Greiðslukortaviðskipti
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Öllu því sem ég spurði um svaraði hann nema kannski því hvert væri viðhorf hans til þessara viðskipta. Við skulum láta það liggja milli hluta. Ég hygg að við séum nokkuð sammála um að við teljum að þessi viðskiptamáti sé kannski ekki sá allra æskilegasti. Ég get mér þess þá til að hann sé sammála mér um það.
    Ég held að það sé mikil bót að þessari breytingu á dagsetningu eindaga söluskatts. Það er alveg ljóst að kaupmenn voru í vandræðum með þetta og það er áreiðanlega alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að einhver hluti þessarar nótusölu átti rætur að rekja til þess bils sem kom milli dagsetningar á söluskattsgreiðslum og greiðslu á greiðslukortanótunum.
    Jafnframt fagna ég því ef frv. sér loksins dagsins ljós þannig að þessi viðskipti byggist á lögum eins og önnur viðskipti gera. Allt of lengi hefur þetta verið látið flæða yfir þjóðina án þess að nokkur fengi rönd við reist.
    Ég held hins vegar að það sé mikið umhugsunarefni hver borgar kostnaðinn af þessari yfirgengilegu notkun greiðslukorta því að ég hygg að óvíða sé eins almenn notkun korta. Mér sýnist að svo til hvert einasta ungmenni sem orðið er 18 ára sé komið með greiðslukort, oft hliðarkort við kort foreldra sinna, og það virðast vera greiddar upphæðir allt niður í 250 kr. með greiðslukortum þannig að þetta er mjög svo öfgakennt í okkar landi.
    En hvað um það. Það er sjálfsagt rétt hjá hæstv. ráðherra að það er erfitt að stöðva slíkt þegar það er einu sinni komið á, en það er á hinn bóginn þeim mun nauðsynlegra að setja um þetta löggjöf.
    Ég vona að við sjáum þetta frv. eftir áramótin og þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans.