Skipasmíðaiðnaðurinn
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Virðulegi forseti. Það má vera að ég hafi geisað, en hitt liggur fyrir að það ætti auðvitað að styrkja stöðu skipasmíðaiðnaðarins íslenska ef dollar fer niður vegna þess að það veldur því að Evrópumyntir fara þá að öllum jafnaði upp og þar er sú samkeppni sem við eigum við að stríða í skipasmíðaiðnaðinum en ekki í Bandaríkjunum. --- Ég sé að hann hristir höfuðið. Ég hefði nú gaman af að sjá og vita um það skip sem fer til viðgerðar til Bandaríkjanna og greitt er fyrir í dollurum þar. Auðvitað er samkeppnin í Evrópu fyrst og fremst. Það kom þó viðurkenning frá þessum hæstv. ráðherra á því að gengisskráningin skiptir máli, en um hitt hefur hann ekki sagt eitt einasta orð, hvort hann hyggist leggja sérstakt lántökugjald á skipasmíðar hér innan lands og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það líka og má vera að ástæða sé til að geisa enn meir út af því máli en ég hef enn gert. Í öðru lagi langar mig til að spyrja hann hvort hann telji almenn og efnisleg rök fyrir þeim skattalagabreytingum á tekjuskatti sem nú eru í sambandi við skipasmíðaiðnaðinn og aðra sveifluatvinnuvegi hér á landi og hvort hann telji sem hagfræðingur að með því sé hann að stuðla að jafnvægi í atvinnulífinu og með því sé hann að styrkja þær undirstöðugreinar sem íslenskt þjóðfélag stendur á.