Bifreiðaskoðun í Hafnarfirði
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrir mitt leyti þakka hæstv. dómsmrh. fyrir mjög greinargóð svör við fsp. þessari. Það breytir þó ekki skoðun minni að hér sé farið inn á ranga braut, þ.e. að hætta skoðun bifreiða í Hafnarfirði og að ætla að byggja hér eina stóra skoðunarstöð fyrir allt höfuðborgarsvæðið.
    Það kom mjög vel fram í svari hæstv. ráðherra að um mikinn fjölda ökutækja er að ræða hér á höfuborgarsvæðinu og það er alveg ljóst að þjónustustig sem verður veitt í sambandi við skoðun ökutækja af hálfu hins nýja fyrirtækis, Bifreiðaskoðunar Íslands hf., verður mun lakara en verið hefur hvað íbúa höfuðborgarsvæðisins varðar. Því hlýt ég að harma það að sú ákvörðun hafi verið tekin að hætta skoðun bifreiða í Hafnarfirði, en þakka að öðru leyti fyrir greinargóð svör.