Raforkuverð til fyrirtækja
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Fsp. er einföld og óþarfi að fara mörgum orðum um hana. Það hefur margoft komið fram að hæstv. ríkisstjórn lofaði því og lýsti því yfir að hún ætlaði að beita sér fyrir 25% lækkun á raforkuverði til a.m.k. sumra fyrirtækja í útflutningsgreinum, a.m.k. í frystingu. Mér er jafnframt kunnugt um það að tekið var tillit til þessa þegar afkomureikningar í sjávarútvegi lágu fyrir og ákvörðun var tekin um fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Mun hafa verið miðað við það, sem ekki er fjarri lagi, að 25% lækkun á raforkukostnaði þýddi u.þ.b. 0,5% í afkomubót fyrir frystinguna.
    Nú er það svo að orkufyrirtæki landsmanna eru rekin með halla án hækkunar á orkuverði. Það er upplýst í þingnefnd að Landsvirkjun er rekin með halla, að Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins eru rekin með halla. Vaknar þá sú spurning hvort hæstv. ríkisstjórn ætli að standa við þessi fyrirheit og ef ríkisstjórnin ætlar að gera það, hver komi þá til með að borga brúsann. Verða það aðrir orkuneytendur eða verður það gert með erlendum lántökum? Að þessu er spurt vegna þess að ekki er séð, jafnvel þótt möguleiki reynist á einhverjum sparnaði, að hann náist í jafnríkum mæli og hér er ráð fyrir gert og er þó máttur hæstv. ríkisstjórnar mikill.