Greiðslukortaviðskipti
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Fsp. mín á þskj. 186 um greiðslukortaviðskipti krefst ekki langs inngangs. Þegar greiðslukortaviðskipti hófust varaði ég alvarlega við að hleypa þessu nýja greiðsluformi inn á peningamarkaðinn án þess að fyrir þessum viðskiptum væru lög og hef margítrekað spurt eftir hvað líði gerð laga um greiðslukortaviðskipti. Síðan er öllum kunnugt um að þetta greiðsluform er orðið eitt hið algengasta í landinu. Ég varaði á sínum tíma einnig við því að það færi óhjákvæmilega svo að kostnaður af þessum viðskiptum færi vitaskuld út í verðlagið. Þetta hefur að sjálfsögðu sýnt sig líka.
    Hér á landi hefur þessum viðskiptum verið hleypt miklu víðar en almennt gerist. T.d. er ekki unnt að kaupa matvöru samkvæmt greiðslukortum í nágrannalöndum okkar, en hér virðist nú hægt að versla með næstum hvað sem er með þessum kortum. En þegar svo er komið að kaupmenn, sem ýmsir hverjir hafa átt í erfiðleikum að undanförnu, hafa neyðst til þess að selja með afföllum greiðslukortanótur hlýtur maður að spyrja hvort slík viðskipti samræmist eðlilegum viðskiptaháttum, ekki síst þegar ljóst er að ríkisbankarnir eru komnir í þessi viðskipti líka.
    Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en ég hef sem sagt leyft mér að spyrja á þskj. 186:
,,1. Er ráðherra kunnugt um að viðskiptabankarnir hafi keypt greiðslunótur af kaupmönnum með talsverðum afföllum, allt að 30%?
    2. Ef svo er, hvert er viðhorf ráðherra til slíkra viðskipta?
    3. Hvað líður undirbúningi frumvarps um greiðslukorta- og afborgunarviðskipti sem boðað er í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar?``