Halldór Blöndal:
    Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að 15. málið verði tekið á dagskrá nú, fsp. til forsrh. um þjóðargjaldþrot. Ég held að alveg óhjákvæmilegt sé að ræða það mál. Ég ræddi við forseta Sþ. í morgun og hann tjáði mér að lokið yrði við dagskrána fyrir hádegi, þannig að ég hef gert ráðstafanir til þess að vera annars staðar í hádeginu, innan skamms. Enn fremur tjáði forseti Sþ. mér það að farið yrði eftir dagskránni eins og hún liggur fyrir. Ég vil þess vegna óska eftir því að farið sé eftir þeirri vinnureglu sem forseti Sþ. bað um og að þetta mál sé þegar í stað tekið á dagskrá.
    Ég þarf ekkert að taka það fram að ég hef bæði í nefndum og annars staðar kvartað mjög undan starfsháttum þingsins og skipulagi og haft orð á því að þeir menn sem eru í stjórnarandstöðu hafi lítil áhrif á það hvernig nefndarstörfum og öðru sé háttað og vinnuálag mikið. Þetta auðvitað veldur því að þegar maður fær svör reynir maður að skipuleggja þann tíma sem maður hefur á milli funda eftir mætti og má auðvitað segja að það sé óvarkárni af manni í stjórnarandstöðu að hann skuli leyfa sér að gera slíka hluti, að hann skuli búast við því að fundum ljúki þegar meiri hlutinn segir og að hann skuli búast við því að farið verði eftir dagskrá þegar meiri hlutinn segir að farið verði eftir dagskrá.
    Ég held að það sé algerlega óhjákvæmilegt að þessi fyrirspurn verði nú tekin fyrir og vil líka benda á það raunar að hlaupið hefur verið yfir 9. mál, fsp. til viðskrh. um lánstraust Íslands erlendis, þar sem spurt er: Hyggst viðskrh. . . . (Gripið fram í.) Ég bið þá afsökunar. Ég hef þá ekki verið til staðar. Það er rétt. Ég var að sinna öðrum málum. En ég vil óska þess að þetta mál verði tekið á dagskrá.