Lækkun vaxta á spariskírteinum
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Fyrirhugað er að næsta skref til lækkunar vaxta spariskírteina verði tekið um næstu áramót. Samningar standa nú yfir við söluaðila spariskírteina um þetta efni og fleiri atriði sem tengjast sölu spariskírteinanna. Þessir samningar eru nú, eins og ég vænti að hv. alþm. skilji, á viðkvæmu stigi og því ekki rétt að skýra nánar frá stöðu þeirra hér. Það verður reynt til þrautar að ná samningum við þessa aðila um sölutryggingu spariskírteina á næsta ári, en þar eru ýmis erfið mál í viðræðunum sem nást þarf samkomulag um önnur en vaxtaprósentan. En það kerfi sem við höfum búið við í þessum efnum á undanförnum mánuðum er nýtt og hefur verið framkvæmt hér í tilraunaskyni í fyrsta sinn að undanförnu.
    Ný ákvörðun um breyttan gjalddaga söluskatts, sem var til umræðu fyrir nokkrum mínútum, ætti þó að hjálpa til í þessum samningum af margvíslegum ástæðum. Vextir spariskírteina voru síðast lækkaðir um miðjan október. Þá lækkuðu vextir þriggja ára skírteina mikið eða 0,7% úr 8% í 7,3%, vextir fimm ára skírteina lækkuðu úr 7,5% í 7,3%, en vextir átta ára skírteina voru óbreyttir 7%. Þessi vaxtalækkun var gerð í samkomulagi við söluaðila spariskírteinanna. Þá höfðu verðtryggðir útlánavextir bankanna skömmu áður lækkað um 0,4%. En þetta stóra skref var stigið í trausti þess að vextir bankanna mundu lækka enn meira í kjölfarið. Það gerðist hins vegar ekki fyrr en í upphafi desember eins og kunnugt er.
    Vaxtalækkunin í október hefur verið gagnrýnd og því hefur verið haldið fram að sala spariskírteina hafi nánast stöðvast í kjölfar hennar eins og hv. fyrirspyrjandi gerði áðan. Þessi fullyrðing er þó ýkjur eins og kemur fram í skriflegu svari sem dreift hefur verið til hv. alþm. við fsp. frá sama hv. þingmanni, Friðrik Sophussyni. Þar má sjá m.a. að spariskírteinasala í nóvembermánuði á sambærilegu verðlagi í ár er meiri en 1986 og 1984. Þó er ljóst, og á það er engin dul dregin hér, að dregið hefur úr sölu spariskírteina að undanförnu. Þar liggja þó ýmsar fleiri ástæður að baki en vaxtalækkunin. Má þar nefna að samdráttur og lækkun ráðstöfunartekna er töluverður og mikil óvissa ríkir á sviði efnahags- og peningamála. Auk þess var alltaf reiknað með að bankar og sparisjóðir mundu sjálfir þurfa að halda töluverðu af spariskírteinum á þessum mánuðum, enda var um það samið á sínum tíma að þeir héldu ákveðinni upphæð og í staðinn var um að ræða ákveðna fyrirgreiðslu í málum sem bankarnir töldu mikilvæg.
    Í þessu sambandi ber að geta að reiknað var með í lánsfjáráætlun fyrir 1988 að ríkissjóður tæki 1 milljarð 260 millj. kr. að láni hjá bönkunum. Auk þess voru gerðar þessar hliðarráðstafanir sem ég vék að áðan, t.d. lækkun bindiskyldu, hækkun lausafjárhlutfalls og heimild til að telja 50% af spariskírteinaeign til lausafjár. Það er þess vegna ekki marktækt að vitna eingöngu í þá tölu sem óseld er hjá bankakerfinu vegna þess að ætíð var reiknað með að

bankakerfið mundi halda eftir verulegum hluta af þessum skírteinum hjá sér til mótvægis við þær aðgerðir aðrar sem ég hef hér upp talið og ákveðnar voru á sínum tíma.
    Auk þess er rétt að hafa í huga að reynsla margra undanfarinna ára sýnir að yfirleitt dregur úr sölu spariskírteina í október- og nóvembermánuði eins og m.a. kemur fram á því yfirliti sem dreift hefur verið í skriflegu svari við fsp. hv. þingmanns Friðriks Sophussonar. Því verður þó ekki neitað, eins og ég vil taka hér skýrt fram, að vel er hugsanlegt að lækkun vaxta spariskírteina hafi haft einhver áhrif í þessu sambandi, sérstaklega vegna þess að bankakerfið fylgdi ekki jafnrösklega á eftir og ætlanir höfðu staðið til þar er það gerðist nokkrum vikum síðar.
    Nær allt þetta ár hefur verið nokkuð fast samband á milli vaxtastystu spariskírteina og verðtryggðra útlánsvaxta bankanna. Lætur nærri að verðtryggðir útlánsvextir bankanna hafi verið um 1% hærri en vextir spariskírteina. Þetta samband raskaðist nokkuð í ágúst þegar vextir spariskírteinanna voru lækkaðir niður í 8%, en þá voru vextir bankanna 9,3%. Í september jafnaðist þetta, en munurinn var í lok september 1,1%. Jafnvægið raskaðist aftur við vaxtalækkunina í október, en þá verður munurinn 1,4% þar sem vextir spariskírteina voru 7,3% en vextir bankanna 8,7%. Eftir vaxtalækkun bankanna í byrjun þessa mánaðar hefur bilið hins vegar minnkað stórlega, en verðtryggðir útlánavextir bankanna eru nú að meðaltali um 8% þannig að munurinn er nú ekki nema 0,7%. Í ljósi þessa og þeirra horfa sem eru á næsta ári í efnahagsmálum, ríkisfjármálum og peningamálum og einkennast m.a., eins og hér hefur oft komið fram, af minnkandi lánsfjárþörf ríkissjóðs er vissulega tilefni til lækkunar vaxta á spariskírteinum ríkissjóðs um næstu áramót.