Orkufrekur iðnaður
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 177 hef ég leyft mér að flytja fsp. ásamt hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur til iðnrh. um orkufrekan iðnað. Fsp. er á þessa leið:
,,1. Hvaða ráðstafanir hefur iðnrn. gert til að leita samstarfs við erlenda aðila um orkufrekan iðnað, aðrar en að kanna hagkvæmni þess að stækka álverið í Straumvík eða byggja nýtt álver þar?
    2. Er í gangi kynningarstarfsemi sem byggist á því að orkufrek iðnfyrirtæki verði reist annars staðar en í Straumsvík eða á öðrum hugmyndum en á vinnslu á áli?``
    Ástæða fsp. er sú að nú síðustu mánuðina hefur verið settur allmikill kraftur í viðræður við fjögur evrópsk fyrirtæki um stækkun álversins í Straumsvík eða byggingu nýs álvers þar. Í þessum viðræðum er aðeins boðið upp á einn kost í þessu efni og ætla ég ekki að dæma um það í sjálfu sér hvort það er rétt stefna eða ekki. Er sjálfsagt að leiða þær viðræður til lykta. Hins vegar er mjög miður ef það er ríkjandi stefna til frambúðar að bjóða aðeins upp á einn kost í þessu efni og kanna ekki þá iðnaðarkosti sem eru víðar um landið. Þarna er um stefnubreytingu að ræða ef það er tilfellið að ekki sé ætlunin að bjóða upp á kynningu í þessu efni sem byggist á fleiri kostum en uppbyggingu í Straumsvík.
    Það var ekki fyrir löngu síðan í gangi mjög skipuleg vinna og undirbúningur að kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Þessi vinna hefur legið niðri síðan 1986 í þeim mæli sem hún var. Einnig voru umræður um álver við Eyjafjörð. Og þetta byggðist á hugmyndum um nýtingu orku og virkjunarframkvæmdir utan Þjórsársvæðisins. Þetta var gert í ljósi þess að það hefði jákvæð áhrif á byggðaþróun í landinu ef af yrði.