Skipasmíðaiðnaðurinn
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Ekki var, virðulegi forseti, mikil reisn yfir hæstv. iðnrh. þegar hann vísaði til bresks fyrirtækis og þegar hann fór að tala um að það yrði að koma við aukinni framleiðni og hagkvæmni í rekstri skipasmíðastöðva en vék ekki einu einasta orði að þeim erfiðleikum sem skipasmíðaiðnaðurinn á við að búa og ætti hann þó að geta kynnt sér það og borið saman rekstrarreikninga undangenginna ára og athugað hvað það er sem hefur breyst.
    Ég vil biðja hæstv. iðnrh. t.d. að athuga hvernig var um þau miklu verkefni sem Slippstöðin á Akureyri vann fyrir Kanadamenn þegar hinir kanadísku togarar voru kassavæddir og hvaða áhrif það hafði á þá samninga þegar bandaríski dalurinn féll, til þess að hann geri sér grein fyrir því hversu miklu það skiptir, jafnvel þegar við erum að byggja fyrir erlenda aðila, hvernig íslenska krónan er skráð. Hann ætti að kynna sér t.d. byggingarsögu Sigurbjargar í Ólafsfirði. Hann ætti að kynna sér, ég vil segja skipasmíðasögu Íslands og athuga það hvernig farið hefur í hvert einasta skipti sem til langframa er haldið uppi þeirri stefnu að hafa skráningu gengisins ranga.
    Ég tók líka eftir öðru. Hæstv. iðnrh. gefur í skyn að sú framkvæmd sem hefur verið í Byggðasjóði hafi ekki verið góð eða fullnægjandi og er að tala um það að nauðsynlegt sé að taka upp aðra skipan. Það er náttúrlega mjög bagalegt, vil ég segja, og ég vil gagnrýna hann mjög heiftarlega og harkalega fyrir það að vera fjarverandi þegar lánsfjárlög eru rædd í Ed., þegar hann er uppi með slíkar hugmyndir. Þessi hæstv. ráðherra var ekki viðstaddur, og enginn af ráðherrum Alþfl., þegar verið var að ræða bráðabirgðalögin um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þeir létu ekki sjá sig, ekki einn einasti þessara manna. En hæstv. viðskrh. lét heldur ekki sjá sig þegar lánsfjárlögin voru rædd og nú er hann að tilkynna hér í fyrirspurnatíma að hann ætli í grundvallaratriðum að breyta því hvernig staðið verði á bak við viðhalds- og endurbyggingarverkefni skipasmíðaiðnaðarins og talar þar á öðrum nótum en hæstv. fjmrh. gerði í umræðunni um lánsfjárlögin. Það er náttúrlega ekki von að þingstörf gangi vel þegar ráðherrarnir tala með þessum hætti, með nánast fyrirlitningu fyrir hinni elstu löggjafarstofnun landsins og til þeirra manna sem þjóðkjörnir eru í þá stofnun.