Lækkun vaxta á spariskírteinum
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans sem komu reyndar að mestu leyti fram í skriflegu svari hans við fsp. minni fyrir skömmu og vil ég nota tækifærið til að þakka það svar enn fremur. Ég skil mætavel að það er ekki hægt fyrir hæstv. ráðherra að gefa upplýsingar um þá samninga sem nú standa yfir við bankakerfið og söluaðila á spariskírteinum. Það er vissulega tímabært að hæstv. ráðherrar læri að það er ekki fyrir fram hægt að gefa út yfirlýsingar eins og voru gefnar út í haust og reikna strax með því að það komi inn í efnahagslífið því að stýring vaxta með handafli er aðferð sem við getum ekki notað. Það verður að taka tillit til markaðarins. Það er kannski aðalatriði þessa máls og til þess var spurt að menn áttuðu sig á því að það vantar mikið á að lækkun raunvaxta hér á landi hafi orðið 3% og það er ekki hægt að búast við slíku fyrr en meira jafnvægi næst á markaðnum. Ég vil þess vegna óska hæstv. ráðherra og ríkisstjórninni allri til hamingju með að hafa áttað sig á þessum grundvallaratriðum markaðslögmálsins og vænti þess að í framtíðinni fari hæstv. ráðherrar gætilegar í að gefa yfirlýsingar af þessu tagi því það er ekki nóg að lýsa yfir. Það sem þarf að gerast er að almenningur hafi trú á yfirlýsingunum.