstv. fjmrh. og eftir að hann hóf að skrifa undir skírteinin má segja að þau hafi hætt að seljast. Á að giska hefur selst að undanförnu eða frá því að bankarnir gerðu samninginn um 1 milljarður. Ætli 1 milljarður hafi ekki verið innleystur á móti þannig að árangurinn er nánast enginn. Þetta hefur auðvitað erfiðleika í för með sér fyrir ríkissjóð. Að vísu hefur nokkuð selst, en þó lítið á yfirvöxtum eins og kemur fram í svari við fsp. um vexti á Verðbréfaþingi Íslands, en á því fer að mestu leyti fram sala á spariskírteinum ríkissjóðs.
    Það er þess vegna, virðulegur forseti, sem ástæða er til að spyrja þessarar spurningar. Sjálfur er ég nokkuð viss um að raunvaxtastigið hefur áhrif á sölu spariskírteina. Það er ljóst að spariskírteini eru svo mikill hluti skuldabréfa í umferð að vextir af þeim hafa afgerandi áhrif á vaxtastigið í landinu. Þess vegna er spurt hvort ríkisstjórnin sé hætt við að framkvæma stefnu sína. Þau orð voru látin falla á sínum tíma að það væri stefnt að því að ná raunvöxtum niður um 3% á næstu mánuðum og gefið í skyn að það yrði fyrir áramót þegar þetta var sagt í upphafi, það yrði gert mánaðarlega fram að áramótum. En það kann vel að vera að það séu til einhverjar nýjar skýringar á þessu og þess vegna er spurt, virðulegur forseti.