Raforkuverð til fyrirtækja
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Fyrirspyrjandi, hv. 1. þm. Reykv., spyr hvort ríkisstjórnin hyggist gangast fyrir lækkun raforkuverðs til fyrirtækja og ef svo sé hvernig og hvenær.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fyrstu aðgerðir og stefnu í efnahagsmálum og ríkisfjármálum segir m.a. að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir fjórðungslækkun á raforkuverði til þess fiskiðnaðar þar sem sólarhrings- og ársnotkun er tiltölulega jöfn. Sérstök nefnd, sem í eiga sæti fulltrúar iðnrn., Sambands ísl. rafveitna, Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, RARIK, vinna nú að því að taka saman upplýsingar um hvað sé um að ræða mörg fyrirtæki og hvert kynni að verða tekjutap orkuveitna af slíkri verðlækkun ef þau bæru hana. Þessi nefnd á að skila áliti sínu fyrir lok þessa mánaðar. Nefndin mun einnig leggja fram kosti um það hvernig hægt sé að standa við þessa verðlækkun. Því er auðvitað ekki að neita að enn er óútkljáð hvernig orkuveiturnar gætu mætt þessum tekjumissi sínum. Þetta er nú til athugunar og umræðu og enn er of snemmt að segja hver niðurstaðan verður. Ég bendi á að á meðan verðstöðvun stendur er ekki hægt að koma þarna við gjaldskrárbreytingum til hækkunar. Það er líka of snemmt að tilkynna nákvæmlega hvenær lækkunin muni koma til framkvæmda, en að henni er stefnt í byrjun nýja ársins.
    Það hefur ekki verið rætt um aðra lækkun raforkuverðs til fyrirtækja ef það var hluti af fsp. hv. 1. þm. Reykv.