Orkufrekur iðnaður
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Fyrirspyrjendur, hv. 3. þm. Austurl. og hv. 5. þm. Norðurl. e., beina til mín fsp. sem í fyrri lið fjallar um það hvaða ráðstafanir iðnrn. hafi gert til þess að leita samstarfs við erlenda aðila um orkufrekan iðnað aðrar en að kanna hagkvæmni þess að stækka álverið í Straumsvík eða byggja þar nýtt álver.
    Þessu er til að svara að með stofnun sérstakrar markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar á þessu ári, sem er ætlað að leita að fýsilegum iðnaðarkostum sem nýta raforku í stórum stíl og að erlendum samstarfsaðilum um slík verkefni, þá má segja að þessi mál hafi verið sett í nokkuð ákveðinn farveg. Það er hlutverk markaðsskrifstofunnar að gera frumhagkvæmniathuganir á byggingu og rekstri orkufrekra iðnfyrirtækja hér á landi og kynna jafnframt hérlendis sem erlendis möguleika til þess að stofna slík orkufrek iðnfyrirtæki.
    Markaðsskrifstofan tók til starfa á miðju þessu ári og árangur af hennar starfi er því varla byrjaður að koma í ljós. Nú standa yfir, eins og vel er kunnugt, viðræður við fjögur erlend álfyrirtæki um aukna álframleiðslu í Straumsvík og því ætti markaðsskrifstofan senn að geta snúið sér að því að finna fleiri tækifæri þar sem erlendir aðilar með fjármagn og tækniþekkingu verði fengnir til samstarfs um uppbyggingu fyrirtækja á sviði orkufreks iðnaðar hér á landi.
    Ég mun endurmeta starf markaðsskrifstofunnar á miðju næsta ári. Ég legg á það mikla áherslu við markaðsskrifstofuna að hún gæti þess í störfum sínum að leita eftir iðnaðartækifærum sem geti hentað öðrum svæðum en suðvesturhorninu. Auðvitað er rétt að geta þess að í þessum málum er akurinn alls ekki óplægður. Áður hafa farið fram könnunarviðræður við álfyrirtæki um byggingu álvers á Norður- og Austurlandi og má þá nefna sérstaklega, eins og hv. fyrri fyrirspyrjandi gerði, viðræður um byggingu álvers við Eyjafjörð. En þær leiddu ekki til þess að ráðist væri í framkvæmdir. Þá hefur, eins og vel er kunnugt, hagkvæmni kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði verið könnuð rækilega. Á það minntist hv. fyrri fyrirspyrjandi líka. En því miður virðist það ekki vera hagkvæmt fyrirtæki eins og sakir standa. En það verður áfram fylgst með þróun markaðsmála sem snerta þennan kost.
    Í síðari lið fsp. var spurt hvort í gangi væri kynningarstarfsemi sem byggist á því að reist verði orkufrek iðnfyrirtæki annars staðar en í Straumsvík eða á öðrum hugmyndum en vinnslu á áli.
    Til viðbótar því sem ég hef þegar sagt um markaðsskrifstofuna vil ég nefna að iðnrn. vinnur jafnframt að almennri kynningu á orkumálum hér á landi og þeim möguleikum sem fyrir hendi eru til iðnaðaruppbyggingar í alþjóðlegum samskiptum sínum eftir því sem tækifæri gefast til. Ég hef í hyggju að endurmeta þetta kynningarstarf í tengslum við starf markaðsskrifstofunnar á næsta ári, ekki síst í ljósi athugunar sem nýlega er hafin á þýðingu orkufrekrar

stóriðju í þjóðarbúskapnum í þjóðhagslegu samhengi, m.a., og þar kem ég að spurningu hv. fyrirspyrjanda, með tilliti til æskilegrar búsetuþróunar og uppbyggingar orkukerfisins í landinu. Ég hef jafnframt í hyggju að efna þá til viðræðna um þessi mál við sveitarfélög og samtök sveitarfélaga í öllum landshlutum.